132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[14:06]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel vel koma til greina að færa þetta í hlutafélagaform. En þá er þarf að vera á hreinu að upplýsingalög séu virk og þarf að ríkja meira traust. Eins verð ég að segja að ef maður lítur til þess hve erfitt hefur reynst að toga upplýsingar úr fyrirtækjum í eigu okkar allra, svo sem Símanum meðan hann var í eigu allra, þá er það ekki góð reynsla. Áður en menn gera þetta fyrirtæki að hlutafélagi þá finnst mér eðlilegt að menn tryggi upplýsingaflæðið. Hvers vegna má það ekki? Hvers vegna vilja framsóknarmenn halda öllu leyndu með aðstoð sjálfstæðismanna? Ég átta mig ekki á því hvaða hagsmuni þeir vilja tryggja. Mér finnst kominn tími til að menn svari því.

Að vísu lagði hæstv. iðnaðarráðherra fram frumvarp um opinber hlutafélög sem gerði ráð fyrir að blaðamenn ættu að mæta á einhverja fundi en það bauð ekki upp á meira. Það var allt innihaldið. Ráðherra hefur vægast sagt fengið litla gagnrýni og vikið sér hjá henni með blaðri um að þetta ætti að tryggja eitthvað, að blaðamenn mæti á fundi. Það sér hver maður að það tryggir hvorki eitt né neitt og alls ekki hagsmuni almennings.