132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:09]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð enn og aftur að vitna til þess að sjálfstæðismenn eru mjög heiðarlegir í þessu. Þeir vilja einkavæða almannaþjónustuna. En ég hef aldrei talað um staðnað stofnanakerfi, hv. þingmaður tekur það sér í munn. Það eru rök sjálfstæðismanna fyrir einkavæðingunni.

Það má vel vera heilbrigðisþjónustan byggi á stöðnuðu stofnanakerfi og sjálfsagt þyrfti að einkavæða heilbrigðisþjónustuna. Enda heyrum við sterkar raddir innan úr Sjálfstæðisflokknum fyrir einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar.

Menntakerfið byggir á þessum sömu rökum og hv. þingmaður sagði, staðnaðar stofnanir. Þess vegna þarf að einkavæða menntakerfið. Þetta er bara trúarsetning frjálshyggjunnar hjá Sjálfstæðisflokknum og við tökumst á við hana. Að þeir vilji einkavæða alla þjónustu og noti slík orð, að hún sé stöðnuð.

Ef við yfirfærum þessi orð hv. þingmanns Sjálfstæðisflokksins og fulltrúa hans í orkuumræðunni þá er hann að segja nákvæmlega það sama, að eitt fyrsta verk sjálfstæðismanna, ef þeir komast í meiri hluta hér í Reykjavík, er að einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur. Því annars væru þeir ekki sjálfum sér samkvæmir. Það gefur auga leið.

Ég er bara ekki viss um að Reykvíkingar séu sammála sjálfstæðismönnum í því að eitt brýnasta verkefnið í orkumálum sé að einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur. Ég er ekki viss um það. En það er heiðarlegt af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins nú í umræðunni að segja að eitt það brýnasta í þessum málum sé einkavæðing orkufyrirtækjanna. Þar er Orkuveita Reykjavíkur náttúrlega engin undantekning.

Ég er ekki viss um að Reykvíkingar séu sammála því að eitt brýnasta málið sé að einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur. Ég held ekki, frú forseti, þótt sjálfstæðismenn haldi því fram. (Forseti hringir.)