132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[21:11]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst svolítið gaman að þessari umræðu um þjóðnýtinguna. Þetta er eitthvað sem Sjálfstæðisflokkurinn er að reyna að finna upp að við séum sérstakur þjóðnýtingarflokkur og eru hálfgerð öfugmæli að mínu viti hvernig þetta er sett fram. Við erum að reyna að koma í veg fyrir að almannaeignir sem eru í þjóðareigu verði rifnar af þjóðinni og færðar fjármagnseigendum á markaði. Það er þetta sem við erum að gera, að viðhalda almannaeign á þessum verðmætum.

Hvers virði þessi réttindi eru? Það er nú þannig, hv. þm. Pétur H. Blöndal, að það er sitthvað í lífinu sem er mikils virði án þess að það verði verðlagt, t.d. sá réttur að geta borið hönd fyrir höfuð sér ef maður er rekinn af duttlungavaldi forstöðumanns á ósanngjarnan hátt. (Forseti hringir.) Þá er það mikils virði án þess að ég sé reiðubúinn að verðleggja það sérstaklega (Forseti hringir.) í krónum og aurum talið.