132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Álit Samkeppniseftirlits um taxta leigubifreiða.

[13:36]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að vekja athygli á þessu máli á þingi. Fyrir liggur álit Samkeppniseftirlits eins og kom fram í máli hæstv. samgönguráðherra. Hins vegar er ekki ljóst hver útfærslan eigi að vera á þeim breytingum sem mér skilst að þurfi að gera samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlits og algjörlega óljóst á þessari stundu hvort þær breytingar verði neytendum til hagsbóta. Það hlýtur að vera markmið þess að gera breytingar á því kerfi sem við nú höfum í leigubílaakstri að það sé neytendum til hagsbóta og lækki jafnvel verðið til neytenda frekar en að hækka það.

Það væri fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hann eða ráðuneyti hans hefur t.d. leitað ráða hjá talsmanni neytenda eða Neytendasamtökunum um það hver reynslan sé af álíka breytingum í öðrum löndum og öðrum stórborgum og hvernig best sé þá að útfæra þær breytingar sem mér skilst að hér þurfi að gera.