132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Álit Samkeppniseftirlits um taxta leigubifreiða.

[13:40]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Leigubílar eru mikilvægur þáttur í almenningssamgöngum hér á landi. Ég tek alveg heils hugar undir orð hæstv. samgönguráðherra Sturlu Böðvarssonar um hversu mikilvægt er að þessi starfsemi njóti fulls trausts neytenda. Mér finnst þau orð hæstv. ráðherra að það sé að hans mati ekki skynsamlegt og ekki neitt sem reki á eftir því að þessi breyting verði gerð nú vera mjög mikilvæg inn í þessa umræðu.

Við þekkjum af ferðum okkar erlendis hversu óörugg við verðum ef við tökum leigubíla og vitum ekki hvaða gjald maður situr uppi með að borga. Við leitum gjarnan að leigubílastöð eða hóteli sem tryggir okkur fyrir fram að við förum með leigubíl sem rukki innan einhverra samþykktra skilgreindra marka.

Ég hef heyrt frá ferðaþjónustuaðilum hér á landi að þeir óttast að verði sú breyting að afnema hámarksgjaldskrá leigubíla að raunveruleika muni það skapa óvissu og óöryggi erlendra ferðamanna um gjaldskrána, ferðamanna sem þekkja ekkert inn á íslenskar aðstæður og taka leigubíl. Sú tilhögun sem hefur verið hingað til með fasta hámarksgjaldskrá hefur verið mikil trygging, bæði gagnvart ferðamönnum sem hingað koma og almennum neytendum. Engin skynsamleg rök hafa verið færð fyrir því að breyta þessu í þá veruna að afnema gjaldskrá (Forseti hringir.) og gefa allt frjálst. Ég legg áherslu á, frú forseti, að vörður (Forseti hringir.) verði staðinn um leigubílana.