132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[15:52]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Eins og ég rakti í framsöguræðu minni er það sameiginlegt álit stjórnenda og starfsmanna Rariks að hér sé um mjög ánægjulega breytingu að ræða, sem, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir rakti, mun gera rekstur fyrirtækisins sveigjanlegri. Það er samdóma álit þeirra sem starfa við þetta fyrirtæki að núverandi ástand sé ekki eins gott og mælt er fyrir hér með hlutafélagaforminu.

Ég fór yfir það hér áðan að ákvarðanataka er oft háð samþykki ráðuneytis og í samkeppnisumhverfinu, þegar einhver tækifæri bjóðast og menn þurfa að taka skjótar ákvarðanir, getur verið dálítið tafsamt að þurfa að senda beiðni upp í ráðuneyti og fá samþykki fyrir því að menn megi kaupa tiltekna húseign eða hvað svo sem annað má segja um það. En rekstur fyrirtækisins verður miklu sveigjanlegri með þessari breytingu.