132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[21:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að horfa til þessa geira með langtímahagsmuni í huga. Mér er fyllilega ljóst að margir stjórnendur, sérstaklega innan þessarar starfsemi, eru og hafa verið fylgjandi hlutafélagavæðingunni. Ég er einfaldlega ósammála þeim. Það eru mikil átök um þetta, ekki bara hér á landi heldur um heiminn allan, hvaða form eigi að vera. Ég hef reynt að færa rök fyrir því og er fylgjandi því hvers vegna ég tel að þessi geiri eigi að vera á vegum hins opinbera, alveg tvímælalaust.

Við erum komin inn í samkeppnisumhverfi, segir hv. þingmaður. Já, það kann að vera svo samkvæmt orðanna hljóðan og samkvæmt skipulagsformum. En staðreyndin er engu að síður sú að samkeppnisumhverfi hefur æðioft verið umhverfi án samkeppni. Það er það sem við höfum verið að vara við. Samþjöppun og samráð án nokkurrar samkeppni.

Núna hefur þetta aðeins tekið breytingum. Það sem áður hét einlæg ósk starfsmanna Rariks um að hlutafélagavæða stofnunina heitir nú ósk stjórnenda Rariks, en að starfsmannaráðið hafi ekki lagst gegn því að hlutafélagavæða. Nú er það fullyrt. Þetta er bara allt önnur framsetning á málinu. Ég vek athygli á að stéttarsamtök fólksins, stéttarsamtök starfsmanna, hafa sum hver lagst mjög eindregið gegn þessu og hafa fært mjög málefnaleg og ítarleg rök fyrir máli sínu, rök sem ekki hafa fengist svör við. En ég fagna því sem fram kemur hjá hv. þingmanni, formanni iðnaðarnefndar, að þau svör muni liggja fyrir áður en frumvarpið verður að lögum, sem ég reyndar vona að verði aldrei.