132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[23:19]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli forseta á því að ekki er hægt að segja að einhver sérstök neyð reki forseta til þessa að brjóta hefðir og þann skilning sem við leggjum í skilgreiningar eins og dagur og kvöld. Ég get ekki séð að það sé neitt sem reki á eftir því. Mér mundi þykja það mjög miður ef forseti færi að ganga þannig gegn því sem annars hefur verið ráðgert, að þessu ljúki núna í kvöld. Ég vil vekja athygli á að það eru nefndarfundir snemma í fyrramálið sem þingmenn þurfa eðlilega að sækja.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur getið þess að þingmenn sem var vitað að mundu vilja taka mjög afdráttarlaust þátt í þessari umræðu eru veðurtepptir. Það mál sem nú er til umræðu er í rauninni stórmál, að fara að taka eitt af stærri samfélagsverkefnum og hlutafélagavæða það. Þess vegna er mikilvægt að hægt sé að koma öllum sjónarmiðum á framfæri áður en gengið er frá atkvæðagreiðslu við 2. umr. sem er meginatkvæðagreiðslan þar sem greidd eru atkvæði um einstakar greinar. Þess vegna er mjög mikilvægt að sú umræða geti orðið sem ítarlegust og þingmenn geti komið þeim sjónarmiðum sínum að sem nauðsynlegt er.

Ég ítreka, að áður en ég hef ræðu mína, þar sem ég er næstur á mælendaskrá, þá vil ég gjarnan heyra hvernig forseti ætlar að skilgreina „kvöld“. Það er ekki bara ég sem er með ræðu hér, það eru fleiri ræðumenn á mælendaskrá og klukkan er að verða hálftólf. Ég held að það sé eðlileg krafa að forseti greini frá því hvenær hann hyggst slíta þessum fundi eða fresta eftir atvikum svo hér sé ekki verið að halda fundi áfram fram á nótt þvert gegn því sem hefur verið boðað og er reyndar engin ástæða til.