132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Álit Samkeppniseftirlits um taxta leigubifreiða.

[13:38]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni, ég held að mikið bráðræði væri og óðagot að fara út í þær breytingar sem til eru lagðar í áliti Samkeppniseftirlits. Það væri mikið óðagot bæði fyrir neytendur sjálfa og leigubílstjórana er til lengri tíma lætur. Ég held að engin ástæða sé til að fara út í þær breytingar sem leiða til þess að samræmd gjaldskrá leggist af. Ég held að það væri mikil vitleysa og ávísun á verðhækkun og verri aðstæður fyrir neytendur. Eins og hæstv. samgönguráðherra gat um áðan gegna leigubílarnir mjög mikilvægu hlutverki í öllu okkar samfélagsmynstri. Þeir gegna miklu hlutverki orðið í almannaþjónustunni líka. Í æ ríkari mæli í fleiri og fleiri sveitarfélögum er farið að reka akstursþjónustu, t.d. fyrir aldraða, með leigubílum og ég held sjálfur að feta eigi þá slóð á næstu missirum að auka verulega hlutdeild leigubíla og leigubílstjóranna í því að þjónusta almenning með viðurkenndum almenningssamgöngum eftir ýmsum slíkum leiðum.

Eins og hæstv. samgönguráðherra sagði er um að ræða takmörkuð gæði og takmörkuð leyfi bundin við svæði og það væri að mínu mati mikil villa og mikið bráðræði að breyta því og afnema samræmda gjaldskrá. Ég er alveg viss um að það væri verra fyrir bæði þá sem reka leigubílana, leigubílstjórana sjálfa, og alveg klárlega fyrir neytendur. Það kæmi það mikið flot á þessa hluti og það er mikilvægt að fá afdráttarlaus pólitísk skilaboð frá hæstv. samgönguráðherra um útfærsluna í þessu máli. Það er mjög mikilvægt því að hér er um að ræða mikilvæga grundvallarþjónustu í allri okkar samfélagsgerð, hluti sem þurfa að vera í lagi og það á ekki að leiða til verðhækkana og einhvers konar uppnáms á þessum markaði sem koma bæði neytendum og leigubílstjórum illa.