132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Álit Samkeppniseftirlits um taxta leigubifreiða.

[13:42]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda Ögmundi Jónassyni fyrir að hreyfa þessu máli hér. Um nokkurn tíma hafa leigubílar og starfsemi þeirra og leigubílastöðva verið í umræðu á Alþingi og ekki langt síðan sett voru sérstök lög þar um. Mjög var horft þá til annarra landa eins og til Svíþjóðar þar sem Svíar höfðu tekið það upp að afnema svokallaðar leigubílastöðvar og hver og einn sem hafði áhuga á því að keyra leigubíl gat gert svo. Það varð hins vegar til þess að margir aðilar lentu í ógöngum, t.d. þegar þeir voru að senda barnfóstrur sínar heim í leigubílum sem enginn vissi hvaðan komu eða hvert fóru. Hlaust af þessu mikill skaði og, eins og hér hefur komið fram, vantraust líka á verðskrá og bifreiðastjóra þeirra bíla sem ekki voru á sérstökum merktum bifreiðastöðvum.

Það er rétt sem hér hefur komið fram, auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé þannig að það er hætta á að verði gjaldskrá gefin frjáls muni einhverjir misnota sér aðstöðu sína. Sérstaklega gæti þetta þá bitnað á ferðamönnum sem við leggjum mikið kapp á að muni finna það á Íslandi að hér geta þeir treyst því sem sagt er og treyst t.d. aðilum sem eru í leigubílaakstri.

Ég fagna orðum hæstv. samgönguráðherra hvar hann kemur inn á það að það sé aldeilis ekki í anda samgönguráðuneytisins að Samkeppniseftirlitið skuli gera þetta. Við viljum auðvitað hafa frjálsræði á sem flestum viðskiptaháttum sem leiða til lægra vöruverðs og ódýrari þjónustu. Því miður held ég að við höfum ratað í ógöngur hér og sjáum fram á að þetta muni ekki verða til góðs fyrir almenning.