132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Upplýsingaréttur um umhverfismál.

221. mál
[15:13]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er komið til 2. umr. frumvarp til laga um upplýsingarétt um umhverfismál. Hv. framsögumaður umhverfisnefndar, Kristinn H. Gunnarsson, hefur farið ágætlega yfir tilurð og markmið frumvarpsins enda kemur það einnig fram í nefndarálitinu. Frumvarpið er afar vel unnið frá hendi umhverfisráðuneytisins enda var einn helsti sérfræðingur landsins á sviði stjórnsýslu og upplýsingaréttar, Páll Hreinsson, einn höfunda frumvarpsins. En frumvarpið tekur m.a. mið af ákvæðum upplýsingalaga. Ég tel að fullyrða megi að réttur almennings til upplýsinga um umhverfismál sé býsna vel tryggður með þessu frumvarpi.

Eins og fram kom í máli hv. þingmanns sem talaði á undan mér var almenn samstaða innan nefndarinnar um afgreiðslu málsins og efnislegar breytingartillögur ekki veigamiklar. Það má jafnframt taka fram að almennt voru umsagnaraðilar jákvæðir gagnvart frumvarpinu. Ástæða þess að ég kem hér upp er að mig langar að fjalla í nokkrum orðum um stöðu þeirra sem taka að sér verkefni fyrir opinbera aðila á sviði umhverfismála og hvernig frumvarpið snertir starfsemi þeirra, verði það að lögum. Frumvarpið tekur ekki aðeins til stofnana hins opinbera heldur einnig til fyrirtækja sem hafa tekið að sér verkefni á vegum stjórnvalda að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þannig setja lögin skyldur á aðra en opinbera aðila til að veita almenningi aðgang að upplýsingum er varða umhverfismál.

Það komu athugasemdir frá þessum aðilum, m.a. frá Samtökum iðnaðarins, Landsvirkjun og Samorku. Talið var að upp gætu komið aðstæður þar sem réttur þeirra til verndar starfsemi sinni væri ekki nægjanlegur samkvæmt frumvarpinu. Slík fyrirtæki eru í samkeppnisrekstri og í einhverjum tilvikum er aðeins hluti af starfsemi þeirra verkefni sem þeir hafa með höndum fyrir opinbera aðila. Þannig gætu þau þurft að veita upplýsingar til almennings sem varða framleiðsluþætti eða mál viðskiptalegs eðlis, sem gætu skaðað samkeppnisstöðu þeirra og aðra hagsmuni. Það er að mínu mati hlutverk þingsins að gæta þess að löggjöfin setji ekki á þau slíkar kvaðir og skilyrði að þau skaði hagsmuni þeirra né dragi úr vilja einkaaðila að taka að sér opinber verkefni, sem gæti verið til hagsbóta fyrir alla aðila.

Hérna er ég að vísa í 6. gr. frumvarpsins. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Áður en stjórnvald tekur ákvörðun um aðgang að upplýsingum um umhverfismál getur það skorað á þann sem upplýsingarnar varða að upplýsa hvort efni þeirra varði viðkvæma framleiðslu- eða viðskiptahagsmuni sem leyndar eiga að njóta lögum samkvæmt. Stjórnvald skal veita sjö daga frest til þess að svara erindinu.“

Mig langaði í þessu samhengi að vísa í umsögn Samtaka iðnaðarins um þetta efni en þar segja þeir m.a., með leyfi forseta:

„Um langa hríð hafa fyrirtæki látið umhverfisyfirvöldum í té allar upplýsingar um reksturinn sem óskað hefur verið eftir og jafnvel enn frekari í þeirri trú að milli viðkomandi yfirvalds og fyrirtækis gildi almennt trúnaðarsamband eins og kveðið hefur verið á um í lögum. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að það kerfi starfsleyfa sem byggt hefur verið upp hér á landi er mun víðtækara en í nálægum löndum. Umhverfisyfirvöld búa því almennt yfir mun ríkari upplýsingum um starfsemi fyrirtækja, framleiðslumál þeirra og ýmis viðskiptamál en í nálægum löndum. Samkvæmt frumvarpinu er þessu almenna trúnaðarsambandi rutt burtu án þess að tryggt sé að fyrirtækin hafi nokkuð um það að segja hvort tiltækar upplýsingar sem fyrirhugað er að gera opinberar varði framleiðslu- eða viðskiptaleynd. Þess vegna er mjög mikilvægt að stjórnvöldum verði gert að leita álits þess sem upplýsingarnar varða áður en upplýsingar eru veittar og orðalagi 2. málsgreinar 6. gr. verði breytt með þetta í huga og það verði skylda stjórnvalda að leita slíks samþykkis ef ástæða er til að ætla að upplýsingarnar geti varðað viðkvæmt framleiðslu- eða viðskiptaleyndarmál og fresturinn sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu verði lengri en 7 dagar. Það er óviðunandi að fyrirtæki verði að sæta því að samkeppnisaðilar geti átt aðgang að viðkvæmum framleiðslu- og viðskiptahagsmunum undir því yfirskini að um upplýsingar um umhverfismál sé að ræða.“

Ég tel það vera skilning nefndarmanna að hin almenna regla sé að stjórnvald leiti eftir sjónarmiðum viðkomandi fyrirtækja áður en upplýsingar eru veittar til almennings um starfsemi sem þau standa fyrir til að þau geti komið við andmælum ef svo ber undir. Hins vegar var nefndin ekki tilbúin til að ganga svo langt að breyta orðalagi í þá veru sem lagt er til, m.a. af Samtökum iðnaðarins. Kannski hefði átt að athuga það. Okkur fannst að við gætum komið til móts við það með ákveðnum hætti en eftir töluverða umræðu í nefndinni varð niðurstaða okkar sú að tímafrestur sem viðkomandi er gefinn til að gera athugasemdir til stjórnvalda vegna upplýsinga sem vörðuðu starfsemi þeirra yrði skilgreindur frekar og lengdur sem nemur því að frídagar yrðu ekki taldir með. Það sem vísað er í þarna, 7 daga og 15 daga, hefur hliðstæðu í upplýsingalögum. En þar sem þetta snýr sérstaklega að einkaaðilum fannst okkur ákveðin sanngirni í að líta svo á að þetta væru virkir dagar en frídagar ekki taldir með. Þá er ég að vísa í 7 daga frest í 6. gr. og 15 daga frest í 12. gr., að það séu virkir dagar og helgidagar ekki taldir með, eins og skilja mátti af frumvarpstextanum. Að mínu mati og annarra nefndarmanna þótti sjálfsagt að koma til móts við þessar athugasemdir hagsmunaaðila og styrkja stöðu þeirra til að koma á framfæri athugasemdum um að upplýsingar sem óskað er eftir geti með einhverjum hætti skaðað framleiðslu- eða viðskiptahagsmuni þeirra.

Ég endurtek að um málið varð samstaða innan umhverfisnefndar. Þær breytingartillögur sem hérna liggja fyrir voru í sjálfu sér ekki efnismiklar en skipta máli fyrir þá aðila sem um ræðir. Aðalatriðið er þó að traust ríki milli aðila og lagaákvæðið torveldi ekki samstarf ríkis og einkaaðila um framkvæmd verkefna um leið og gætt er að rétti almennings til að fá upplýsingar um umhverfismál.