132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Skipun ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneyti.

[15:24]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Örfá atriði inn í þessa umræðu. Ég tel að mjög frjálslega sé lagt út af orðum forsætisráðherra ef menn túlka orð hans þannig að ráðherrar eigi ekki að fara eftir stjórnsýslulögum við ráðningar. Hann sagði það ekki. Ráðherrar hljóta að ráða að lokum en auðvitað eiga þeir að fara eftir þeim reglum sem í gildi eru. Það er ekkert verið að deila um það.

Mér finnst reyndar þessi umræða hafa farið út um víðan völl. Menn hafa talað um frumvörp, menn hafa talað um ráðningar hæstaréttardómara, verið með samsæriskenningar um brotthvarf Árna Magnússonar o.fl.

Það er eitt sem ég vil undirstrika. Eins og skipulagið er hjá okkur eru ráðuneytisstjórar ekki pólitískir aðstoðarmenn ráðherra. Þeir eru embættismenn og ber að ráða þá eftir því. Sá ráðuneytisstjóri sem þarna um ræðir er embættismaður. Ég hef aldrei litið á ráðuneytisstjórann sem minn pólitíska aðstoðarmann. Ég bið hv. þingmenn að rugla þessu ekki saman.

Mestu máli skiptir að þarna er um að ræða tvo hæfa einstaklinga. Sá einstaklingur sem ráðinn var er mjög hæfur. Það þekkjum við, þingmenn, því að sá einstaklingur hefur m.a. unnið í þessari stofnun. Ég þarf ekki að lýsa því. Umboðsmaður gerir ekki athugasemdir við það hvernig var auglýst. Starfið var auglýst og ekki eru gerðar athugasemdir við það. Hann reiknar ekki með að þetta hafi áhrif á ráðninguna.

Ég hlýt að lesa út úr þessu að þarna sé um að ræða aðfinnslur við aðferðina og ég tek alveg fullt mark á þeim. Ég tel þó ekki að þetta gefi ástæðu til að breyta ráðningunni.