132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Skipun ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneyti.

[15:06]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í umræðum um skýrslur Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis í vetur ræddum við þingmenn um að Alþingi skorti tæki til að fylgja álitum þessara mikilvægu fagstofnana Alþingis eftir ef ráðuneytin gera ekkert með niðurstöðu þeirra. Enn á ný blasir þessi vandi við. Hæstv. forsætisráðherra hefur brugðist við úrskurði umboðsmanns Alþingis varðandi skipun fyrrverandi félagsmálaráðherra í stöðu ráðuneytisstjóra í fjölmiðlum. Þau viðbrögð eru óásættanleg.

Í sögu Stjórnarráðs Íslands kemur fram að í stjórnskipulagi Vesturlanda sé að jafnaði gerður skýr greinarmunur á pólitískri yfirstjórn og æðstu stjórn embættismannakerfisins. Þeir sem tilheyra pólitískri forustu eru valdir af ráðherra án auglýsingar eða hæfnisskilyrða en þeir sem tilheyra embættismannakerfinu skulu eingöngu skipaðir eða ráðnir á grundvelli verðleika, svo sem starfsreynslu, menntunar eða annarrar skilgreindrar hæfni. Þetta er forsenda fyrir vönduðum vinnubrögðum stjórnsýslunnar sem skulu m.a. endurspeglast í kunnáttu, jafnræði, hlutleysi, ráðvendni og ábyrgð.

Svo einföld eru þau orð.

Þetta er forsenda fyrir vönduðum vinnubrögðum stjórnsýslunnar. Þarna verður að skilja á milli. Tillaga okkar í Samfylkingunni þar að lútandi liggur óafgreidd í nefnd og ég minni á hana hér.

Ég hefði viljað að hæstv. forsætisráðherra svaraði í þessum sal gagnrýni umboðsmanns Alþingis þess eðlis að athafnir félagsmálaráðherra við val á ráðuneytisstjóra hafi verið óforsvaranlegar og segði okkur hvað yrði gert með þetta álit. (Forseti hringir.)

Forseti. Hvað verður gert með þetta álit?