132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Álit Samkeppniseftirlits um taxta leigubifreiða.

[13:46]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Til að samhljómurinn verði ekki allt of mikill vil ég koma inn í þessa umræðu. Ég hef alltaf verið á móti þessum fjöldatakmörkunum á leigubílum. Auðvitað má segja að hámark á gjaldinu sé tengt því að ríkisvaldið skuli skipta sér af þessari atvinnugrein með þessum hætti, skipta sér af því hversu margir vinna við atvinnugreinina. Í því ljósi geta menn svo sem haft þá skoðun að það þurfi að hafa hámarkið. En auðvitað er þetta aftan úr öldum að skipta sér af því að fólk megi ekki fara og gera út leigubíla eins og í annarri atvinnustarfsemi hér í landi og ég hvet hæstv. samgönguráðherra til að setjast enn einu sinni yfir það hvort ekki eigi að koma á frelsi í þessari atvinnugrein eins og í öðrum atvinnugreinum í landinu.