132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[23:26]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Eins og hefur komið fram er frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins hér til 2. umr. Þetta kom hér til umræðu um fjögurleytið eða að loknum umræðum um störf þingsins, umræðan um þetta mál hófst milli hálffjögur og fjögur.

Um það leyti, í byrjun umræðunnar, lögðum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fram tillögu til rökstuddrar dagskrár varðandi málið. Það er alveg hárrétt að til þess að hún mætti koma á dagskrá þyrftum við að leita afbrigða sem er alvanalegt ef nauðsyn krefur varðandi meðferð svona mála, breytingartillögur eða annað. Þannig að tillagan var að minnsta kosti komin um það leyti sem umræðan hófst.

Ef umræðunni á nú að ljúka nú án þess að þessi tillaga fái að komast formlega á dagskrá þá finnst mér það, herra forseti, ekki vera sæmileg vinnubrögð. Ég verð að segja það. Því ef umræðu er lokið, eins og forseti lýsti yfir að hann ætlaði sér, þá er náttúrlega ekki hægt að taka þessa tillögu á dagskrá. Ef þetta eiga að verða þeir starfshættir sem þingið vill hafa, þótt breytingartillögur komi í upphafi 2. umr. á svo stóru máli eins og hér er, einu stærsta máli þingsins, að ekki sé hægt að fá hana tekna á dagskrá, þá hlýt ég að mótmæla því.

(Forseti (BÁ): Forseti vill vekja athygli hv. þingmanns á því að í 2. mgr. 62. gr. þingskapa segir: Á meðan á umræðu stendur má gera rökstudda tillögu um að taka skuli fyrir næsta mál á dagskránni og skal þá afhenda forseta tillöguna um það skriflega. Slíka tillögu á að gera í prentuðu þingskjali þannig að forseti sér ekki að tillaga af þessu tagi lúti sömu reglum og venjulegar breytingartillögur. Þannig að ekkert á að vera því til fyrirstöðu að mæla fyrir tillögunni við þessa umræðu enda hefur hún verið kynnt rækilega hér.)

Herra forseti. Það má þá vera þótt tjáð hafi verið í upphafi að bera þyrfti tillöguna upp formlega. Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum í þetta en ég ítreka að mér hefði fundist eðlilegt að þessi tillaga hefði fengið venjulega þinglega meðferð.

Þetta frumvarp, stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins, lýtur að fyrsta skrefinu í að einkavæða fyrirtækið.

Það kom fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar um fundarstjórn forseta hvað hefði komið fram í skoðanakönnunum varðandi mál sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur staðið vörð um hér á þingi og staðið í rauninni vörð um hagsmuni og sjónarmið almennings.

Sala Símans var nefnd. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs stóðu einir gegn því að Síminn væri hlutafélagavæddur sem var upphafið að söluferlinu. Allan þann tíma var yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar gegn sölu Símans sem vildi að Síminn og grunnfjarskiptakerfið væri áfram í þjóðareigu. Samt beitti þingmeirihlutinn á Alþingi sér fyrir því að Síminn yrði seldur. Síðasta skoðanakönnunin var gerð líklega í mars eða apríl áður en Síminn var síðan boðinn út nokkrum dögum seinna. Þá voru yfir 70% þjóðarinnar andvíg sölu grunnfjarskiptakerfis Símans.

Einnig er ég með frétt úr Morgunblaðinu frá 2. desember 2005, um afstöðu landsmanna til einkavæðingar, en það er einmitt atriði sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur staðið ein gegn á Alþingi og barist gegn slíkum sjónarmiðum. Hér stendur t.d.: Einungis fjórðungur aðspurðra er hlynntur einkavæðingu í heilbrigðis- og skólakerfinu.

Hver stendur vaktina fyrir að berjast gegn einkavæðingu og svokölluðum einkarekstri heilbrigðiskerfisins? Það er Vinstri hreyfingin – grænt framboð, það eru þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á þingi. Aðrir flokkar, Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur, og reyndar Samfylking, eru hlynntir eins konar einkavæðingu og einkarekstri í heilbrigðiskerfinu. En einungis fjórðungur aðspurðra af um 1.200–1.300 manna úrtaki er hlynntur því. Þetta er eitt dæmi þess að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs finna hvar hjarta þjóðarinnar slær, enda eru markmið þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að standa vörð um almannahagsmuni.

Ef við komum að raforkukerfinu sem hérna er verið að véla um, einkavæðingu Rariks, reyndar er ekki spurt beint um Rarik en spurt er um Landsvirkjun, þá stendur í könnun Gallups sem gerð var á tímabilinu 9.–22. nóvember árið 2005, að einungis tæpur þriðjungur er hlynntur einkavæðingu Landsvirkjunar. Við sjáum því hversu þjóðin er búin að fá upp í kok af einkavæðingu ríkisstjórnarinnar á almannaþjónustustofnunum. Ég get ekki ímyndað mér annað en að viðhorf þjóðarinnar til að einkavæða Rarik, Rafmagnsveitur ríkisins, sem standa íbúunum enn miklu nær, því Rafmagnsveitur ríkisins eru að meginhluta til byggt upp til að annast dreifiveitur til einstakra notenda. Rarik er ekki svo mikið í eigin raforkuöflun þó hún eigi nokkrar virkjanir. Meginverkefni Rariks er að annast rekstur á dreifiveitum, veitum sem taka við rafmagninu frá Landsneti og dreifa því til einstakra notenda.

Þess vegna er svo fráleitt að láta sér detta í hug einkavæðingu á þessum aðila, hlutafélagavæðingu á Rarik. Það kæmi mér ekki á óvart þó að enn meiri andstaða hefði verið meðal þjóðarinnar við að hefja einkavæðingarferli á Rafmagnsveitum ríkisins en á Landsvirkjun. Er í þeirri skoðanakönnun, sem og ég nefndi áðan, einungis tæpur þriðjungur hlynntur einkavæðingu Landsvirkjunar. Aftur er því verið að keyra í gegnum þingið frumvarp, kerfisbreytingu, sem studd er af meiri hluta Alþingis, studd af Framsóknarflokknum sem er orðinn mesti einkavæðingarflokkurinn á þingi, studd af Sjálfstæðisflokknum sem hefur þetta sem megininntak í pólitík sinni og hugsjónagrunni, þ.e. að einkavæða almannaþjónustu.

Svo hefur komið fram að Samfylkingin styður líka þá einkavæðingu sem hérna er verið að hefja. Það eru því þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hér standa vaktina til að verja almannahagsmuni og geta vitnað til þess að skoðanakönnun, sem gerð var af Gallup og lýtur að þessum þáttum, sýnir að einungis mikill minni hluti, lítið brot þjóðarinnar, styður einkavæðingu á þessum vettvangi á sviði raforkumála, ef marka má afstöðu til hugmynda að einkavæðingu á Landsvirkjun. Kannski er þetta ein ástæðan fyrir því að Framsóknarflokkurinn er aðeins að draga í land með að gefa afdráttarlausar einkavæðingaryfirlýsingar á orkuveitunum eins og hann gerði fyrir ári. Í umræddri könnun kemur skýrt fram þegar spurt er um einstakar stofnanir og fyrirtæki, að karlar eru hlynntari einkavæðingu en konur. En stærri hluti þeirra er andvígur einkavæðingu Landsvirkjunar, eða 59% karla samanborið við 52% kvenna.

Þetta þarf ekki að koma á óvart og þar sem þetta barst í tal áðan þá er sérstaða þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sú að berjast fyrir almannaþjónustunni. Berjast fyrir grunnþjónustunni, berjast fyrir því að þjóðin sé samábyrg fyrir ákveðinni grunnþjónustu í landinu í heilbrigðiskerfinu, í menntakerfinu, í samgöngumálum og í orkumálum. Þar eigum við greinilega samhljóm með þjóðinni, en ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn á Alþingi keyrir málin samt áfram gegn því sem þjóðin vill. Enda er það ekki skrýtið að við eigum samhljóm með þjóðinni, herra forseti, því reynsla bæði hér á landi af einkavæðingu á almannaþjónustu og reyndar líka erlendis er sú að hún verður dýrari fyrir neytandann og einnig mismunar hún. Hún dregur fólk í dilka eftir þjóðfélagshópum, eftir búsetu o.s.frv.

Tökum t.d. rafmagnið eftir að það var markaðsvætt. Við markaðsvæðinguna hækkaði verðið á rafmagninu. Reyndar lækkaði það sums staðar vegna tilfærslna á milli verðlagningu veitna, en á heildina litið er hækkun á rafmagni vegna þess að það kemur inn nýr flutningsaðili, nýtt fyrirtæki, inn í þetta, flutningsfyrirtækið Landsnet, sem krefst náttúrlega fjármagns fyrir sig til rekstrarins o.s.frv. Auk þess er gerð arðsemiskrafa til fjármagnsins sem er bundið í þessu. Jafnframt er farið að krefja þessi almannaþjónustufyrirtæki um skatta.

Mér er minnisstætt umtal um Orkubú Vestfjarða sem hafði verið í eigu sveitarfélaganna á Vestfjörðum og litið var alfarið á Orkubú Vestfjarða sem þjónustustofnun fyrir íbúana og fyrir fyrirtækin á svæðinu. Aldrei hafði verið gert ráð fyrir því að Orkubú Vestfjarða ætti að fara að reka sig sjálft til að skaffa eigendum sínum beinan arð af því fjármagni sem það var bundið í. Nei. Arðurinn átti að skila sér í ódýru og öruggu rafmagni til notendanna og til fyrirtækjanna.

Sveitarfélögin á Vestfjörðum lentu í fjárhagsvanda m.a. af þeim ástæðum að ranglátt kvótakerfi leiddi til þess að fiskveiðiheimildirnar fóru af svæðinu og annað fleira í þeim dúr vegna kerfisbreytinga sem urðu vegna ríkisaðgerða sem skertu mjög atvinnu-, tekju- og samkeppnishæfni byggðarlaganna á Vestfjörðum. Þar kom að byggðarlögin áttu í erfiðleikum með að standa skil á þeirri þjónustu sem þeim var uppálagt að veita samkvæmt lögum. Þá kom krafan frá ríkisvaldinu um að sveitarfélögin seldu Orkubú Vestfjarða upp í skuldir sínar. Í rauninni var sveitarfélögunum bara stillt upp við vegg því þá var komin þessi stefna ríkisvaldsins, núverandi ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, að ná orkufyrirtækjum saman í eitt til að geta síðan hlutafélagavætt þau og undirbúið undir sölu. Ríkið þvingaði sveitarfélögin til að láta Orkubú Vestfjarða af hendi og greiddi þeim fyrir. Staðan er reyndar sú, af því að engu var breytt í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, að þessi sveitarfélög lenda síðan fljótt aftur í sömu vandamálum og ekki minni vegna þess að grunninum var ekki breytt.

En hvað gerist svo? Þegar orkukerfið hafði verið markaðsvætt, nýju raforkulögin sett fyrir tveimur árum og Orkubúi Vestfjarða var gert að starfa eftir þeim, og ekki síst þegar Landsnet var sett á stofn líka sem þá átti að sjá um dreifinguna, þá gaf Orkubú Vestfjarða út gjaldskrá en var óðara skipað að draga þá gjaldskrá til baka því hún var ekki nógu há. Orkubú Vestfjarða hefði þá ekki reiknað nógu háa arðsemiskröfu inn í starfsemi sína. Orkustofnun og iðnaðarráðuneytið skikkaði því Orkubú Vestfjarða til að hækka gjaldskrá sína til að uppfylla arðsemiskröfu ríkisins til eigna Orkubús Vestfjarða og krafði það þar af leiðandi um hærra orkuverð. Þetta var bein aðgerð sem notendur á Vestfjörðum fundu fyrir þegar raforkukerfið þeirra var markaðsvætt, þegar búið var að ná af þeim orkubúinu þeirra og skikka það til að hækka verðið á útseldu rafmagni umfram það sem það sjálft hafði talið að þyrfti.

Við erum svo líka minnug þess að raforkunotendur, t.d. í Súðavík, urðu vegna hinna breyttu reglna að borga mun hærra verð fyrir raforkuna eftir að þessi markaðsvæðing hafði verið innleidd. Þá hafði verið sett slíkt takmark inn í lögin að byggðarlög undir ákveðinni stærð þyrftu að borga meira fyrir rafmagnið en íbúar í byggðarlögum sem voru stærri. Súðavík lenti undir þessum mörkum og þess vegna snarhækkaði rafmagnið.

Ég minnist erindis sem sveitarstjóri Súðavíkur sendi varðandi rækjuverksmiðjuna, sem þeir urðu síðan að loka vegna óhagstæðs gengis og erfiðleika við að veiða rækju. En sú breyting sem var gerð, og átti öllsömul að verða til hagsbóta, ef marka mátti orð hæstv. iðnaðarráðherra, leiddi til milljóna króna hækkunar á þessu litla fyrirtæki, rækjuverksmiðjunni í Súðavík. Bara kerfisbreytingin sem átti að vera svo góð.

Þetta hefur svo sem komið víðar fram í allri þessari umræðu. Hér er ég t.d. með alveg nýja grein úr Bændablaðinu frá þriðjudeginum 28. febrúar síðastliðnum þar sem verið er að fjalla um hækkun á rafmagni. Með leyfi forseta stendur hér undir fyrirsögninni: Allt að 35% hækkun milli áranna 2004 og 2005:

„Félag ferðaþjónustubænda leggur eftirfarandi erindi fyrir búnaðarþing 5.–8. mars 2006: Félag Ferðaþjónustubænda óskar eftir því að búnaðarþing láti kanna ástæður stórhækkaðs raforkuverðs til bænda. Ferðaþjónustubændur sem kynda með rafmagni hafa lent í allt að 35% hækkun milli áranna 2004 og 2005 sem er með öllu óásættanlegt. Hafa hlutaðeigandi aðilar bent hvor á annan þegar kemur að útskýringum. Raforkusalar benda á að niðurgreiðslur vegna húshitunar frá ríkinu hafi lækkað og stjórnvöld benda annars vegar á að raforkusalar hafi notfært sér ný raforkulög til hækkana og hins vegar að þessi hækkun hafi verið fyrirséð og eðlileg.“

Hér stendur svo áfram, með leyfi forseta:

„Marteinn Njálsson, formaður Félags ferðaþjónustubænda, segir að þegar breytingarnar á raforkulögunum voru kynntar hafi menn talið að í dreifbýlinu mundi raforkuverð hækka um 2–3% en í þéttbýlinu yrði um 3–5% lækkun að ræða. Þannig hafi þetta verið kynnt. Nú kemur það í ljós að hjá kúabændum og ferðaþjónustubændum, sem nota mikla raforku, og þeim sem kynda hús sín með raforku hefur verð hækkað um 35 til 40%. Við höfum fengið það staðfest hjá rafmagnsveitunum að þessi hækkun sé viðvarandi en ekki eitthvað sérstakt fyrir árið 2005. Það er því ljóst að eitthvað hefur brugðist í útreikningum og fyrir það verðum við að greiða, segir Marteinn.

Hann bendir á að margir ferðaþjónustubændur noti raforku til húshitunar og greiði nú orðið 70.000 til 75.000 kr. á mánuði. Aðrir hafi aðgang að jarðvarma og því verði mikil mismunun innan stéttarinnar á þessu sviði. Marteinn segir að Rarik skýri hækkunina á þann veg að niðurgreiðslur á rafmagni til húshitunar hafi lækkað. Stjórnvöld segi hins vegar að raforkufyrirtæki og dreifingarfyrirtæki hafi notfært sér breytingar á raforkulögunum og hækkað verðið.“

Eðlilega, segir formaður Félags ferðaþjónustubænda, viljum við fá að vita, í fyrsta lagi hvað er það rétta í þessu máli og í öðru lagi þá er þetta allt annað en kynnt var þegar raforkulögin voru sett og markaðsvæðing raforkunnar var innleidd. Og enn er hæstv. iðnaðarráðherra, þegar hún kemur hér í þennan þingsal, að hæla sér af þessum hækkunum. Þær hafi verið nauðsynlegar og eðlilegar. Það hafi reyndar sumir lækkað. En þegar á heildina er litið segir hæstv. iðnaðarráðherra að þetta sé eitt það besta verk sem hún hafi gert, það var að markaðsvæða raforkukerfið.

Það getur vel verið að þetta sé gott fyrir þá sem eiga og eignast þessi fyrirtæki þegar búið verður að einkavæða þau og selja, að eiga þá aðgang að því að geta selt rafmagnið svona dýrt. Það sé búið að hækka það og hægt að ná því inn. En markaðsvæðing á raforkukerfinu vegna þessara nýju raforkulaga er alveg óumdeild hjá mörgum aðilum.

Í Bændablaðinu 28. febrúar er önnur grein um þetta undir fyrirsögninni: Raforkuverð hefur víða hækkað í dreifbýli. Þar segir, með leyfi forseta:

„Árið 2003 tóku gildi ný raforkulög sem komu að fullu til framkvæmda í byrjun þessa árs. Það sem snýr að neytendum fyrst og fremst er sú staðreynd að ekki er lengur heimilt að selja rafmagn á mismunandi verði eftir notkun. Bændur hafa almennt komið frekar illa út úr þessum breytingum og raforkuverð hækkað víða í dreifbýli. Ástæðan liggur að hluta til í þeim breytingum sem gerðar voru á lögunum en fyrst og fremst vegna „rangra“ reikningsaðferða við sölu rafmagns í eldra kerfinu.“

Bændur gátu samið um svokallaðan marktaxta sem var ákveðinn fastur taxti sem þeir gátu nýtt til mismunandi þarfa, hvort sem heldur var til húshitunar eða til atvinnurekstrar. En nú var það óheimilt. Við það hækkaði rafmagn hjá þeim bændum sem höfðu gert þetta.

Nú um helgina heimsótti ég bæ í Húnavatnssýslu, einn af innstu bæjunum í Blöndudal. Þar hafði rafmagnið hækkað. Bóndinn sagði að það hefði orðið um 30% hækkun á rafmagni hjá honum vegna þessarar markaðsvæðingar rafmagnsins og þessara kerfisbreytinga sem keyrðar voru í gegn. Þessi bóndi gat ekki hælt iðnaðarráðherra fyrir framtakið eða tekið undir með iðnaðarráðherra um að þetta væri það besta sem hún hefði gert. Nei, síður en svo. Hann sagði reyndar að það væru allir í vörn og væru hræddir þegar heyrðist um ný einkavæðingarfrumvörp frá iðnaðarráðherra því þau hittu oftast þá sem síst skyldi. Þessi bóndi, sem sagði að það hefði orðið um 30% hækkun á rafmagni hans, er ekki einu sinni með fullgilt rafmagn því hann fær bara einfasa rafmagn. Víða um sveitir landsins er bara möguleiki á einfasa rafmagni, en eins og allir vita er þriggja fasa rafmagn miklu hagkvæmara og þau tæki sem nota þriggja fasa rafmagn eru miklu ódýrari og nota minna rafmagn.

En það er ekki gerður greinarmunur á því þegar verið er að verðleggja þjónustuna. Þá er síður en svo gerður greinarmunur á því. Ég veit ekki hvort menn væru ánægðari hér ef undanrenna væri seld á sama verði og rjómi, ef svo má taka til orða, því slíkur er munurinn, og jafnvel meiri, á milli einfasa og þrífasa rafmagns. Það er því alveg siðlaust hvernig þeir notendur sem hafa eingöngu aðgang að einfasa rafmagni eru meðhöndlaðir í þessu raforkukerfi. Ég hefði talið að það væri miklu réttara hér, í staðinn fyrir að vera að fara út í aukna einkavæðingu og markaðsvæðingu á rafmagni, að taka fyrst á þessum vanköntum og þeim atriðum sem mismuna mönnum nú þegar.

Fyrir einum þremur árum var gerð nokkuð ítarleg skýrsla um úttekt á ástandi á rafmagni um sveitir landsins og þörfinni fyrir endurbætur, bæði á línulögnum og eins á því hvar væri einfasa rafmagn og hvar væri þriggja fasa rafmagn. Því það að vera með einfasa rafmagn skerðir stórlega samkeppnishæfni þessara bænda og fyrirtækja. Þá var lofað sérstöku átaki til að bæta þessa þjónustu við landsmenn. Það fer nú ósköp lítið fyrir því, það eru aðeins örfáir bæir á ári sem fá breytingar úr einfasa í þrífasa rafmagn, og það hefur ekkert verið gert með áætlun sem sett var upp á sínum tíma. Þau loforð og fyrirheit sem voru gefin í því sambandi hafa að engu verið höfð.

En áfram er níðst á þessum bændum. Það er níðst á þeim áfram af þessu nýja innleidda raforkukerfi. Verðið hækkar. Þetta er það fólk sem lendir í mestu hækkun á rafmagninu. Auk þess er það rafmagn sem í boði er áfram af mjög skertum gæðum.

Ég gæti rakið fleiri svona dæmi hér, og mun gera það seinna í ræðu minni, um það hvernig þær aðgerðir sem hingað til hafa verið gerðar í markaðsvæðingu á rafmagninu hafa leitt til hækkaðs verðs.

Það er líka annar hlutur sem gerist við markaðsvæðingu á svona þjónustu. Þá dregur úr viðhaldi og endurbyggingu á dreifikerfi og öðrum búnaði sem er forsenda fyrir því að hægt sé að halda uppi afhendingaröryggi. Með þessu nýja kerfi, eins og nú er, eru orkuframleiðendurnir ekki lengur skyldugir til að sjá þjóðinni fyrir rafmagni. Þeir eru aðeins skyldugir til að sjá fyrir því rafmagni sem umsamið er að kaupa en aukist t.d. þörfin eru þeir ekki skyldugir til að sjá fyrir auknu rafmagni.

Þetta var það sem gerðist t.d. í Noregi þegar raforkuverin þar höfðu verið einkavædd. Þá gerðu kaupendurnir kaupsamning fyrir ákveðið magn af rafmagni en svo kom kaldur vetur og þörfin jókst verulega og þá var ekki til rafmagn í landinu til þessa fólks vegna þess að raforkuverin töldu sig ekki hafa neina skyldu til þess.

Fyrir nokkru var gefið út lítið kver, sem heitir „Misheppnuð markaðsvæðing raforku í Bandaríkjunum“. Eins og við höfum heyrt í umræðunni og hefur komið fram í umræðunni á þingi kom einkavæðing á rafmagni alvarlega í koll Bandaríkjamönnum. Fyrirtækin hafa ekki sinnt viðhaldi á búnaði þannig að við minnsta óveður fer rafmagnið af. Mig langar að vitna í þessa útgáfu á erindum Jerrolds Oppenheims og Theo MacGregor í Ársal á Hótel Sögu 28. maí 2001. Fyrirlestur þeirra hét „Misheppnuð markaðsvæðing raforku í Bandaríkjunum“. Þar segir, með leyfi forseta:

„Markmiðin með markaðsvæðingunni í Bandaríkjunum voru mörg. Það mikilvægasta var að lækka verð til neytenda. Annað markmið var að fjölga valkostum. Hefur almenningur einhvern áhuga á að velja sér þann sem framleiðir fyrir hann raforku? Ég dreg það í efa. Skoðanakannanir í Bandaríkjunum hafa sýnt að fæstir vita hvað rafveita þeirra heitir. Fólk vissi ekki hver framleiddi fyrir það raforku og því stóð á sama. Það eina sem fólk vildi vita var hvort öruggt væri að ljósið kviknaði þegar þrýst væri á rofann.

Enn eitt markmiðið er að raforkuframleiðslan hafi lágmarksáhrif á umhverfið. Bush Bandaríkjaforseti og fylgismenn hans vilja sniðganga umhverfislög í Kaliforníu og reisa orkuver sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti til að takast á við það sem þeir kalla ranglega orkuskort!“

Við þekkjum þessa umræðu héðan. Í staðinn fyrir Bush væri hægt að setja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, er vill sniðganga umhverfislög. Er þetta lýsandi dæmi. En áfram segir í fyrirlestrinum:

„Síðasta og þó mikilvægasta hugmyndin var sú að hagfræðingar og stjórnmálamenn héldu að hægt væri að ná öllum þessum markmiðum með óskoraðri og sanngjarnri samkeppni í raforkuiðnaðinum. Kennisetningin um að hinn frjálsi markaður skili okkur lægstu verðum.

En hverjar eru þá forsendurnar fyrir óskoraðri og sanngjarnri samkeppni? Getur eitthvað komið í staðinn fyrir raforku? Hver vill hefja notkun á hvallýsi að nýju?

Mjög erfitt er að komast inn á þennan fákeppnismarkað“ — hugsið ykkur, í Bandaríkjunum er talað um fákeppnismarkað. Hvað getum við þá sagt í þessu litla landi? — „þar sem mjög dýrt er að reisa orkuver og ekki er mögulegt að geyma raforku á hagkvæman hátt. Hún er að vísu geymd í armbandsúrum okkar en hvað myndi ein kílóvattstund kosta í rafhlöðu sem væri nógu stór til að lýsa heilt stórhýsi? Hún myndi kosta um 3.000 bandaríkjadali á kílóvattstund.

Ef verð hækkar verður fólk að vera fært um að draga úr notkun. Hve mikill sveigjanleiki vegna verðlags er fyrir hendi hvað varðar grundvallarþarfir á borð við rafmagn? Þegar börnin komi glorhungruð heim úr skólanum segir maður ekki: Því miður er verð á rafmagni of hátt þessa stundina, þið getið fengið að borða kl. 11 í kvöld þegar verðið lækkar. Það er því ekki mikill sveigjanleiki vegna verðlags fyrir hendi hvað rafmagn áhrærir.

Tilgangurinn var að fjölga rafmagnsframleiðendum svo einstaka framleiðendur næðu ekki að hafa of mikil áhrif á verðlag. Í reynd eru eigendur hins vegar afar fáir og þar af leiðandi ríkir fákeppni á markaðinum.“

Þetta er í Bandaríkjunum, frú forseti. Þetta er í hinum stóru Bandaríkjum, að talað er um að fákeppni ríki á raforkumarkaði. Hvað þá hér?

„Allar þessar ástæður gera það að verkum að samkeppni fær ekki notið sín á raforkumarkaði. Það er reyndar svo að Alfred Kahn, sem er hagfræðingur við Cornell University og fyrrverandi markaðseftirlitsmaður hjá New York State Public Utility Commission, segir nú að raforkumarkaður sé einstakur og að ekki megi standa að lóðréttri upplausn hans, það er að skilja í sundur framleiðsluþáttinn, dreifinguna og söluna.“

Nú, það má ekki skilja í sundur, segir hann. En hvað er að gerast hér? Það er einmitt verið að skilja þetta allt í sundur.

Í stuttu máli má segja að í fyrirlestrinum um rafmagnsverðið í Bandaríkjunum komi fram að fullkomnar gerviforsendur séu fyrir slíkum breytingum. Neytandinn er ekki að spekúlera í hver selji honum rafmagn. Hann vill bara fá rafmagn. Hann hefur ekkert val. Hann getur ekki dregið úr rafmagnsnotkun þótt verðið hækki eða breytist eða farið að leita sér að öðrum orkusala. Hann hefur ekki um neina að velja. Í hinum stóru Bandaríkjum er engin samkeppni á raforkusviði heldur hrein fákeppni. Svo teljum við að á Íslandi getum við einkavætt raforkugeirann, þegar meira að segja Bandaríkjamenn telja það ekki hægt.

Það er þekkt dæmið frá Kaliforníu, þar sem raforkukerfið hafði allt verði einkavætt. Svo hrundi það og ríkisstjóri Kaliforníu varð að kaupa allt til baka aftur til að geta afgreitt rafmagn til almennra notenda. Svo förum við sömu leiðir hér, að einkavæða Rarik. (Gripið fram í: Nei.) Það er hið nákvæmlega sama. Að fara að reka þetta sem fyrirtæki í samkeppnisrekstri, hvað er það annað en einkavæðing? Menn þykjast ætla að reka fyrirtæki í samkeppnisrekstri, þar sem á að gera arðsemiskröfu og upplýsingaleynd mun ríkja, þar sem á að láta framkvæmdastjórana fá vald til að ráðskast með fólk eins og þeim sýnist. Þetta er það kerfi sem á að innleiða.

Ég get líka vísað til þess sem gerst hefur í Evrópu. Þar geisar stórstyrjöld í orkumálum. Hér segir í minnispunktum um það sem þar er að gerast, þar sem vitnað er í skýrslu frá Spáni og reyndar líka í International Herald Tribune. Þar segir, svona lauslega þýtt, að nú geisi stórstyrjöld í Evrópusambandinu og sé ákaflega fróðlegt fyrir Íslendinga að fylgjast með henni. Ríkisstjórnir Frakklands og Spánar skilgreina orkugeirann þannig að hann eigi að njóta algerrar sérstöðu. Þær vilja grípa til áhrifamikilla varna þegar erlendi orkufyrirtæki teygja sig inn til hlutafjárkaupa eða yfirtöku. Forsætisráðherra Spánar segir að markaðsfrelsi sé mikilvægt en fólkið enn þá mikilvægara.

Þetta er gagnlegt fyrir okkur á að hlusta. Meira að segja forsætisráðherra Spánar segir að markaðsfrelsi sé mikilvægt en fólkið enn þá mikilvægara. Frakkar tala einnig á sömu nótum, um að orkan sé mikilvæg fyrir styrk þjóðfélagsins. Okkur er því ljóst hvað evrópskir þjóðarleiðtogar segja um orkukerfið. Ég held að þetta væri mjög þörf setning fyrir okkur að hafa í huga, sem forsætisráðherra Spánar segir: Markaðsfrelsið er mikilvægt en fólkið er enn þá mikilvægara. Við sem þurfum að þola hvert lagafrumvarpið á fætur öðru um einkavæðingu, einkavæðingu á almannaþjónustu og markaðsvæðingu á almannaþjónustunni, ættum að hlusta á orð þeirra. Markaðsfrelsi er mikilvægt en fólkið er enn þá mikilvægara. Þannig held ég líka varðandi það sem hér er að gerast, með að markaðs- og einkavæða raforkukerfið.

Frú forseti. Ég vitnaði hér í fyrri ræðu minni til einkavæðingar Símans. Nákvæmlega sömu rök heyrðust þegar Póstur og sími var hlutafélagavæddur og síðan markaðsvæddur og seldur. Þá lýstu menn því hátíðlega yfir að það væri bara formbreyting til að aðlaga fyrirtækið nútímarekstrarháttum, eins og sagt var. Menn sögðu að það stæði alls ekki til að selja. En hver var raunin? Eftir nokkur ár var allt komið á fullt með að selja fyrirtækið. Fyrst var reyndar bara talað um að selja hluta en að ríkið mundi áfram eiga a.m.k. 50%. Að lokum var tekin ákvörðun um að selja allt fyrirtækið.

Hvað sagði talsmaður Framsóknarflokksins fyrr í dag? Nákvæmlega hið sama og var sagt við hlutafjárvæðingu Símans. Það á bara að hlutafélagavæða fyrirtækið. Það stendur ekki til að selja, a.m.k. ekki meiri hlutann. Hið sama er sagt við hlutafélagavæðingu Rariks. Það er sama hvernig stjórnarþingmenn reyna að slá ryki í augu fólks með því að segja að aðeins sé um formbreytingu að ræða. Það sjá allir í gegnum það. Ég skil reyndar ekki í þingmönnum Framsóknarflokksins að halda að þjóðin sjái ekki í gegnum þetta fals. Sjálfstæðisflokkurinn er þó hreinlyndari að því leyti að hann segir afdráttarlaust að það sé vilji flokksins að einkavæða og selja ríkisfyrirtæki og hann vilji fá gott verð fyrir. Það var nokkuð sem hann hugsaði ekki um þegar hann seldi bankana, um að fá gott verð. En þeir segja það afdráttarlaust og ætli það sé ekki sú stefna sem ræður för við hlutafélagavæðingu Rafmagnsveitna ríkisins?

Frú forseti. Ein af rökunum sem hér hefur verið haldið fram er að breytingin sé góð fyrir starfsfólkið, að hlutafélagavæða Rarik. Ég held að það væri þarft að rifja upp hvernig fór fyrir starfsfólki hjá Símanum. Strax eftir að Síminn var hlutafélagavæddur laut hann ekki lengur stjórn Alþingis heldur var þar sett yfir stjórn sem bar ábyrgð á hinum daglega rekstri. Um leið var farið að segja upp fólki og bjóða út þjónustuna. Venjulega er byrjað á gólfinu, þ.e. segja upp ræstingafólki og bjóða út ræstingar. Síðan fór þetta áfram í gegnum fyrirtækið, að segja fólki upp, bjóða út þjónustuna, keyra niður laun, skerða starfskjör.

Þegar Síminn hafði verið seldur var farin hringferð um landið til að loka starfsstöðvum á Ísafirði, á Blönduósi, á Sauðárkróki, Siglufirði og svo áfram hringinn í kringum landið. Að því er ég best veit var meira að segja tveimur af þremur starfsstöðvum á Suðurlandi lokað, í kjördæmi hv. þm. Drífu Hjartardóttur, sem nú situr á forsetastóli. Það var ekki gert af neinni umhyggju fyrir þjónustunni. Þar var ekki rætt við heimamenn eða við sveitarfélögin. Ekki var rætt við þá sem þessi þjónusta snerti, þótt aðeins væru tveir eða þrír dagar liðnir frá því að fyrirtækið var selt. Þetta var ekki rætt fyrir fram, heldur var læðst heim á staðina og starfsfólkinu tilkynnt að loka ætti starfsstöðinni og fólkinu sagt upp.

Það þykir nú ekki góð latína þegar forsætisráðherra fer og sýnir sig í beinni útsendingu og talar um hvernig farið sé með starfsfólk á Keflavíkurflugvelli hjá varnarliðinu, að ekki eigi að koma svona fram við starfsfólk, segja því upp með svo stuttum fyrirvara og algerlega óvíst hvaða starfslokakjör það fái. Ég er alveg sammála því að það er forkastanleg framkoma hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli að koma svona fram við starfsfólkið. Alveg hjartanlega sammála.

En ég er líka svo mikið sammála því að framkoma Símans gagnvart því starfsfólki sem hann sagði upp var líka forkastanleg, þótt hæstv. forsætisráðherra finnist lítið til þess koma. Það var líka alveg forkastanleg framkoma. Þegar þjónustustöðvar Símans voru lagðar af var auðvitað verið að skerða þjónustuna á viðkomandi byggðalögum.

Þetta er það sama ferli og verið er að setja Rarik í, nákvæmlega sami ferli. Byrjað er á að hlutafélagavæða það, byrjað á því svo hægt sé að ráðskast með fyrirtækið þó það sé áfram í ríkiseigu vegna þess að það er komið á hlutafélagaform. Skerða réttindi starfsmanna svo auðveldara sé að segja þeim upp eða ráðskast með þá. Þetta eru fyrstu skrefin í að búa fyrirtækið undir einkavæðingu, undir það að verða selt.

Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, frú forseti, eru þetta viðbrögðin. Ég hef farið og hitt fólk sem vinnur í starfsstöðvum Rariks úti um land. Það kvíðir framhaldinu vegna þess að það veit að þetta er eitt skref í ferli sem hafið er og hófst reyndar fyrir nokkru síðan því þegar hefur verið byrjað á að undirbúa Rafmagnsveitur ríkisins undir þetta einkavæðingarferli og undir það að verða markaðsvætt og selt. Auðvitað er fólk kvíðið núna því það sér fyrir sér að það er að lenda í nákvæmlega sama ferli og Landssíminn fór í.

Það er skoðun þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að raforkan sé hluti grunnþjónustunnar, sá hluti hennar sem á að veita landsmönnum gæði, afhendingaröryggi og verð á jafnréttisgrunni. Arðurinn af þeirri starfsemi á að skila sér til heimilanna í samkeppnishæfri búsetu, í lágu raforkuverði til fyrirtækja sem síðan geta þá stundað öfluga og arðbæra starfsemi. Nákvæmlega sama og ég vitnaði til í Bandaríkjunum þá lýtur raforkan ekki þessu samkeppnisumhverfi á nokkurn hátt. Fólk er ekki að kaupa af þessum framleiðanda í dag og öðrum á morgun. Fólk getur ekki breytt notkun sinni eftir verði. Það getur ekki sagt við krakkana þegar þeir koma heim úr skólanum: Við verðum að fresta því að elda matinn því raforkuverðið er tiltölulega hátt núna. Það er ekki þannig. Og meira að segja í Bandaríkjunum, þeirri stóru álfu samkeppnisrekstrar, er ekki hægt að koma á virkri samkeppni í raforkumálum sem skilar sér til neytenda í hagkvæmara verði og öruggari afhendingu. Nei. Þar verður fákeppni og einokun.

Því skyldum við hér á Íslandi, í þessu litla landi, telja að hægt sé að koma á einhverju samkeppnisumhverfi, að hægt sé að reka Rarik sem samkeppnisfyrirtæki, fyrirtæki sem að meginhluta til er eigandi að dreifiveitum vítt og breitt um landið sem dreifa rafmagni til notenda og fyrirtækja, þar sem enginn annar aðili er til að reka slíkar dreifiveitur og eiga þær? Þótt menn séu að stofna einhver fyrirtæki um sameiginlegan rekstur á dreifiveitum Rariks, Orkubúi Vestfjarða o.s.frv., breytir það ekki eðli málsins. Það verður aldrei samkeppnisrekstur á þessum grunni. Þeir sem halda því fram eru annaðhvort vísvitandi að blekkja, nema þá að þeir séu svo heillum horfnir að þeir trúi þessu. En það er þá gríðarleg sjálfsblekking.

Þess vegna og af öllum þessum ástæðum, frú forseti, leggjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs það afdráttarlaust til að frumvarpið um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins verði dregið til baka. Við mótmæltum raforkulögunum. Við mótmæltum því að verið væri að innleiða Evróputilskipun um samkeppnisumhverfi á raforkumarkaðnum sem meira að segja Evrópulöndin hafa ekki enn innleitt að fullu og neita að gera. Við mótmæltum því að þetta yrði innleitt hér. Reyndar líklega eini flokkurinn. Við mótmæltum raforkulögunum sem hafa leitt til stórhækkaðs raforkuverðs í landinu. Við vildum og viljum að raforkukerfið sé sameign þjóðarinnar og nú þegar verið er að leggja fram frumvarp um hlutafélagavæðingu á Rafmagnsveitum ríkisins, þá er það af sama meiði.

Ég vísaði til þess áðan að skoðanakannanir sem gerðar voru sýndu allar mikla andstöðu þjóðarinnar við sölu Símans, við sölu fjarskiptakerfis Símans og vildu að fjarskiptakerfi Símans yrði áfram í þjóðareign. Í skoðanakönnun sem ég vitnaði einnig í áðan var einungis fjórðungur aðspurðra hlynntur einkavæðingu í heilbrigðis- og skólakerfinu. Það er lítill hluti. Þar standa einmitt þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs með almenningi í að verja heilbrigðis- og skólakerfið einkavæðingunni.

Meira að segja varðandi raforkukerfið kemur fram að mikill meiri hluti er andvígur einkavæðingu Landsvirkjunar, telur að Landsvirkjun eigi að vera áfram í samfélagseigu og ætli Rarik sé ekki á sama báti.

Frú forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggjum áherslu á að raforka til almennra notenda og fyrirtækja sé mikilvægur þáttur almennrar grunnþjónustu sem á að reka á félagslegum grunni. Þau skref sem hafa verið stigin í markaðsvæðingu raforkukerfisins hafa þegar leitt til mikilla hækkana á verði á raforku til neytenda víða um land, þvert á gefin loforð. Ég gæti rakið þau og er með mér margar yfirlýsingar frá fyrrverandi formanni iðnaðarnefndar Framsóknarflokksins, Hjálmari Árnasyni, og frá hæstv. iðnaðarráðherra þar sem ítrekað var lofað að þessi breyting á raforkukerfinu leiddi ekki til hækkana. En allt annað hefur gerst.

Hlutafélagavæðing Rariks er liður í yfirlýstum markmiðum stjórnvalda um að einkavæða raforkukerfið og búa orku- og dreifingarkerfi landsmanna undir sölu á almennum markaði. Þau áform eru andstæð hagsmunum almennings í landinu. Með vísan til þess leggjum við til að málinu verði vísað frá, frú forseti. Ég hef haft þá ánægju að vitna til skoðanakannana eins og oft er gert sem eru sama sinnis og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að ekki á að einkavæða raforkukerfið. Það á að vera almenningseign. Það verður ekki innleidd nein raunveruleg samkeppni í raforkugeiranum. Þetta verður ávallt að flokkast sem grunnalmannaþjónusta og fyrir því munum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs berjast.