132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[23:22]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við erum að fjalla um eitt af stórmálum þessa þings. Mál sem ekki er ýkja umdeilt hér í þinginu þegar litið er til fjöldans sem er að baki stjórnarfrumvarpinu, heldur í þjóðfélaginu almennt. Í þjóðfélaginu eru miklar deilur um hvort hyggilegt sé að taka almannaeignir og færa þær í hlutafélagaform, í sölubúning. Við höfum orðið vitni að því áður að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur staðið ein gegn stjórnarmeirihlutanum og öðrum flokkum hér á Alþingi en engu að síður verið samstiga meiri hlutanum í samfélaginu. Ég vísa þar til hlutafélagavæðingar Pósts og síma, svo dæmi sé tekið og annarra stofnana einnig. Ég vísa líka til annarra mála, t.d. Kárahnjúkavirkjunar, en þar stóðum við ein vörðinn ásamt tveimur eða þremur öðrum þingmönnum, tveir munu þeir hafa verið.

En samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var um málið í samfélaginu þá vorum við í bullandi meiri hluta. Þannig er það í þessu máli líka. Það er mín trú. Að við eigum samleið með meiri hluta þjóðarinnar þegar kemur að því að standa vörð um almannaeignir og sporna gegn því að starfsemi á borð við raforkugeirann sé hlutafélagavædd og sett upp á einkavæðingarfæribandið.

Í þessu stórmáli tel ég að eigi að taka tillit til óska okkar um að knýja ekki á um að 2. umr. um þingmálið verði lokið í kvöld. Ég vil vísa til þess að við lögðum fram í dag breytingartillögu, án þess að krefjast eða óska eftir afbrigðum, þannig að það gæti gerst, herra forseti, að þingmálið sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagði fram í dag komi í rauninni ekki til formlegrar umræðu fyrr en á morgun. Þingmálinu hefur þegar verið dreift en formlega séð er ekki hægt að tala fyrir því fyrr en á morgun. En þá geri ég ráð fyrir, ef áform hæstv. forseta ná fram að ganga, að gengið verði til atkvæða um þetta þingmál. Þetta er ekki ásættanlegt frá okkar sjónarhóli séð.

Þannig að ég ítreka að það er eðlilegt að þessari umræðu verði nú skotið á frest (Forseti hringir.) og við verðum til viðræðu um að ljúka umræðunni á morgun á mjög skömmum og viðráðanlegum tíma.