132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[15:47]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að ekki einu sinni heldur tvisvar sagði hv. þm. Birkir Jón Jónsson að það væri stefna Framsóknarflokksins að selja ekki meirihlutaeign ríkisins í Rarik og Landsvirkjun þá væntanlega líka.

Spurningin til hv. þingmanns er þessi: Er Framsóknarflokkurinn til í að selja 49,9% í Rafmagnsveitum ríkisins, af því hlutafé sem þar verður til? Það er mikilvægt að fá það fram. Það gæti komið inn fjárfestir sem vildi kaupa 49,9% og vera minni hluti og samkvæmt skilgreiningu framsóknarmanna ætti það að vera í lagi. Sá fjárfestir gæti gert miklu hærri arðsemiskröfur en ríkið gerði ef það ætti 100%. Það gæti leitt til þess, virðulegi forseti, að það þyrfti að hækka orkuverð enn frekar — fræg eru nú skref Framsóknarflokksins í hækkun rafmagns til íbúa í dreifbýli.

Spurning mín er þessi: Er Framsóknarflokkurinn tilbúinn að selja 49,9% í breyttum Rafmagnsveitum ríkisins?