132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[15:46]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason segir að sá sem hér stendur trúi ekki því sem hann segir. (JBjarn: Nei, ég trúi því ekki ...) Það er einfaldlega skoðun hv. þingmanns.

En ég verð að segja: Ef það er ekki félagshyggja að stuðla að því að auðlindir Íslendinga, orkuauðlindirnar, verði áfram í meirihlutaeigu þjóðarinnar þá veit ég ekki hvað hv. þingmaður kallar félagshyggju. Ef það er ekki félagshyggja að auka hagkvæmni í rekstri Rafmagnsveitna ríkisins, Rarik hf., með það að markmiði að stuðla að því að 49.000 viðskiptavinir Rariks njóti lægra orkuverðs þá veit ég ekki hvað félagshyggja er. Það er verið að stuðla að því að auka sveigjanleika í rekstri þessa fyrirtækis. Það verður að fullu í eigu ríkisins áfram og íslensks almennings og það stendur ekki til að breyta því. Alveg sama hversu oft hv. þm. Jón Bjarnason gefur annað í skyn.