132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[14:11]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð um hugtakanotkun í upphafi. Menn tala annars vegar um að einkavæða og hins vegar um að markaðsvæða. Sumir tala um mikilvægi eignarhaldsins fyrst og fremst, óháð rekstrarforminu, þannig að saman ægir margvíslegum hugmyndum þar sem menn leggja misjafnan skilning í hugtökin og það sem fyrir mönnum vakir.

Að auki fengum við ýmsar útgáfu af því í gær hvað vakir fyrir stjórnvöldum. Við höfum heyrt hæstv. iðnaðarráðherra tala um að í framtíðinni verði raforkugeirinn einkavæddur, tekinn úr höndum opinberra aðila og færður yfir á markað. Við höfum fengið frumvarpið sem hér liggur fyrir, sem segir að Rafmagnsveitur ríkisins eigi að vera alfarið í eigu ríkisins. Við höfum fengið útgáfu hv. formanns iðnaðarnefndar sem segir að hann sjái fyrir sér að eignarhaldið verði að meiri hluta í eigu ríkisins, þrátt fyrir 3. gr. í frumvarpinu þannig að við erum með alls kyns útgáfur í gangi.

Í mínum huga felst markaðsvæðingin í því að gera stofnun að hlutafélagi. Það er markaðsvæðingin óháð eignarhaldi. Það sem vakir fyrir mönnum með því að gera stofnun að hlutafélagi er að færa hana út á markað þannig að hún geti hagað sér eins og fyrirtæki almennt gera. Þess vegna verður í bland að taka hana undan upplýsingalögum og leyfa henni að búa yfir ýmsum viðskiptaleyndarmálum, svo dæmi sé tekið. Þetta er eitt af markmiðum þess að gera stofnun að hlutafélagi.

Síðan eru uppi sjónarmið um það hvort hægt sé að fara einhverja millileið, hvort þeir sem eiga fyrirtækið eða fulltrúar þeirra, ríkis eða sveitarfélags eftir atvikum, geti komist inn á fundi og spurt almennra spurninga. En hins vegar deila þeir sem setja fram slík frumvörp eða tillögur ekki um að eftir sem áður eigi að ríkja ákveðinn leyndarhjúpur um hlutafélagið. Markmiðið er að það geti hagað sér eins og fyrirtæki á markaði. Þar kemur að þeirri gagnrýni sem við höfum sett fram gagnvart þeim sem ekki vilja ganga alla leið og setja fyrirtækið yfir á hlutafélagamarkað. Það er nokkuð sem ég skil mætavel og nýta sér kosti hlutafélagsformsins með aðhaldi frá hluthöfum.

Við eigum erfitt með að skilja hvers vegna menn ætla að fara þessa hálfu leið, búa til eitt hlutabréf, setja það undir einn ráðherra og síðan einhverja undarlega upplýsingagjöf sem menn eru reyndar að bögglast með í þingnefndum í hvaða formi eigi að vera. En þetta er í mínum huga skrefið sem menn stíga til markaðsvæðingar að þessu leyti og ég tel hlutafélagsformið ekki nýtast sem skyldi ef eigandinn er einn og aðhaldið skortir frá hluthöfum. Ef við hins vegar ætlum að tryggja félagslega eign sem aðrir tala fyrir, þá eigum við ekki að gera fyrirtækið að hlutafélagi, við eigum að fara aðrar leiðir. Þá eigum við að skoða sameignarfélagsformið eða hugsanlega önnur form, byggðasamlags svo dæmi sé tekið eða þróa einhver ný form sem við getum soðið upp úr þessu til að nýta alla þá kosti sem við sjáum í þeirri löggjöf sem er fyrir hendi og reyna að sneiða frá ókostina.

Mér finnst ákveðnar mótsagnir koma fram í yfirlýsingum manna hvað þetta snertir. Hlutafélagavæðing er skref í átt að markaðsvæða þennan geira. Það er yfirlýst markmið stjórnvalda líka og þó ég sé ekki sammála hægri mönnunum, sjálfstæðismönnum og hægri mönnunum í Framsóknarflokknum — er ég þá náttúrlega að vísa fyrst og fremst til hæstv. iðnaðarráðherra og samherja hennar á þeim bænum, því það eru líka til félagshyggjumenn í Framsókn en þeim fer fækkandi — en þeir, hægri mennirnir, vilja ganga alla leið og nýta kosti markaðarins að fullu. Ég er sammála hinum sem vilja hina félagslegu eign og hið félagslega rekstrarform einnig. Þarna finnst mér átakalínurnar liggja.

Síðan er rætt um kosti þess og galla að markaðsvæða raforkukerfið. Við sem höfum verið þessu andvíg byggjum málflutning okkar á tilvísan í reynslu af kerfisbreytingum af þessu tagi. Við byggjum á tilvísan í reynslu af kerfisbreytingunum sem þegar hafa átt sér stað hér á landi. Hæstv. iðnaðarráðherra sem er í forsvari fyrir ríkisstjórnina í þessu efni vísar öllu slíku á bug, segir m.a. í ekki svo ýkjagamalli frétt í Fréttablaðinu í undirfyrirsögn, með leyfi forseta:

„Iðnaðarráðherra segir fyrsta ár frjáls markaðar í sölu á raforku verða tilraunaár. Breytingarnar séu til batnaðar, verð hafi ekki hækkað því litið sé á heildina. Forstjórar orkuveitna séu ósáttir við að lúta aðhaldi og eftirliti.“

Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að þeir forstjórar eru ósáttir, enda hafa þeir bent á t.d. að daggjald raforku hafi hækkað um 106%. Svo vitnað sé í frétt í Fréttablaðinu segir á forsíðu, ég hygg að það hafi verið miðvikudaginn 1. febrúar, með leyfi forseta:

„Daggjald heimila vegna raforkunotkunar hefur tvöfaldast á tveimur árum. Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur segir raforkulögin orsaka hækkunina. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir flest fyrirtæki einnig greiða hærra verð og líkir ástandinu við samráð olíufélaganna.“

Í Blaðinu 2. febrúar, daginn eftir, er tilvitnun í Frans Árnason, forstjóra Norðurorku, þar sem segir um ummæli hans í Fréttablaðinu, með leyfi forseta: „Hann þekki engan sem sé ánægður með lögin.“ Þar er náttúrlega undantekning sem við þekkjum öll og þar er hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, og formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkir Jón Jónsson og félagar hans í Framsóknarflokknum sem eru alveg yfir sig hrifnir af þessum breytingum, jafnvel þótt allir aðrir sjái hækkanir þar sem þau sjá lækkanir.

Ég vitna aftur í blaðafregn, það er Bændablaðið að þessu sinni frá 28. febrúar. Hér segir, með leyfi forseta:

„Marteinn Njálsson, formaður Félags ferðaþjónustubænda, segir að þegar breytingarnar á raforkulögunum voru kynntar hafi menn talið að í dreifbýlinu myndi raforkuverð hækka um 2–3% en í þéttbýlinu yrði um 3–5% lækkun að ræða. Þannig hafi það verið kynnt. „Nú kemur það í ljós að hjá kúabændum og ferðaþjónustubændum sem nota mikla raforku og þeim sem kynda hús sín með raforku hefur verð hækkað um 35–40%. Við höfum fengið það staðfest hjá rafmagnsveitunum að þessi hækkun sé viðvarandi en ekki eitthvað sérstakt fyrir árið 2005. Það er því ljóst að eitthvað hefur brugðist í útreikningum og fyrir það verðum við að greiða,“ segir Marteinn.“

Þessi tilvísun í Bændablaðið er frá 28. febrúar 2006. En kerfið er að verða til. Það eru vissulega rök í sjálfu sér að benda á að enn eigi eftir að koma reynsla á kerfið. Ekki sé orðinn til samkeppnismarkaður sem menn vonist til að skapist í landinu. En þá horfum við til útlanda og horfum til reynslunnar erlendis frá. Við höfum tíundað það í ræðum okkar, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hvernig markaðsvæðing raforkukerfisins í Evrópu hafi leitt til verðhækkunar en ekki verðlækkunar og það vefengir enginn. Fulltrúar Evrópusambandsins sem voru hér nýlega á ferð staðhæfðu þetta og það var sá sem fer með raforkumálin hjá sambandinu, maður sem er sjálfur mjög trúaður á markaðsvæðingu kerfisins en sagðist verða að viðurkenna að þessu væri þannig farið að verðið hefði hækkað. Aðrir sérfræðingar sem hafa komið hingað til lands eða tjáð sig í rituðu máli hafa sagt hið sama. Verðlagið hefur hækkað, verðlagið á raforku hefur hækkað en samt ætla menn að halda áfram.

Hægt er að benda á ýmislegt í þessu efni. Það er t.d. athyglisvert sem fram hefur komið í Noregi og var sagt frá í útvarpsfréttum ekki alls fyrir löngu, að neytendur þar í landi hafi brugðist, þeir fylgist ekki með verðlaginu eins og menn höfðu ætlað að mundi gerast. Það er reyndar í samræmi við það sem hv. þm. Jón Bjarnason vitnaði til í gær, í skýrslu frá Bandaríkjunum sem sýnir að neytendur í Bandaríkjunum almennt horfi fyrst og fremst til öryggisins, að yfirleitt kvikni ljós fremur en til verðlagsins, að verðlagið hefði minni áhrif en menn höfðu ætlað.

Það kemur fram líka svo ég vitni í enn eina heimild. Það er grein eftir Jon R. Hammerfjeld sem birtist í norska Dagblaðinu fyrir nokkrum missirum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Eftir að rafmagnsmarkaðurinn var gefinn frjáls hafa notendur getað skipt um rafmagnsseljendur en þau fyrirtæki sem hafa flesta viðskiptavini eru langt í frá með lægsta rafmagnsverðið.“

Jafnvel þótt kenningin segi að samkeppni á þessu sviði eigi að hafa einhver veruleg áhrif er reyndin allt önnur. Síðan er hitt sem ég held að við hljótum að huga að og læra þar aftur af reynslunni. Þau fyrirtæki sem sýsla með rafmagnið, vatnið á erlendri grundu eða aðra þætti, fjölmiðlun, teygja anga sína inn í margvíslega og fjölbreytta atvinnustarfsemi. Við munum hvernig það var með bankana og við þekkjum það frá tryggingafélögunum að þeir aðilar setja neytandanum iðulega stólinn fyrir dyrnar og segja: Jú, jú, þú getur fengið þessi kjör hjá mér, þessi góðu kjör en að því tilskildu að þú sért í viðskiptum hér og hér og hér. Við þekkjum það t.d. með bankana, þegar þeir fóru niður með vextina þá voru hagstæðustu og lægstu vextirnir boðnir með því skilyrði að viðkomandi kæmi einnig inn í bankann með viðbótarlífeyrissparnað, svo dæmi sé tekið. Þetta eru bara staðreyndir. Kenningin um að hinn frjálsi markaður eigi að lækna öll mein gengur hreinlega ekki upp.

Síðan er á hitt að líta, samráðið. Það er eitt af því sem forsvarsmenn orkufyrirtækjanna bentu á í hinum ágætu skrifum Fréttablaðsins í byrjun febrúar sl. Þar var bent á þá hættu sem stafaði af samráði á þessu sviði. Ég er með sænsk blöð frá því um miðjan febrúarmánuð sem segja frá hneykslismálum sem komið hafa upp í Svíþjóð þar sem orkufyrirtækin þar í landi höfðu víðtækt samráð sín í milli og héldu verðlaginu uppi. Nú eru áhöld um hvort þau þurfi að greiða orkukaupendum í Svíþjóð milljarða samkvæmt Dagens Nyheter, milljarða til baka í skaðabætur. Þetta er vegna samráðs.

Staðreyndin er sú að á þessum markaði, á evrópska raforkumarkaðnum, og ég er hræddur um að það muni gerast hér líka, er stöðugt að verða meiri og meiri samþjöppun. Þetta hefur svo sannarlega gerst í Svíþjóð og í Skandinavíu. Þar er framleiðendum að fækka. Ég er með tilvísan í frétt í sænska blaðinu Aftonbladet frá áramótum 2003/2004, undir árslok 2003, þar sem rakin er þróunin sem átt hefur sér stað í Svíþjóð. Þar kemur í ljós að raforkuframleiðendur þar í landi eru ekki lengur sænskir nema að litlum hluta. Þrír stórir framleiðendur séu í landinu, það er Vattenfall, sem er í sænskri eigu, það er Sydkraft í þýskri eigu og Fortune sem er í finnskri eigu. Síðan segir í úttekt blaðsins að þessi fyrirtæki hafi haft mikinn hagnað af starfsemi sinni. Öðru máli gegni hins vegar um sænska neytendur. Öðru máli gegnir líka um starfsmenn þeirra fyrirtækja. Ég benti á í umræðunni í gær að í Evrópusambandinu hefðu 300 þúsund starfsmenn í raforkugeiranum misst atvinnu sína frá því að raforkugeirinn var markaðsvæddur eða fyrstu skrefin stigin í þá átt.

Niðurstaða mín og okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er sú að hlutafélagavæðing og markaðsvæðing þessarar grunnþjónustu sé ekki heppileg, sé ekki samfélaginu til góða. Hvað er í vegi þess að við í okkar litla landi skipuleggjum þá grunnþjónustu sem við öll þurfum á að halda þannig að hún þjóni samfélaginu öllu vel? Hvað stendur í vegi fyrir því að við gerum það í samvinnu og með samrekstri í stað þess að búa til kerfi sem byggir á samkeppni, ég vil segja ímyndaðri samkeppni? Það verða að öllum líkindum eftir fáein ár ef þessi áform ná fram að ganga tveir raforkuframleiðendur á Íslandi. Halda menn virkilega að virk samkeppni muni verða þeirra í milli? Nei. Ég held að það verði samráð þeirra í milli á nákvæmlega sama hátt og gerst hefur í Evrópu og á nákvæmlega sama hátt og gerst hefur í heiminum öllum þegar um slíka grunnþjónustu er að ræða. Við þekkjum það hvernig það er með vatnið ef litið er til þess lands í Evrópu þar sem markaðsvæðing hefur frá gamalli tíð náð lengst fram að ganga, Frakklands. Þar er landinu öllu skipt upp á milli tveggja stórra fyrirtækja. Meira að segja sumum borgunum er skipt upp, Marseille austur og Marseille vestur, eitt fyrirtæki hér, annað fyrirtæki þar, svipað verð. Þar er engin samkeppni. Það er ekki um neina samkeppni að ræða. Í slíkum tilvikum þar sem notandinn er í rauninni nauðugur kaupandi, hann er inni í kerfinu, þá á hann að búa við opið félagslegt kerfi. Það er fráleitt að færa slíka starfsemi inn undir einhvern huliðshjúp, það er fráleitur hlutur. Þetta snýst nefnilega ekki bara um eignarhald. Þetta snýst ekki bara um að gefa loforð um að hlutabréfið verði alltaf í eign ríkis eða sveitarfélags. Það snýst að mínum dómi alls ekki um það eitt. Þetta snýst um hvort eigi að fara með þessa starfsemi inn í markaðsumhverfi. Ég tel að reynslan og staðreyndirnar sem við höfum fyrir okkur tali sínu máli.

Við þingmenn í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði tölum einum rómi í þessu máli. Við viljum samfélagslega rekna grunnþjónustu og við höfum vísað til margvíslegra gagna sem fram hafa komið því að mjög lífleg og mikil rannsóknastarfsemi hefur tengst þessum einkavædda geira, bæði raforkunni og vatninu. Svo hefur verið á undanförnum árum og ég vitnaði í gær til matsfyrirtækisins Fitch sem gerði samantekt á einkareknum raforkufyrirtækjum í Bandaríkjunum og fyrirtækjum í samfélagslegri eign. Þar kom í ljós að einkunnagjöf fyrir hin samfélagslegu reknu fyrirtæki, fyrirtæki sem eru í eign samfélagsins, var mun jákvæðari en hjá hinum fyrirtækjunum.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál í þessari umferð. Ég gerði allvel grein fyrir sjónarmiðum mínum við umræðuna í gær. En ég ætla að víkja að einu og það væri gaman að heyra sjónarmið dreifbýlisþingmannsins, formanns iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, varðandi yfirlýsingar og samþykktir sem eru að berast víðs vegar að úr dreifbýlinu þessa dagana. Ég vísa í tillögu sem fram kom í sveitarstjórn Skagafjarðar og var þar samþykkt. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkir að hafa forgöngu um að kanna leiðir til að tryggja aðgang að rafmagni á sem hagstæðustu verði til heimila og fyrirtækja í Skagafirði. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að óska eftir viðræðum við stjórnvöld um að kannaðir verði kostir þess að sveitarfélagið og Skagafjarðarveitur ehf. eignist þá starfsemi sem Rafveita Sauðárkróks áður gegndi og annan núverandi rekstur Rariks í héraðinu.“

Ég vona að hv. þm. Birkir Jón Jónsson sé að hlusta á þessa samþykkt úr Skagafirði um að Skagfirðingar geti fengið sinn hlut í Rarik við þær kerfisbreytingar sem nú eru fyrirhugaðar. En í greinargerð með þessari tillögu segir, með leyfi forseta:

„Miklar breytingar eru fram undan í raforkumálum landsmanna, hlutafélagsvæðing Rariks og sameining orkufyrirtækja um einstaka þætti á raforkumarkaðnum. Benda má á að sú eignamyndun sem orðið hefur hjá Rafmagnsveitum ríkisins er til komin vegna sölu á þjónustu til sveitarfélaganna og íbúa þeirra. Reynslan sýnir að þau sveitarfélög sem eiga veitur standa sterkar að vígi og geta beitt þeim til að efla þjónustu og atvinnuuppbyggingu í sínu héraði. Skiptir því miklu máli að þau séu í eigu og umsjá íbúanna á viðkomandi svæðum. Sem dæmi má nefna hve dýrmætt það er fyrir Skagfirðinga að eiga áfram Skagafjarðarveitur. Með því að Sveitarfélagið Skagafjörður og Skagafjarðarveitur ehf. fái umráð yfir þeirri starfsemi, sem Rafveita Sauðárkróks gegndi áður og öðrum rekstri Rariks í Skagafirði gætu skapast frekari sóknarfæri fyrir byggð og atvinnulíf í héraðinu.“

Þetta er greinargerð tillögu sem samþykkt var af sveitarstjórn Skagafjarðar. Síðan hafa fylgt þessu heilmikil skrif. Ég vísa t.d. í skrif Sigrúnar Öldu Sighvats sem segir m.a., það er á Skagafjarðarvefnum skagafjordur.is, en þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrir rúmu ári komu stjórnir Skagafjarðarveitna og Norðurorku hf. sameiginlega á framfæri áskorunum til ráðamanna um að það væri röng stefna stjórnvalda í rafveitumálum að ætla að sameina stóru raforkufyrirtækin. Slíkt þjóni alls ekki hagsmunum landsbyggðarinnar. Gefa ætti veitufyrirtækjum, sem eru á dreifiveitusvæðum Rariks, tækifæri til að yfirtaka þennan rekstur og efla og styrkja á þann hátt starf þeirra. “

Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru íhugulir, enda mun þar vera flokkssystir þeirra á ferðinni. Það eru nefnilega ýmis sjónarmið í málinu sem koma fram óháð þeim línum sem eru fyrir hendi á Alþingi á nákvæmlega sama hátt og Vinstri hreyfingin – grænt framboð talaði einn flokka í Kárahnjúkamálinu (Gripið fram í: Einn fyrir öllum.) og einn flokka gegn einkavæðingu Pósts og síma — einn flokka. Þá nutum við samhljóms í samfélaginu. Við vorum samstiga með meiri hluta Íslendinga. Ég hef trú á því að við séum það enn í þessu máli, óháð flokkslínum. Íslendingar eiga eftir að átta sig á því hvað þeir gera í kjörklefanum. (Gripið fram í: Akkúrat.) Þeir sem standa þessa vakt, sem meiri hluti þjóðarinnar vill að staðin verði, eiga eftir að fá að njóta þess þegar kemur til alþingiskosninga og þegar kemur til sveitarstjórnarkosninga. Það er hér á Alþingi og síðan í sveitarstjórnum sem ákvarðanir eru teknar. Ég vil taka það fram að í Skagafirði, þar sem þessi ályktun kom fram, á Vinstri hreyfingin – grænt framboð hlut að máli og aðild að sveitarstjórn.

Að lokum, hæstv. forseti, tel ég mikilvægt að fylgjast með því hvernig til tekst í samningum við starfsfólk Rariks hf. Ég fór mjög rækilega yfir það í umfjöllun minni í gær hve miklir vankantar eru á frumvarpinu hvað það efni snertir. Ég vék að biðlaunaréttindum, ég vék að ýmsum öðrum réttindum og ég staðnæmdist sérstaklega við lífeyrisréttindi. (PHB: Hvers virði eru þau?) Hvers virði eru þau? spyr hv. þm. Pétur H. Blöndal sem vildi við umræðuna í gær fá mig til að verðleggja hvers virði, með hans orðum, það er að búa við áminningarskyldu atvinnurekanda, hvers virði það væri fyrir launamanninn að búa við þann rétt að atvinnurekandinn þurfi að áminna hann í starfi áður en hann rekur hann. Ég segi: Til eru þau réttindi sem eru mikils virði áður en þau eru metin til kostnaðar í krónum og aurum. Þannig er það um margt í réttindakerfi launafólks sem er okkur mikils virði án þess að við getum verðlagt það á mælikvarða sem hv. þm. Pétri H. Blöndal er tamt að nota.

En varðandi lífeyrisréttindin, svo ég nefni þau sérstaklega, þá verða þau vissulega talin í krónum og aurum. Það er rétt. Þau eru mikils virði. Ég lít á lífeyrisréttindi sem einhver mikilvægustu réttindi sem launafólk býr yfirleitt við. Ég vil standa vörð um réttindi starfsmanna Rafmagnsveitna ríkisins. Ég hef bent á það við þessa umræðu og áður þegar ég hef staðið í hliðstæðum sporum, að ræða um opinbera starfsemi sem á að breyta í hlutafélög, að það er tæknilega hægt að heimila, ekki aðeins þeim sem nú eru í starfi heldur einnig nýráðnum, aðild að sömu lífeyrissjóðum og þeir eiga nú aðgang að. Þá er ég að horfa til lífeyrissjóða opinberra starfsmanna, ég er að horfa til LSR. Ný deild þess lífeyrissjóðs sem hefur verið við lýði frá 1. janúar 1997 getur tekið á móti nýráðnu fólki í hlutafélagi, ekkert síður en starfsmönnum opinberra stofnana.

Ég vil segja það að lokum, hæstv. forseti, að ég mun fyrir mitt leyti fylgjast grannt með því hvað gerist á komandi dögum í þessum efnum. Ég efast ekkert um að hagsmunasamtök starfsmanna munu leita eftir samningum við Rafmagnsveitur ríkisins og kanna hver hugur stjórnenda þeirra stofnana er. Munu þeir gera sitt til að greiða götu starfsmanna og reyna að standa vörð um þeirra réttindi eða munu þeir bregða fæti fyrir starfsmenn, eins og því miður gerðist þegar Póstur og sími var gerður að hlutafélagi? Því miður hefur slíkt allt of oft gerst þegar opinberum stofnunum hefur verið breytt í hlutafélög á liðnum árum.