132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[22:34]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum nú við 2. umr. frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins. Eins og fram hefur komið, og að ég tel mjög skýrt, erum við, allir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, algerlega andvíg þessu frumvarpi og höfum verið það frá upphafi. Við höfum lagt fram tillögu til rökstuddrar dagskrár í málinu, þ.e. að vísa málinu frá, eins og gerð hefur verið grein fyrir af þeim hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem tekið hafa til máls fram til þessa.

Ég er í hjarta mínu alveg sannfærð um að hv. stjórnarþingmenn, og Framsóknarflokksins þá sérstaklega, því að ég tel að stefna Sjálfstæðisflokksins sé í þeim anda sem frumvarpið segir til um, að styðja frelsi einstaklingsins og að allur rekstur á vegum ríkisins sem hægt er að flytja yfir til einkaaðila og hlutafélaga verði tekinn þaðan og markaðsvæddur. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala skýrt í þessu máli en hv. þingmenn Framsóknarflokksins tala um í þessu máli eins og mörgum öðrum að ekki standi til að markaðsvæða Rafmagnsveitur ríkisins frekar en aðrar opinberar stofnanir sem þeir vilja standa vörð um. Reynslan hefur síðan kennt okkur á undanförnum kjörtímabilum að þetta sé frekar í nösunum á hv. þingmönnum en að þeir standi við stóru orðin og yfirlýsingarnar og að þær heitstrengingar endist lengi að viðkomandi fyrirtæki, eins og hið ágæta fyrirtæki Rafmagnsveitur ríkisins, verði ekki alfarið markaðsvædd og komið á þann orkumarkað sem nú hefur skapast með breytingum á orkulögum og að það verði eingöngu tímabundið sem Rafmagnsveitur ríkisins verði að öllu leyti í eigu ríkisins, þ.e. að öll hlutabréf félagsins verði í eigu ríkisins, enda hefur hv. þingmaður, framsögumaður þess nefndarálits sem flutt var í dag, Birkir Jón Jónsson, lýst því sem skoðun sinni að hann sjái ekkert athugavert við það að Rarik hf. leiti að samstarfsaðilum eða að aðrir hluthafar verði í félaginu en hann telji að ríkið eigi þó að eiga meiri hluta hlutabréfa. Þetta er sagt í sömu andrá og hér stendur í 3. gr. laga að öll hlutabréfin skuli vera í eigu ríkisins og eins kemur fram í 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins, með leyfi hæstv. forseta:

„Hlutafélaginu skal heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila til þess að ná tilgangi sínum skv. 1. mgr. á sem hagkvæmastan hátt. Þá skal félaginu heimilt að standa að stofnun fyrirtækja og gerast eignaraðili að öðrum félögum.“

Hæstv. forseti. Við höfum fylgst með ýmsum málum sem hafa verið að gerast í þjóðfélaginu. Frægt er svokallað Baugsmál, bankamál, samruni fyrirtækja og stórvelda á okkar, að við töldum, litla efnahagsmarkaði sem er farinn að ná langt út fyrir landsteinana og festa rætur í nágrannalöndum okkar, sérstaklega í Danmörku, Noregi og víðar. Það er ekki heiglum hent að fylgjast með því hvernig fyrirtæki renna saman og eru keypt liggur mér við að segja hvert af öðru en eftir stendur að á hverju sviði, sama hvort það eru bankar, verðbréfamarkaðir, verslanir, orkugeirinn eða hvaða svið það er, sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn verður það næsta, samþjöppun á hverju sviði fyrir sig verður stöðugt meiri og er orðin ískyggileg á mörgum sviðum. Þetta á við í dag í fjármálaheiminum þar sem verið er að höndla með mikla fjármuni, með lánveitingum og eignakaupum. Það á við um orkugeirann líka að þar eru að verða til risafyrirtæki sem hafa og geta haft afgerandi áhrif á lífskjör þjóðarinnar með aðstöðu sinni til að ráða verði á rafmagni til neytenda og fyrirtækja. Og í stað þess að stuðla að samkeppni og lægra verði eins og lögunum er ætlað að gera höfum við reynslu af hinu gagnstæða, samanber hjá olíufélögunum þar sem hvert einasta mannsbarn í landinu sem notar eitthvert ökutæki og fylgist með verðlagi á bensíni og olíu finnur á eigin buddu hvernig samkeppnin sem þar á að ríkja er augljóslega mjög lítil ef nokkur. Raunar væri eðlilegra að tala um samtryggingu á þessu sviði eins og fleirum. Fákeppni er á matvörumarkaðnum, hjá olíufélögunum og í orkugeiranum. Það sem ætlað er að stuðla að samkeppni í lögunum getur stuðlað að fákeppni sem er til lítilla hagsbóta fyrir landsmenn.

Hæstv. forseti. Ég tel að skörp pólitísk skil séu á milli Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og annarra stjórnmálaafla á Alþingi. Við viljum standa vörð um þá þjónustu sem við höfum skilgreint sem almannaþjónustu og grunnþjónustu, sem er m.a. afhending á raforku, vatni, heilbrigðisþjónustu og fleiri þáttum sem við teljum að sé grunnur undir því velferðarkerfi sem við byggjum á og allir eigi að hafa jafnan aðgang að og á sem hagkvæmustu verði. Við teljum að þessar stofnanir eigi alfarið eða að mestum hluta að vera í eigu ríkisins eða sveitarfélaganna, að almannaþjónustuna eigi fyrst og fremst að reka með hagsmuni íbúanna í huga en ekki út frá hagsmunum markaðarins og þeirrar hugsjónar markaðshyggjunnar að ná arði út úr fyrirtækjunum. Arðurinn næst ekki eingöngu með hagræðingu. Arðurinn næst með þeim álögum sem lagðar eru á notendur og arðurinn er orðinn mikill, bæði í orkugeiranum og á öðrum sviðum. Má þar nefna tölur sem birst hafa undanfarið, sérstaklega innan bankakerfisins. Það eru svimandi háar upphæðir sem hafa skilað sér í arð til bankanna en ekki í lægri vöxtum eða lægri notendagjöldum til neytenda. Það þarf því ekki að fara saman, hæstv. forseti, að allt skili sér í betri hag og blóma fyrir neytendur og almenning í landinu ef hlutirnir eru teknir úr umsjá ríkisins.

Hvað er ríkið? Eins og talað er um ríkisstofnanir í þingsal mætti halda að ríkisstofnanir og ríkið séu einhvers konar óskapnaður eða skepna sem ekki er hægt að eiga við eða stjórna. Ríkið er ekkert annað en við sjálf, Íslendingar sjálfir sem veljum til þess fulltrúa, ýmist á Alþingi eða í annarri opinberri stjórnsýslu, m.a. sveitarstjórnum, að fara með okkar mál. Það er fólkið í landinu sem velur á fjögurra ára fresti fulltrúa sína til að fara með stjórn landsins eða sveitarfélags og til að velja fulltrúa í stjórn einstakra fyrirtækja eftir því sem lög þeirra segja til um. Þessi fyrirtæki eru okkar eigin fyrirtæki og við höfum ekki, sem fulltrúar þjóðarinnar, áhuga á að ná inn gróða af þeim fyrirtækjum. Þau eiga eftir eðli þjónustunnar að standa undir sér en fyrst og fremst með lágum afnota- eða þjónustugjöldum að veita góða þjónustu. Þetta getur farið saman.

Hæstv. forseti. Vart er liðið ár síðan ný raforkulög tóku gildi. Þau áttu í sjálfu sér að stuðla að lækkuðu raforkuverði. Þau voru tekin upp eftir tilskipun frá Evrópusambandinu, einni af þeim tilskipunum sem við vorum ekki bundin af því að taka upp og hefðum getað komist hjá ef pólitískur vilji hefði verið fyrir því. Það vildum við, fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að yrði gert á þessu eylandi í Norður-Atlantshafi. Hér er ekki samkeppnismarkaður eins og í Evrópu þar sem rafmagnið, uppsprettan og veiturnar, ná milli landa. Það er miklu frekar hægt að búast við að koma við raunverulegri samkeppni á því svæði. En hér á landi er uppspretta og dreifing orkunnar innan sama ríkis, innan sama svæðis og þar af leiðandi ástæðulaust að gæla við þær markaðs- og samkeppnishugmyndir sem voru í tilskipuninni. En við þetta búum við og nú er verið að sníða önnur lög að raforkulögunum og inn á markaðsvæðinguna.

Reynsla okkar, þann stutta tíma sem raforkulögin hafa verið í gildi, hefur ekki sýnt okkur fram á að raforkuverðið hafi lækkað. Í dag á að heita samkeppni á milli fyrirtækja en raforkuverðið hefur ekki lækkað að sama skapi. Hægt væri að taka meðaltöl af raforkureikningum landsmanna, almennings, fyrirtækja, stórra og smárra, m.a. risanna í raforkunotkuninni, álveranna og stóriðjunnar, járnblendinu uppi á Grundartanga, og segja: Víst hefur raforkuverðið lækkað. En meðaltöl og prósentureikningur segja ekki nema takmarkað. Stundum er gott að bregða upp þessari meðaltalsmynd en þegar almenningur og eigendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja skoða rafmagnsreikninga sína og bera saman við þá sem eldri eru finna þeir fyrir mikilli hækkun, svo nemur tugum prósenta. Þetta er reynsla okkar af samkeppnisumhverfinu.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur nefnt þetta tímabil aðlögunar og reynslu, að allt muni lagast þegar menn eru búnir að slípa reksturinn að þessu nýja umhverfi. Ég held að það sé að hluta til draumsýn sem hæstv. iðnaðarráðherra ber í brjósti. Þegar þessi fyrirtæki eru komin á opinn markað, farin að ganga kaupum og sölum, munu orkufyrirtækin og aðrir kaupa upp land til að tryggja sér vatnsnýtingarrétt á landi og svæðum. Eignarhaldið og nýtingarrétturinn mun að ég tel færast á færri hendur og samkeppnin ekki verða eins virk eins og hæstv. iðnaðarráðherra heldur. Hvort hæstv. iðnaðarráðherra trúir þessu af heilum hug læt ég ósagt en ég hef ekki trú á að markaðstorgið muni skila íslenskum almenningi betra raforkuverði eða betri rekstri fyrirtækja.

Hæstv. forseti. Það er sorglegt að vita til þess að á sama tíma og mikil orkuleit og orkuvinnsla fer fram þá skuli lítil og meðalstór fyrirtæki hér á landi, t.d. bakarí og ölgerðarfyrirtæki, farin að brenna olíu aftur, nota olíu í stað rafmagns. Þó hefur olían ekki verið ódýr upp á síðkastið. Samt sem áður hefur það borgað sig fyrir þessi fyrirtæki að nota olíu í rekstrinum. Það er ódýrara en að nota rafmagn.

Stuðningur hins opinbera við fyrirtæki hefur einnig minnkað. Niðurgreiðsla og opinber stuðningur hefur vikið fyrir samkeppnissjónarmiðum, ekki samkeppni fyrirtækja innan lands heldur samkeppnissjónarmiðum íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum á Evrópumarkaði. Það hefur enn frekar orðið til að þyngja róðurinn í rekstri íslenskra fyrirtækja fyrir utan hátt raforkuverðið.

Hæstv. forseti. Rafmagnsveitur ríkisins hafa starfað um allt land. Í frumvarpinu er rakin stofnun og saga félagsins og hvernig það þróaðist. Ljóst er að til Rafmagnsveitna ríkisins var stofnað af íbúum hinna dreifðu byggða. Margir hafa litið á rafmagnsveiturnar sem eign sveitar sinnar, miklu frekar en einhvers ríkisbákns. Starfsmenn þeirra hafa margir hverjir verið tryggir fyrirtækinu og átt þar langa og farsæla starfsævi. Með frumvarpi um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins er starfsöryggi þessara starfsmanna teflt í tvísýnu. Í því eru ekki skýr ákvæði um að allir starfsmenn skulu fá vinnu áfram hjá hinu nýja fyrirtæki enda væri það ekki í anda hins mikla sveigjanleika sem verðandi forstöðumaður þess fyrirtækis á að hafa. Sveigjanleikinn er m.a. fólginn í því að auðveldara verður fyrir verðandi framkvæmdastjóra að segja upp fólki og ráðskast með það, bæði í launum og réttindum. Núverandi starfsmenn Rariks eiga ekki skilyrðislausan rétt á vinnu í nýju fyrirtæki. Eins er óljóst hvernig gengið verður frá lífeyrisréttindum þeirra. En nýir starfsmenn hjá fyrirtækinu verða ráðnir á öðrum kjörum og munu hafa önnur réttindi en þeir sem hafa unnið hjá Rafmagnsveitum ríkisins fram til þessa.

Það er önugt að vita til þess að við upphaf þingfundar í dag ræddum við um úrskurð umboðsmanns Alþingis. Hann gerði alvarlegar athugasemdir við mannaráðningu fyrrverandi félagsmálaráðherra, þ.e. ráðningu hans á yfirmanni í félagsmálaráðuneytið. Við ræddum þá um mikilvægi þess að opinberar stofnanir færu eftir stjórnsýslulögum, m.a. um ráðningar og kjör opinberra starfsmanna. En hvert fyrirtækið á fætur öðru í opinberum rekstri er tekið undan ákvæðum stjórnsýslulaga, undan lögum um opinbera starfsmenn, með því að gera það að hlutafélagi. Þar með veikist ramminn sem við höfum um gegnsæi, með skýrum reglum um réttindi opinberra starfsmanna. Með því að taka hvert fyrirtækið á fætur öðru úr hinum almenna ríkisrekstri yfir í annað rekstrarform er grafið undan trausti opinberra starfsmanna á stöðu þeirra hjá viðkomandi fyrirtæki. Sú spurning hlýtur alltaf að koma upp: Verður mitt fyrirtæki næst? Á að hlutafélagavæða Landspítalann allan eða hluta af honum? Hvorum megin hryggjar verð ég þá?

Fyrirtæki sem tekin hafa verið úr opinberum rekstri hafa verið í stærri kantinum. Þessi aðför að fyrirtækjum í opinberum rekstri, að færa þau í einkarekstur eða hlutafélagavæðing og markaðsvæðing, grefur undan starfsöryggi starfsmanna hjá fyrirtækjum sem enn eru í opinberum rekstri. Þetta er slæmt og bætist ofan á það rekstrarumhverfi opinberra fyrirtækja að í dag er krafist af þeim mikils aðhalds og sparnaðar vegna þenslunnar í þjóðfélaginu. Hverjum einasta starfsmanni er uppálagt að fara ekki út fyrir tiltekinn ramma og hverju fyrirtæki er gert að vera nákvæmlega innan fjárhagsramma sem er í mörgum tilfellum allt of þröngt skorinn. Sú pressa er næg en menn þurfa síðan að hafa þessa svipu yfir sér líka.

Er raunin sú að ætlunin sé að svelta fyrirtækin niður á það stig að reksturinn gangi hreinlega ekki upp eins og hann er í dag þannig að farið verði að skoða hvort ekki borgi sig og ekki sé eðlilegra eða betra, sem hefur hugsanlega alltaf verið meiningin og undirliggjandi, að breyta rekstrarfyrirkomulagi þeirra? Rekstrarstaða margra opinberra stofnana er þannig að starfsmönnum þeirra líður ekki vel. Þeir búa við mikið álag og við bætist óöryggi af þessum sökum. Ég tel því að þessi breyting sé hvorki til hagsbóta fyrir almenning, fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í landinu, né starfsmenn.

Hæstv. forseti. Ég spurði við upphaf umræðunnar hv. þm. Birki Jón Jónsson um það í hverju sveigjanleiki hlutafélagavæðing Rariks væri fólginn. Mér fannst hann ekki svara því. Hann talaði bara um sveigjanleika, að bregðast skjótt við, og þá kaupum og sölu, á markaði. Ég veit ekki hvað fyrirtæki af þessum toga á eða þarf að bregðast skjótt við markaðnum ef það á að hafa þjónustuhlutverk. Þarf það að bregðast svo við að ekki sé hægt að fá svar frá ráðherra á mjög skömmum tíma, fá heimildir fyrir breytingum ef eftir því er óskað? Þessu nýja fyrirtæki, Rarik hf., er þar af leiðandi greinilega ætlað að vera á miklu breiðari markaði en komið hefur fram í umræðunum í dag. Nú er allt undir. Það er orkugeirinn, það er orkuöflunin, það er dreifingin og það eru allir þeir möguleikar sem í því eru fólgnir að eiga dreifikerfið og verðmæti fyrirtækisins er mikið enda, eins og kemur fram í umsögnum um frumvarpið, eru nægilega margir tilbúnir til að kaupa þetta fyrirtæki allt eða hluta þess. Margar umsagnirnar eru einmitt í þá veru að gerðar eru athugasemdir við 3. gr., að það skuli vera svo afdráttarlaust kveðið á um það í 3. gr. að öll hlutabréfin skuli vera í eigu ríkisins. Margir úr orkugeiranum telja að eðlilegast væri að gefa öðrum starfandi dreifiveitum tækifæri til að kaupa dreifikerfi Rafmagnsveitna ríkisins hverri á sínu svæði, eins og segir m.a. í umsögn Orkuveitu Húsavíkur. Til að hafa þetta alveg skýrt segir hér í allri setningunni, með leyfi forseta:

„Orkuveita Húsavíkur telur með tilliti til nýskipunar raforkumála að eðlilegast væri að gefa öðrum starfandi dreifiveitum tækifæri til að kaupa dreifikerfi Rafmagnsveitna ríkisins hver á sínu svæði. Hugmyndir orkufyrirtækja ríkisins um stofnun raforkusölufyrirtækis, þar sem m.a. virkjanir Rariks yrðu lagðar inn sem hlutafé, ganga þvert á þá meginreglu að ríkið skuli ekki vera þátttakandi í fyrirtækjarekstri á samkeppnismarkaði. Orkuveita Húsavíkur telur fráleitt að iðnaðarráðherra fari með eignarhlut ríkisins í félaginu.“ — Og það eru fleiri orkufyrirtæki sem telja það fráleitt.

Þar sem iðnaðarráðherra fer með hagsmuni annarra fyrirtækja og er auk þess ráðherra rannsókna á þessu sviði telja margir óeðlilegt að hæstv. iðnaðarráðherra fari með öll bréf Rafmagnsveitna ríkisins. Þarna er Orkuveitan að lýsa því yfir að hún telji eðlilegt að orkuveitunum á hverju dreifiveitusvæði verði gert heimilt að kaupa upp bréfin en það eru líka aðrar hugmyndir í gangi eins og að skipta félaginu upp, að dreifikerfið verði sér og orkuframleiðslan sér. Ég ætla að grípa niður í umsögn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum en þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum lýsir efasemdum sínum vegna 3. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að öll hlutabréf í félaginu skuli vera eign ríkissjóðs og að iðnaðarráðherra skuli fara með eignarhlut ríkisins í félaginu.“ — Þetta er samhljóða hjá þeim mörgum — „Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum telur eðlilegt að ríkissjóður hætti rekstri sölu- og dreifiveitna og selji a.m.k. þann hluta fyrirtækisins.“

Ég gæti lesið áfram en flest af þessu hefur komið fram í ræðum annarra hv. þingmanna. Það er alveg ljóst að það eru nógu mörg orkufyrirtæki, og það sterk orkufyrirtæki, sem bíða eftir því að gleypa Rarik annaðhvort með húð og hári eða hluta starfseminnar og styrkja þar með eigin rekstur og ekki bara eigin rekstur heldur stækka sinn hluta kökunnar í orkuvinnslu og orkudreifingu hér á landi. Þó að okkur hafi fundist landið nokkuð stórt þar sem það er svo strjálbýlt er orkan takmörkuð, eftirspurnin eftir orkunni mikil og þá sérstaklega í stóriðjunni og því eftir miklu að slægjast og mikil verðmæti í húfi fyrir þau fyrirtæki sem komast bæði í rannsóknirnar, og eyrnamerkja sér þá umráðarétt yfir ákveðnu svæði til áframhaldandi orkunýtingar, og dreifinguna.

Þarna eru miklir fjármunir í húfi. Ég veit ekki hvort við ættum að stofna veðbanka hér í hliðarsal. Ef ég væri spennu- og spilafíkill væri freistandi að setja upp veðbanka við hliðina en það verða kannski einhverjir sem fylgja þeirri hugmynd eftir. Þá væri hægt að veðja um það hversu lengi hlutabréf Rariks verða öll í eigu ríkisins og með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til. Ég mundi veðja að það yrði frekar í mánuði en ár að þetta frumvarp, ef það verður að lögum, haldi í óbreyttri mynd. Alla vega mun líða mjög stuttur tími þar til rekstrareining Rafmagnsveitu ríkisins hf. hverfur frá núverandi formi, verður annaðhvort búin að kaupa inn fyrirtæki eða að fyrirtæki sameinist inn í þennan rekstur. Nógu flókinn er þessi rekstur orðinn fyrir á markaðnum en verður örugglega flóknari eftir því sem tímar líða og hann færist á færri hendur.

Hæstv. forseti. Ég held ég hafi mál mitt ekki mikið lengra í fyrri ræðu minni en lýsi algerri andstöðu við hugmyndafræðina sem liggur á bak við frumvarpið og frumvarpið sjálft. Ég er hér ásamt öðrum hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs með tillögu til rökstuddrar dagskrár í málinu um að Alþingi vísi málinu frá og taki fyrir næsta mál á dagskrá að þessari umræðu lokinni. Hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lesið yfir rökstuðninginn og læt ég það nægja, hæstv. forseti.