132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[21:07]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrir nokkru ræddum við um vatnalög og þar fór hv. þingmaður mikinn í því að segja að vatn væri sameign og mannréttindi. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort það sama eigi við um orkuna, hvort það sé sameign og mannréttindi að hafa orku og alveg sérstaklega hér á Íslandi þar sem stundum er kalt í veðri eins og nú er.

Hv. þingmaður talaði um að lífeyrisréttindi væru mikils virði fyrir opinbera starfsmenn og sitthvað fleira, og því langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort BSRB, sem hann veitir forstöðu, hafi látið kanna hvaða réttindi opinberir starfsmenn hafi umfram aðra. Ég nefni atvinnuöryggi, lífeyrisréttindi, áminningarrétt o.s.frv. Hefur BSRB látið meta kostnaðinn, þ.e. hver launamunurinn ætti í rauninni að vera mikill á milli opinberra starfsmanna og annarra í þjóðfélaginu vegna þessara réttinda? Þá kannski sérstaklega hvort þeir opinberu starfsmenn sem eru í A-deildinni ættu að vera með hærri laun en þeir sem eru í B-deildinni og þá hvort þeir opinberu starfsmenn sem eru í hvorugri deildinni, þ.e. eru ekki aðilar að BSRB heldur í t.d. Eflingu eða öðrum stéttarfélögum, hvort þeir ættu að vera með enn hærri laun en þeir opinberu starfsmenn sem eru með góð lífeyrisréttindi.