132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[16:01]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Við þingmenn Samfylkingarinnar skrifuðum undir þetta álit með fyrirvara. Það er í sjálfu sér stundum svolítið flókið að fást við mál hér á Alþingi. Við erum á þeirri skoðun að starfsemi sem þessari sé prýðilega fyrirkomið í hlutafélagi.

Við höfum hins vegar ýmsa fyrirvara við þessa hluti. Sá fyrsti sem ég vil nefna er að við teljum að setja þurfi sérstök lög um hlutafélög í eigu ríkisins. Enda hefur formaður flokksins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, ásamt öðrum þingmönnum, flutt frumvarp um það efni. Ríkisstjórnin hefur líka flutt frumvarp um þetta efni. En við teljum að það frumvarp nái ekki utan um málið með þeim hætti sem hægt er að sætta sig við.

Það er með ólíkindum að ríkisstjórnarflokkarnir skuli á undanförnum árum hafa sett þann rekstur sem er í hlutafélagaformi í vegum ríkisins í þá stöðu að upplýsingar til alþingismanna skuli ekki liggja fyrir. Að ekki sé hægt að fá upplýsingar um þessi fyrirtæki og rekstur þeirra með fullnægjandi hætti.

Ég segi alveg eins og er að ég botna ekkert í þeirri afstöðu sem í þessu felst, einfaldlega vegna þess að fyrir stjórnmálamenn og hið opinbera, eins og það kemur fram fyrir augu almennings, þá er traust númer eitt. Traustið fæst með því að segja frá hlutunum, að þeir séu uppi á borðinu. Að upplýsingarnar séu til staðar fyrir almenning. Stjórnmálamenn eiga síðan auðvitað að sækja eftir þeim upplýsingum.

Þetta vildi ég nú segja fyrst. Síðan ætla ég að koma að því sem hv. framsögumaður sagði hér áðan í andsvörum því það kom mér nokkuð á óvart. Það segir nefnilega í 3. gr. frumvarpsins að öll hlutabréfin skuli vera í eigu ríkisins. Í andsvari sagði hv. þingmaður hins vegar að meiri hluti hlutabréfanna ætti að vera í eigu ríkisins. Ég óska eftir því að hv. framsögumaður og formaður iðnaðarnefndar geri nánari grein fyrir því hvað hann er að fara með þessu. Hér erum við að tala um skýra lagasetningju sem liggur fyrir í tillögunni og engin breytingartillaga frá meiri hlutanum um að öll hlutabréfiin skuli vera í eigu ríkisins.

Formaður nefndarinnar gerir grein fyrir því hér að hann hafi einhverja allt aðra skoðun. Þó svo að ég hafi þá skoðun að eignarhald á Landsvirkjun geti vel verið til umræðu og hef reyndar sett fram ákveðnar hugmyndir um að í raun og veru ætti að líta til sveitarfélaganna hvað varðar eignarhald á þessu fyrirtæki, einfaldlega vegna þess hvernig að eignirnar hafa orðið til í Rarik, þá verð ég að segja alveg eins og er að ég tel að þetta ákvæði sé mjög mikilvægt og á því hangir að mörgu leyti sú afstaða okkar samfylkingarmanna að vilja styðja við þetta. Einfaldlega vegna þess að á meðan lögin eru svona skýr um að öll hlutabréfin skuli vera í eigu ríkisins þá ætti ekki að vera hætta á að fyrirtækið verði sameinað öðru eða selt, eða seldir hlutir úr því. Vegna þess að það liggur algjörlega fyrir að þá þarf lagabreytingu hér á Alþingi.

Ég set það fram sem mína skoðun, alveg skýra, að jafnvel þótt menn væru að tala um að sameina ríkisfyrirtæki eins og Orkubú Vestfjarða og Rarik, þá þurfi á því að halda að fá samþykki Alþingis fyrir því. Ef menn hafa aðra skoðun á þessu þá bið ég um að það komi fram. Þannig að málið tel ég þurfa að rata hér inn í sali Alþingis ef á að verða einhvers konar breyting á eignarhaldi eftir að þetta frumvarp verður að lögum.

Ég endurtek, ef hv. þingmaður, Birkir Jón Jónsson, formaður iðnaðarnefndar hefur ekki heyrt til mín áðan þegar ég spurði. Ég tel ástæðu til að spyrja hann nákvæmlega eftir því hvað hv. þingmaður eigi við, þegar hann sagði hér í andsvari áðan að hann teldi að meiri hluti ætti að vera í eigu ríkisins. Mér finnst það alls ekki passa við þessa lagasetningu og tel reyndar að það sé útilokað að líta þannig á að þessi lög geti þýtt annað en að ríkið eigi þetta fyrirtæki áfram í óbreyttri mynd, að óbreyttu þessu frumvarpi ef það verður að lögum. Það er nákvæmlega þannig.

Ég hef hins vegar þá skoðun, og hv. þingmaður getur líka haft þá skoðun, að í framtíðinni geti menn breytt þessum lögum. En þá verða menn auðvitað að kannast við þá skoðun og setja hana þannig fram að menn geti vel séð fyrir sér að aðrir aðilar en ríkið eigi Rarik. Ég ætla að fjalla aðeins betur um að í raun og veru eigi að fara vandlega yfir hverjir það eru sem eðlilegast væri að ættu Rafmagnsveitur ríkisins.

Þar finnst mér að fyrst og fremst eigi að skoða sveitarfélögin, fólkið í sveitarfélögunum sem hefur byggt eignir Rarik upp og að miklu eðlilegra sé líta á eignarhald Rariks út frá þeim forsendum hvernig eignin hefur orðið til en út frá því að ríkið hafi sett fyrirtækið á laggirnar og borið ábyrgð á því, og þess vegna eigi ríkið að eiga fyrirtækið. Það finnst mér ekki.

Þegar menn velta því fyrir sér í samhengi við eignamyndunina í Landsvirkjun, hjá Reykjavíkurborg og Akureyri, þá spyr ég: Hvernig geta menn þá séð sanngirni í að önnur sveitarfélög, sem hafa með greiðslum og kaupum á þjónustu á Rarik byggt upp eignir Rariks, eigi að sitja hjá og fái enga umbun fyrir það? Þetta er mín skoðun og ég hef margoft sett hana fram og ég tel að full ástæða sé til að menn skoði þetta og ég hvet sveitarstjórnarmenn til þess, sveitarstjórnarmenn sem eru að verja hagsmuni þeirra sveitarfélaga sem hafa í raun og veru byggt upp þessar eignir, og þær eru ekki litlar, 11 milljarðar eru þær að nafnvirði í fyrirtækinu í dag. Sennilega miklu meira virði en það. Það hefur nú verið hægt að beygja sig fyrir minna í þessu samfélagi, að minnsta kosti enn þá, en fjármunum af því tagi.

Það mundi muna um ef sveitarfélögin í landinu eignuðust þessar eignir að hluta til eins og mjög eðlilegt væri. Ég get vel sætt mig við að þetta fyrirtæki verði gert að hlutafélagi og sett á almennan hlutabréfamarkað ef menn standa almennilega að því að gera þetta fyrirtæki að hlutafélagi og koma til móts við eigendurna sem að mínu viti ættu að minnsta kosti að vera af töluverðum hluta til sveitarfélögin í landinu og það fólk sem hefur byggt upp þær eignir sem þarna eru.

Ég tek fram að þetta eru persónulegar skoðanir mínar og að aldrei hefur verið tekin nein sérstök afstaða til þess sem ég er að segja núna í Samfylkingunni. Samfylkingin hefur hins vegar haft þá skoðun að það sé eðlilegt að nota hlutafélagaformið hvað varðar þessi fyrirtæki eins og hér er til umræðu. Það er þess vegna sem við höfum teygt okkur til móts við meiri hlutann og skrifum undir þetta mál með fyrirvara.

Undirbúningur þessa máls hefur ekki verið allt of góður, sem málið ber auðvitað töluvert með sér núna þegar það er sett fram. Það sést á því að það eru breytingartillögur við fimm greinar af þeim tíu sem eru í frumvarpinu. Ein greinin er felld gjörsamlega í burtu. En það eru breytingartillögur við fjórar aðrar greinar.

Það er í sjálfu sér dálítið spaugilegt að sjá sumt af því sem þarna er, eins og ef horft er á þetta í samhengi við það hvenær málið var lagt fram, einhverjum tíu, tólf dögum áður en í frumvarpinu stóð, að það ætti að stofna hlutafélag á stofnfundi sem átti að halda eigi síðar en 15. desember. En málinu var dreift á Alþingi um mánaðamótin þar á undan, mánaðamótin nóvember/desember. Síðan þegar 10. gr. er lesin sem meiri hlutinn, eða nefndin, leggur núna til að verði felld út í heilu lagi, þá segir þar, með leyfi forseta:

„Iðnaðarráðherra skipar nefnd þriggja óvilhallra manna og skal a.m.k. einn þeirra vera löggiltur endurskoðandi. Hlutverk nefndarinnar er að meta eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Rafmagnsveitna ríkisins og skal nefndin leggja mat á hvert stofnfé hlutafélagsins skuli vera. Við mat þetta skal nefndin hafa fullan aðgang að öllum gögnum Rafmagnsveitna ríkisins og skulu stjórnendur og starfsmenn fyrirtækisins veita nefndinni þá aðstoð er hún óskar. Nefndin skal leggja niðurstöður sínar fyrir iðnaðarráðherra eigi síðar en þremur dögum fyrir stofnfund.“

Málinu er sem sagt dreift í byrjun desember eða nálægt mánaðamótunum. Nefndin, sem á að skipa samkvæmt lögum, á að klára að meta fyrirtækið og leggja það mat fyrir iðnaðarráðherra þremur dögum fyrir stofnfund, sem á vel að merkja að vera 15. desember. Það hlýtur að vera gert ráð fyrir miklum afreksmönnum til að gera þetta. En samt sem áður held ég að þetta gæti aldrei gengið upp.

Þetta er dæmi um að málið hefur ekki verið vel hugsað og undirbúið. En ef breytingartillögurnar verða samþykktar þá verður náttúrlega öllum þessum hlutum breytt með þeim hætti að það er hægt að vinna þetta verkefni sem iðnaðarráðherra á að hafa á hendi og þeir aðilar sem það er falið. Síðan er þessi 10. gr. reyndar felld algerlega í burtu. Svo menn sjá ekki ástæðu til að meta fyrirtækið með neinum öðrum hætti en fyrir liggur í bókum þess. Ég held í sjálfu sér að það sé ágætisniðurstaða.

Þótt margir dragi það í efa og ræði málin út frá ýmsum sjónarhornum, þ.e. samkeppnisumhverfið sem ævinlega er talað um koma á í raforkugeiranum, þá tel ég það þrátt fyrir allt ómaksins vert að menn streitist við að gera það og reyni það með öllum ráðum. Eitt af því er auðvitað að gera fyrirtæki sem taka þátt í samkeppni sem eðlilegust hvað varðar regluverk. Það er þess vegna að mörgu leyti eðlilegt að halda hlutafélagaformi við á þessum markaði. Þess vegna höfum við ekki talið óeðlilegt að gera þetta fyrirtæki yrði að hlutafélagi.

Eins og hv. formaður nefndarinnar sagði kom fram á fundum nefndarinnar að það var óvanalegt, hvað varðar málefni af þessu tagi, að starfsmenn fyrirtækisins virtust nokkuð vel sáttir við að fyrirtækið yrði gert að hlutafélagi. Þeir virtust ekki óttast mjög um sinn hag við breytinguna. Þeir sögðu reyndar, sem komu á fund nefndarinnar, að þeim fyndist tími til kominn að óvissunni yfir fyrirtækinu yrði eytt og menn færu gera fyrirtækið að því sem það ætti að vera til framtíðar. Þeir litu greinilega svo á að fyrirtækið yrði að hlutafélagi, sem hluta af því að skýra mynd fyrirtækisins til framtíðar. Eins og ég sagði áðan eru ekki uppi þau vandamál sem oft hefur komið upp, að starfsmenn séu smeykir um sinn hag og jafnvel á móti aðferðinni sem lagt er til að beita.

Eins og ég nefndi áðan flytjum við þingmenn Samfylkingarinnar breytingartillögu við þetta frumvarp. Sú breytingartillaga er eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Í stað orðsins „Iðnaðarráðherra“ í síðari málslið 3. gr. komi: Fjármálaráðherra.“

Fyrir þessu vil ég færa fram nokkur rök. Iðnaðarráðherra hefur gríðarlega mikið með umfjöllun um auðlindir í landinu að gera, m.a. hefur iðnaðarráðherra haft á sinni könnu að taka afstöðu til þess hverjir eigi að fá leyfi til að rannsaka og jafnvel nýta auðlindir. Hæstv. ráðherra hefur þar úrslitaáhrif. Jafnframt er iðnaðarráðherra yfirmaður og æðstráðandi yfir raforkufyrirtækjum í eigu ríkisins. Auðvitað getur það ekki farið saman að sami ráðherra skeri úr um hvaða fyrirtæki fái rannsóknarleyfi, t.d. til að nýta orku, til að skoða orkunýtingarmöguleika í landinu eða leyfi til að fá þessar orkulindir til nýtingar og velji annars vegar milli ríkisfyrirtækja sem hann er æðstráðandi yfir og annarra fyrirtækja á markaðnum. Þetta er auðvitað gjörsamlega óþolandi stjórnsýslufyrirkomulag. Menn hafa auðvitað bent á þetta. Aðilar komu á fund nefndarinnar, t.d. frá Hitaveitu Suðurnesja og frá Orkuveitu Reykjavíkur, og bentu á þetta. Sama gerðu reyndar aðrir líka, ýmist í samtölum eða umsögnum. En meiri hlutinn í iðnaðarnefnd var ekki til viðtals um að gera bragarbót á þessu. Því varð niðurstaða okkar í Samfylkingunni að flytja þessa breytingartillögu, í þeirri von að við gætum orðið þokkalega sátt við heildarniðurstöðuna úr þessu máli.

Eftir að hafa hlustað á marga þingmenn ræða þetta málefni sérstaklega, þar sem þeir hafa verið okkur sammála um að þetta fyrirkomulag sé ekki líðandi og menn verði að taka á því, þá trúi ég því bara ekki að alþingismenn, með samviskuna að leiðarljósi, þegar þeir taka afstöðu til þessarar tillögu í sölum Alþingis, geti komist að annarri niðurstöðu en að hér verði menn að gera breytingu á og að fela fjármálaráðherra yfirráðin yfir hlutabréfunum í Rarik, í stað hæstv. iðnaðarráðherra eins og nú er.

Það kemur í ljós hvernig fer með þessa breytingartillögu og hvernig atkvæðagreiðslu um hana lyktar á Alþingi. Ég hef trú á að við samfylkingarmenn getum með bærilegri samvisku samþykkt þetta mál að lokum ef tillaga okkar verður samþykkt. Þá tel ég að við höfum ákveðna tryggingu fyrir því að á ferðinni sé mál sem er þó a.m.k. í lagi þangað til ný stjórnvöld hafa tekið við í þessu landi og geta gert þær breytingar sem upp á vantar. Mér sýnist af þeim fréttum sem ég hef heyrt og umfjöllun um hlutafélög í opinberri eigu, að við fáum ekki viðunandi niðurstöður þar og að breyta þurfi þeim lögum þegar möguleiki gefst til á Alþingi. Þangað til verðum við að treysta því, ef samþykkt verður ásamt þeim tillögum sem fyrir liggja, að öll hlutabréfin verði í eigu ríkisins. Við getum þá reiknað með því að ekkert hafi breyst þegar kemur fram á næsta kjörtímabil og menn taka málið upp að nýju, ef til þess verður meiri hluti.

Auðvitað væri ástæða til að ræða fjölmargt í samhengi við þessa umræðu. Ég nefndi áðan varðandi sveitarfélögin að eðlilegt væri að þau eignuðust hlut í Rafmagnsveitum ríkisins. Ég vonast til að í framhaldi af þessu, þegar búið er að gera félagið að hlutafélagi, muni menn nú fara yfir þessi mál. Ég efast ekki um að þegar kemur að sölu, eða kaupum ríkisins, á hlut Akureyrarbæjar og Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun muni umræðan um þessi mál vakna vegna þess að þá munu menn sjá hverslags gríðarleg verðmæti eru fólgin í orkufyrirtækjum okkar.

Það er líka annað sem þarf að ræða. Það er ekki þannig að hægt sé að setja fyrirtæki eins og Rarik á markað eða breyta eignarhaldi á því þannig að aðrir komi þar til fyrr en búið er að setja eðlileg lög um auðlindir í þjóðareign og hvernig með þær eigi að fara. Það þarf a.m.k. að rannsaka hvort hluti af þeim auðlindum sem Rarik hefur yfir að ráða mundi teljast í þjóðareign. Ég hef ekki þekkingu á því en það þyrfti auðvitað að skoða áður en menn taka afstöðu til þess hvort öðrum verði gert kleift að eignast hlut í þessu fyrirtæki í framtíðinni. Við erum í raun ekki að fjalla um það núna en mér finnst ástæða til þess að nefna þetta. Ég tel að öll þessi fyrirtæki, öll orkufyrirtæki í eigu ríkisins, þurfi að skoða út frá umræðunni sem þarf að fara fram um þjóðarauðlindir. Það þarf að ganga frá auðlindum sem fyrirtæki eins og Landsvirkjun og önnur slík hafa undir höndum með þeim hætti að þær verði áfram í þjóðareign og fyrirtækin hafi afnot af þeim með viðunandi samningum sem geta átt við um auðlindir í þjóðareign. Þetta er merkilegt viðfangsefni sem menn þurfa að skoða í rólegheitum og sameiginlega. Í sjálfu sér er ekki hægt að ganga í þau fyrr en eftir að búið er að innleysa hlutina í Landsvirkjun frá Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ.

Eins og allir vita slitnaði upp úr samningaviðræðum um þau skipti í vetur, því er verr og miður. Ég tel að það muni kosta ríkissjóð drjúgan skilding vegna þess að auðlindirnar gera ekki annað en að hækka í verði. Orkan af þeim auðlindum sem Landsvirkjun hefur í sínum höndum heldur áfram að hækka í verði í framtíðinni. Ég varð satt að segja frekar undrandi á þeim tölum sem ég heyrði á sínum tíma um hvers virði þessi hlutur Akureyrarbæjar og Reykjavíkurborgar væri talinn. Mér fannst að þar hefði vel mátt koma betur til móts við bæjarfélögin til að ljúka málinu.

Áðan var komið inn á raforkumarkaðinn í umræðunni, ég má til með að nefna það aðeins, og upphitun húsa með raforku í landinu. Um það hefur farið fram gríðarleg umræða í gegnum tíðina. Það er eðlilegt vegna þess að þetta er stór hluti af kostnaði fólks við rekstur húseignar. Fólk hefur auðvitað átt erfitt með að skilja að Íslendingar, svo orkurík þjóð sem raun ber vitni, sem hefur efni á að selja orku á svo ótrúlega lágu verði sem allir sjá að er í samningum við fyrirtæki sem framleiða ál, stóriðjuna, fái ekki raforkuna á bærilegra verði til að hita upp húsin sín. Í sölum Alþingis hafa menn gripið til þess ráðs að greiða niður orkukostnað til að koma til móts við fólk á þessum svokölluðum köldum svæðum. Niðurstaðan sem við höfum fengið út úr þessu er sú að ekki sé að sjá annað en að niðurgreiðslurnar flækist svolítið fyrir hvað það varðar að sækja hitaorku úr jörðu til að hita upp hús á Íslandi.

Til að bregðast við því hefur verið á undanförnum árum verið greiddur til nýrra hitaveitna styrkur sem hefur verið fólginn í því að menn fengju sem svaraði tilteknum árafjölda sem húseigendur hafa fengið vegna niðurgreiðslu á húshitun. Þetta voru upphaflega fimm ár en var síðan hækkað upp í sjö. Sannleikurinn er sá að þetta var ekki nóg. Það hefur sýnt sig að menn hafa ekki nýtt sér möguleika sem þó hafa verið til staðar til að ná í heitt vatn til að hita upp hús. Menn hafa ekki séð nógu skýran hag í að gera það. Ég tel að ganga hefði mátt lengra og tel að þarna ættu að lágmarki að vera til staðar tíu ár til að hvetja fólk, fyrirtæki sveitarfélaga eða fyrirtæki á svæðum þar sem ekki eru hitaveitur í dag, til að leita að heitu vatni og koma á hitaveitum. Þetta þarf að taka til endurskoðunar.

Ég ætla ekki að fara í umræðu um raforkuverðið að sinni og þau vonbrigði sem margir hafa orðið fyrir með samkeppni á raforkumarkaðnum, sem menn töldu sig hafa komið á en það virðist ekki björgulegt enn þá. Ég efast um að menn muni sjá þess stað á næstunni. Það er ekkert sem bendir til þess. Ég er samt á þeirri skoðun að stjórnvöld eigi, úr því að lagt var af stað í þá göngu, að gera allt sem hægt er til að skapa samkeppnisumhverfi á þessum markaði. Hluti af því er að öflug fyrirtæki séu á þessum markaði og að þau séu ekki í eigu sömu aðila þannig að menn sitji allt í kringum borðið að semja við sjálfa sig. Þannig er þetta í dag en þannig má það ekki vera í framtíðinni eigi að byggja upp traust á þessum markaði.

Ég vonast til þess að fá svör við því sem ég spurði um áðan. Ég ætla svo að fylgjast með umræðunni og sjá til hvort ég tek frekari þátt í henni.