132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[20:59]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú eru að verða liðnir rétt tæplega þrír klukkutímar síðan hv. þm. Ögmundur Jónasson hóf mál sitt. Mig langar að fara hér yfir örfá atriði sem hann kom inn á. Í fyrri hluta ræðunnar nefndi hann þessa breytingu sem við erum að gera hér á rekstrarformi Rariks sem er að breyta þeirri stofnun í hlutafélag. Hann nefndi afhendingaröryggi og taldi að við værum að fórna jafnvel einhverjum hlutum er það varðar. Hann lagði út af því að nú gæti almenningur átt von á skertu öryggi í afhendingu raforku.

Ég vil nefna þetta hér sérstaklega og spyrja um leið þingmanninn: Þegar við breyttum raforkulögum var Orkustofnun falinn ákveðinn eftirlitsþáttur. Ég hygg að við treystum því að það verk muni Orkustofnun vinna. Mig langar að spyrja þingmanninn: Treystir þingmaðurinn ekki þeirri löggjöf og því verkefni sem Orkustofnun er falið hvað varðar þennan eftirlitsþátt, einn af þáttunum er afhendingaröryggi? Öryggi á stofnlínum og öryggi í því að dreifikerfið sé eins og því beri að vera. Það er mjög vandað það kerfi sem er hér á landi, mjög gott dreifingarkerfi raforkunnar.

Þá langar mig líka aðeins að spyrja hv. þm. Ögmund: Hefur það aldrei komið til tals innan samtaka BSRB, sem hann er nú talsmaður fyrir, að forustumenn þess félags skoði hver sé ástæðan fyrir því að menn tali aftur og aftur um það hér að þegar fyrirtæki eru háeffuð þá sé stjórnunarstrúktúrinn straumlínulaga?