132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[15:57]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Þuríður Backman kom með ágæta spurningu um arðsemiskröfuna og hvert hún rynni. Nú er ljóst að þetta á að vera fyrirtæki að fullu í eigu ríkisins. Sú arðsemiskrafa sem við gerum til fyrirtækisins er sú að fyrirtækið hagræði rekstri sínum með það að markmiði að veita viðskiptavinum sínum lægra orkuverð. Það er skýr stefna til framtíðar að reyna að lækka orkureikning landsmanna með því að gera fyrirtækið skilvirkara og betra í rekstri. Það er vilji starfsmanna fyrirtækisins. Ég minni á að það eru rúmlega 49.000 manns sem skipta við þetta fyrirtæki og það skiptir miklu máli ef við getum stuðlað að því að rafmagnsreikningur þessa hóps lækki.