132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Skipun ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneyti.

[15:20]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ákveðnir þættir í þessu máli eru grafalvarlegir. Eða hvað á það að þýða að hæstv. forsætisráðherra skuli leyfa sér að segja um þetta mál í fréttum NFS síðastliðinn föstudag það sem hér stendur á útskrift frá Fjölmiðlavaktinni, með leyfi forseta, að hann hafi litið svo á að „það sé nú fyrst og fremst ráðherrarnir sem að þurfa að endingu að ráða því hverjir taka við starfi ráðuneytisstjóra. Þannig hefur það alltaf verið“?

Það er forsætisráðherra Íslands, Halldór Ásgrímsson, sem svona talar við fjölmiðla. Í sama fréttatíma segir virtur lögmaður, Ragnar Hall, að stjórnvöld hafi hunsað álit umboðsmanns, jafnvel þau allra alvarlegustu. Við stöndum frammi fyrir afar alvarlegum hlutum, frú forseti, og þingheimur og öll þjóðin verður að gera sér grein fyrir því. Hæstv. forsætisráðherra getur ekki talað svona. Hann er bundinn af stjórnsýslulögum og þetta er mjög alvarleg yfirlýsing sem kemur frá honum í þessum fréttatíma NFS. Við skulum skoða hana í samhengi við það sem er að gerast á löggjafarsamkundunni, frumvarp eftir frumvarp fer í gegn frá ríkisstjórninni um að nú eigi að kippa stjórnsýslulögum úr sambandi í þessari stofnuninni og hinni stofnuninni og loka stofnanir frá upplýsingalögum. Ég nefni Rarik, ég nefni allar matvælarannsóknir á Íslandi, Ríkisútvarpið — þetta er stefna þessa hæstv. forsætisráðherra og þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Lokum af upplýsingar gagnvart þjóðinni og hættum að fara að stjórnsýslulögum. Við ráðum því sem við viljum ráða. Þetta segja forustumenn þessarar ríkisstjórnar. Það er þetta sem er ekki forsvaranlegt, frú forseti.