132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Upplýsingaréttur um umhverfismál.

221. mál
[15:02]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Framsögumaður nefndarinnar, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, hefur gert ágætlega grein fyrir nefndarálitinu og störfum nefndarinnar, sem hafa gengið vel um þetta mál. Hún hefur verið samferða og ber að þakka það samstarf sem tekist hefur. Breytingartillögur eru þó fáeinar. Þar má kannski sérstaklega benda á breytingartillöguna um að haldið verði vernd yfir steindum, steingervingum og bergmyndunum sem sérstakar mega teljast, auk lífríkisins sem talað er um í frumvarpinu sjálfu. Þetta er að tillögu og ábendingu Náttúrufræðistofnunar og er að sínu leyti merkileg tillaga, sérstaklega af því að hún gengur gegn meginefni frumvarpsins sem er það að almenningur hafi sem gleggstar upplýsingar um alla hluti sem þetta mál varða, en hér erum við að vernda bæði sérkenni í lífríki og jarðfræðileg sérkenni eða jarðleg sérkenni á þann hátt að ekki sé sjálfsagt að hver sem er geti gengið að þeim náttúrufyrirbærum sem viðkvæmust eru í þessum efnum. Hér verður auðvitað að gæta hófs og stofnunum okkar á þessu sviði er falin mikil ábyrgð með því að veita þeim þetta hlutverk og þetta vald.

Í störfum nefndarinnar varð nokkur umræða um þagnarskylduákvæði þau sem undanþiggja stundum stjórnvöld frá því að sinna þeirri almennu skyldu að upplýsa almenning um umhverfismál. Í fylgiskjali eru talin upp dæmi um ýmis sérákvæði, mig minnir að þau hafi reyndar fundist fleiri í lögum en þar er nefnt. Eins og framsögumaður gerði grein fyrir telur nefndin tímabært að þessi þagnarskylduákvæði, sem eru af ýmsum aldri og með ýmsum hætti í margs konar lögum, verði innbyrðis samræmd og inntak þeirra skýrt, því að ekki er alltaf ljóst við hvað þagnarskyldan á í raun og veru, og þegar komnar eru sérstakar reglur um upplýsingar með upplýsingalögum og svo þessu frumvarpi sem er í tengslum við upplýsingalögin þá verður það að skýrast. Þetta er vinna sem þarf að fara í.

Nefndin varð ekki sammála um að leggja til breytingar á frumvarpinu í þessu sambandi en við sem það vildum sættum okkur við þetta orðalag og ætlum ekki að flytja breytingartillögur við frumvarpið, frekar en þær sem hér er getið og öll nefndin stendur að. Við treystum því auðvitað líka að sú úrskurðarnefnd um upplýsingamál eða upplýsingalög, sem einnig er hinn endanlegi dómari í málum sem hefjast með þessu frumvarpi, gæti meðalhófs og túlki þagnarskylduákvæðin, sem eru á víð og dreif, þannig að þau verði ekki notuð til þess að yfirvöld skjóti sér undan upplýsingagjöf, enda var ekkert þeirra í sínum sérlögum sett með það að markmiði að leyna ætti almenning upplýsingum um umhverfismál.

Forseti. Þetta er lítið frumvarp. Nefndarálitið er rúm blaðsíða og það eru aðallega nöfn sem teygja sig yfir á síðu 2, en það er samt merkilegt vegna þess að þetta er fyrsta frumvarpið sem lítur út fyrir að verða samþykkt á þinginu í framhaldi af Árósasamningnum sem gerður var árið 1998 og Íslendingar skrifuðu þá undir ásamt miklum meiri hluta Evrópuþjóða.

Saga Árósasamningsins er þess virði að hún sé örlítið reifuð hér, það sem að okkur snýr. Við gerðumst aðilar að honum 1998 og síðan líður og bíður en eftir fjögur ár flytur þáverandi utanríkisráðherra, hæstv. forsætisráðherra nú, Halldór Ásgrímsson, frumvarp til þess að fullgilda þennan samning. Það var á þinginu 2001–2002, 23. apríl, sem hann mælti fyrir þessu frumvarpi.

Þess má geta að hæstv. umhverfisráðherra sem þá var, og er nú heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Siv Friðleifsdóttir, hét staðfestingu á þessum samningi í samningi sínum við félagasamtök á umhverfissviði í mars 2002. Fyrir fjórum árum átti því að samþykkja Árósasamninginn eða staðfesta hann á þinginu. Málið sofnaði á því þingi og síðan hefur verið margspurt um Árósasamningana, hvað þeim líði og hvernig standi á því að utanríkisráðherra sem þá var og þeir tveir sem síðan hafa verið skuli ekki hafa leitað staðfestingar Alþingis á þessum samningi. Svör hafa ekki fengist nema þau að málið sé svo flókið og taki til svo margra lagabálka að þetta sé tæknilega ákaflega erfitt. Það hefur hins vegar ekki reynst svo í öðrum löndum sem oft búa við flóknari löggjöf en okkar. Ég hygg að nú hafi öll Evrópulönd staðfest þennan samning, ég man ekki hvort það eru sex eða sjö lönd sem ekki hafa gert það. Það erum við nú að gera í pörtum og það er ekki að eigin vilja, það er ekki af sérstökum áhuga ríkisstjórnarinnar — ég undanskil umhverfisráðherra vegna þess að hún hefur a.m.k. ekki neitað því að Árósasamningurinn sé merkilegt plagg — að þetta er flutt heldur vegna þess að Evrópusambandið rekur á eftir. Það er enn einu sinni að hið góða Evrópusamband, sem ég veit að allir í salnum bera hlýjar tilfinningar til, kemur til aðstoðar umhverfishagsmunum á Íslandi, sem og svo mörgum öðrum framförum, og okkur er gert, vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu, að samþykkja þennan þriðjung af Árósasamningnum. Þannig er sem sé um þetta, rétt almennings til upplýsinga.

Hinir tveir hlutarnir, sem ekki eru samþykkir enn, varða aðgengi almennings að dómskerfinu til að fá skorið úr málum sem snerta það þegar menn taka ákvarðanir um umhverfismál. Sá málarekstur sem staðið hefur á Íslandi að undanförnu — eitt málið er í gangi vegna Þjórsárvera og má sérstaklega minnast á það umfram önnur mál vegna þess að mér hefur a.m.k., og fleiri sem hafa haft áhuga á því, borist nú nýlega beiðni um fjárstuðning til að sá málarekstur geti haldið áfram vegna þess að ríkisstjórnin ákvað að þrengja gjafsóknarskilyrðin með þeim hætti að menn þurfa að reiða fram margar milljónir til að fá skorið úr rétti sínum um það — sýnir ljóslega að taka þarf til hendinni á þessu sviði. En ríkisstjórnin vill það ekki. Hún hefur ekki áhuga á því. Frumvarp um það mál hefur ekki komið fram. Spá mín er sú að það verði ekki gert fyrr en menn eru tilneyddir, ef þessi ríkisstjórn heldur áfram, að gera það vegna þess að Evrópusambandið kallar á að menn standi við sitt í þessu.

Þriðji parturinn fjallar svo um aðgengi almennings að ákvarðanatöku um umhverfismál og bak við þetta heldur loðna orðalag stendur það skipulag sem menn ætlast til í Evrópu að smíðað sé í kringum samskipti stjórnvalda og frjálsra félagasamtaka. Það hefur einmitt gengið heldur brösuglega á Íslandi þó ekki sé við umhverfisráðherra einan að sakast heldur miklu frekar þá kreddu, einkum Sjálfstæðisflokksins en nú upp á síðkastið einnig Framsóknarflokksins, sem þrengir lýðræðisskilning þessara flokka, sem því miður stjórna nú landinu, að því leyti að frjáls félagasamtök eigi ekkert hlutverk að hafa nema að vera til fræðslu og skemmtunar og hefur leitt til þess að þar sem þessir flokkar hafa náð að setja mark sitt á skipan mála er hlutverk frjálsra félagasamtaka, samtaka almennings, yfirleitt skorið niður við trog og það er þumbast á móti því að gefa frjálsum félagasamtökum eðlilegan rétt til í fyrsta lagi að fylgjast með og í öðru lagi að taka þátt í ákvörðunum sem þetta varða.

Þetta vil ég segja og sérstaklega vegna þess að hæstv. umhverfisráðherra gerir okkur þann greiða að vera í salnum sem ég þakka fyrir og er ekki endilegt og ekki sjálfsagt — og vil hvetja hana til að huga nú að því þvert gegn því sem ég hef hér sagt að afsanna mín orð með því að undirbúa frumvörp um hinar tvær stoðirnar í Árósasamningnum og er ég þá reiðubúinn til að éta ofan í mig alla þessa 11 mínútna ræðu í þessum stól.

Að lokum þetta. Ég ítreka þakkir til forustunnar í umhverfisnefnd og annarra hv. þingmanna þar fyrir samstöðu um þetta mál og vænti þess að þegar þjóðarsómi býður höfum við eina sál eins og Bretar forðum.