132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Skipun ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneyti.

[15:22]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að leggja nokkur orð í belg í þessari umræðu. Það liggur vitaskuld fyrir og hefur verið rakið að mat á umsækjendum fór ekki fram eins og lög kveða skýrt á um að skuli gerast. Það liggur fyrir og kannski er ekkert um það deilt.

Ég vil líka taka fram að sú sem ráðin var er mjög hæf og ekki er ástæða til að efast um hæfi hennar þó að aðrir kunni jafnvel að hafa verið hæfari. Um það finnst mér málið ekki snúast. Ég held hins vegar að yfirlýsingar eins og sú sem hæstv. forsætisráðherra gaf, þess efnis að þegar upp er staðið ráði ráðherrar, bendi til þess að virðing fyrir lögum og reglum sem ráðherrar verða að virða hafi ekki verið til staðar og það er mjög alvarlegt mál.

Á hinn bóginn vil ég aðeins draga fram að þessi umræða kallar einnig á að við ræðum hér af miklu meiri alvöru en verið hefur um það hvernig við skipum embættismenn og hvernig við skiptum þeim upp. Það er mikilvægt að við ræðum það hvort pólitískir embættismenn sem ráðnir eru eigi að fylgja ráðherrum og þá jafnvel fara út með þeim. Ég held að það sé eitthvað sem við þurfum virkilega að ræða. Ég met það sjálfur svo að eðlilegt sé að ráðuneytisstjórar, sem eru einhvers konar yfirverkstjórar í ráðuneytum, fylgi ráðherrum og fari einnig þegar þeir yfirgefa vettvanginn.

Ég held að það sé mikilvægt að við ræðum þetta en ég ítreka að það er óeðlilegt að við höfum skýrar reglur um hvernig þetta skuli vera en við viljum bara ekki fara eftir þeim þegar það hentar. Það er afleitt. Við þurfum að taka þessi mál til miklu betri umræðu og ræða það hvar við viljum hafa pólitíska embættismenn og hvar ekki. Það er ekki hægt að ráða embættismenn samkvæmt lögum (Forseti hringir.) en virða ekki þær reglur sem á að fara eftir.