132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[15:50]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir að hv. þingmaður vildi ekki ræða hér í andsvari við mig raforkuverðið árið 1991, enda var þá hans flokkur, hv. þingmanns, í ríkisstjórn. Staðreyndin er sú að raforkuverð hefur lækkað heilmikið frá árinu 1991. (Gripið fram í.)

En hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr þrálátlega um hvort ég vilji hér taka ákvörðun fyrir hönd Framsóknarflokksins. Ég get talað fyrir mig, sem formaður iðnaðarnefndar, að ég tel alveg fyllilega koma til greina að eitthvert fyrirtæki gæti komið inn í þennan rekstur ef það mundi gera rekstur fyrirtækisins hagkvæmari.

Við skulum horfa til Norðmanna og olíuauðlindarinnar þar. Þar hafa fagfjárfestar fengið að koma inn, hugsanlega með tækniþekkingu og annað slíkt, svo ég vil ekki útiloka að einhverjir aðilar geti komið inn með lítinn hluta. En það er skýrt að meirihlutaeign verður að vera í eigu ríkisins að mínu mati.