132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[21:18]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei. Ég held að það sé ekki jafnauðvelt. Vegna þess að þegar búið er að færa stofnun eða starfsemi í þennan búning, söluvöru — þetta er bara staðreynd, þetta er fyrsta skrefið. Ef við horfum á það sem viðskiptaráð, Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins, aðilar úr þeirri átt segja, þá líta þau á þetta sem fyrsta skref.

Reynslan kennir okkur að þetta hefur jafnan verið fyrsta skrefið. Þegar búið er að stíga þannig fram er eftirleikurinn auðveldari. Við heyrum — og einn þeirra sem hefur talað hvað ákafast fyrir sölu ríkisfyrirtækja situr í stólnum fyrir aftan mig og er hæstv. forseti þingsins — að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa mjög eindregið talað fyrir sölu eignarinnar. Núna við þessa umræðu líka.

Ég hef líka vitnað í hæstv. (Forseti hringir.) iðnaðarráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, sem hefur einnig talað fyrir þessu. (Forseti hringir.) Hvort sem henni hefur snúist hugur eða ekki. Ég veit það ekki.