132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[14:03]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisverð ræða hjá hv. þingmanni. Ég vil spyrja aðeins út í grundvallaratriði frumvarpsins. Það mátti skilja hann þannig að stærsta ástæðan fyrir því að hann er á móti hlutafélagsforminu sem rekstrarformi Rafmagnsveitna ríkisins væri vantraust hans á Framsóknarflokknum. Ef við leggjum það til hliðar, tökum út fyrir sviga hverjir standa í þessu, telur þá ekki hv. þingmaður að hlutafélagaformið geti verið eðlilegt rekstrarform um fyrirtækið, sérstaklega ef tryggt væri að settar yrðu reglur um upplýsingar og lög um hlutafélög í opinberri eigu og fyrir liggur að ekki eigi að einkavæða fyrirtækið?

Fyrir liggur að framtíðarfyrirkomulag á eignarhaldi orkufyrirtækjanna í landinu, sem fara með þessar grundvallarauðlindir okkar, vatnsorkuna, hitann í jörðinni o.s.frv., mun örugglega taka töluverðum breytingum á næsta ári hvort sem lífeyrissjóðirnir koma inn í sem eigendur o.s.frv. Væri t.d. heppilegt að líta til þess að sveitarfélögin í landinu gerðust eigendur Rafmagnsveitna ríkisins eða að þeim yrðu seldar Rafmagnsveiturnar á móti hlutdeild ríkisins til að skapa mótvægi í rekstri orkufyrirtækja og dreifa eignarhaldi í þeim án þess að setja fyrirtækin út á markað og einkavæða með þeim hætti? Tryggja mætti félagslegt eignarhald á þeim í gegnum sveitarfélög, jafnvel lífeyrissjóði og hið opinbera. Þá þyrfti náttúrlega að koma til hlutafélagavæðing fyrir slík eignaskipti, vænti ég. Sjálfsagt mun þó hægt að fara aðra leið. En ef þetta er skoðað í þessu ljósi, er þá hv. þingmaður jafnandvígur hlutafélagsforminu, þ.e. ef við tökum Framsóknarflokkinn út fyrir sviga?