132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Upplýsingaréttur um umhverfismál.

221. mál
[15:20]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um upplýsingarétt um umhverfismál. Við höfum, eins og komið hefur fram í ræðum þingmanna sem hér hafa talað á undan mér, tekið góða snerru á þessu máli í umhverfisnefndinni. En ég held að við höfum náð eins góðri lendingu og mögulegt var miðað við þær aðstæður sem uppi eru í þessu máli, sem eru ekki alveg ásættanlegar eins og hv. þm. Mörður Árnason gerði grein fyrir í ræðu sinni.

Það á sér áralanga sögu að koma á þessari fyrstu stoð Árósasamningsins. Við undirrituðum samninginn á sínum tíma í Árósum 23.–25. júní 1998. Þá var þessi samningur gerður. Þáverandi utanríkisráðherra Íslands undirritaði þennan samning og skuldbatt þjóðina þar með og löggjafarsamkunduna til að taka hann upp í íslensk lög. Hæstv. þáverandi utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson lagði fram á 126. löggjafarþingi þingsályktunartillögu um fullgildingu Árósasamningsins sem fjallar um aðgang að upplýsingum um þátttöku almennings í ákvarðatöku og um aðgang almennings að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.

Það er ansi hreint dapurleg lesning. Ég hef farið í gegnum svörin sem fyrrverandi. hæstv. utanríkisráðherra, núverandi forsætisráðherra, gaf við fyrirspurnum þegar hann var þráspurður út í þetta, um hvers vegna Árósasamningurinn hefði ekki verið innleiddur. Þær eru fremur veikburða, tilraunir hæstv. ráðherra er hann reynir að gera grein fyrir því á hvern hátt Árósasamningurinn komi til með að breyta réttarfarslöggjöfinni. Hæstv. ráðherra setti málið í starfshóp, reyndar fleiri en einn, suma formlega en aðra óformlega. En síðan árið 2000 hefur hvorki gengið né rekið fyrr en Evrópusambandið kemur til skjalanna og kveður upp sína raust, samþykkir tilskipun sem við samþykkjum á Evrópuvettvangi að taka þessa tilskipun upp í EES-samninginn. Það er auðvitað ekki alveg í lagi með þau stjórnvöld sem haga sér svona og bíða ævinlega eftir vendinum frá Evrópusambandinu áður en þau innleiða sjálfsagðar réttarbætur.

Saga þessa máls er þess eðlis að ég vil meina að í henni endurspeglist hinn eiginlegi vilji ríkisstjórnarinnar til að taka á í umhverfismálum. Viljinn hefur ekki verið meiri en svo að ekkert hefur verið gert. Út úr nefndum og starfshópum sem hafa átt að fjalla um málið hefur ekkert komið. Meira að segja þegar umhverfisráðherra undirritaði samstarfsyfirlýsingu við frjáls félagasamtök var þess sérstaklega getið að farið skyldi að Árósasamningnum í samvinnu stjórnvalda og frjálsu félagasamtakanna. Þessi samstarfsyfirlýsing er frá 20. mars 2001. Það er með ólíkindum að umhverfisráðherra, sem þá var Siv Friðleifsdóttir, skyldi geta undirritað samstarfsyfirlýsingu á grundvelli þessa samnings og ætlað sér að fara eftir þessum samningi þegar það hefur verið ljóst frá þeim degi og til þessa dags að aldrei stóð til að innleiða nema brot þessa samnings í íslenska löggjöf.

Það sem eftir er að innleiða, stoðirnar tvær sem út af standa þegar upplýsingastoðin er komin, varðar aðgengi almennings að ákvarðanatöku um umhverfismál. Þær varða aðgengi almennings að dómskerfinu og að almenningur eigi að hafa möguleika á að fara í mál vegna umhverfismála. Við höfum tekist á um það í þessum ræðustóli, ég og hæstv. dómsmálaráðherra, á hvern hátt hann hefur gengið fram fyrir skjöldu til þess að veikja aðgang almennings að dómskerfinu með því að fella úr gildi heimildir til almennings sem ekki eiga svokallaða lögvarða hagsmuni í málum er varða t.d. umhverfismál. Gjafsóknarákvæði 126. gr. laga um meðferð opinberra mála, held ég að það sé, gera ráð fyrir að fólk geti sótt um gjafsókn ef sýnt þykir að vegna fjárhagsástæðna hafi það ekki bolmagn til að greiða sjálft fyrir þá lögsókn. En ef einstaklingar telja sig gæta hagsmuna umhverfisins og þar af leiðandi verja almannahagsmuni með því að fara í mál út af órétti sem umhverfi eða náttúra eru beitt er ekki lengur, samkvæmt íslenskum lögum, heimilt að veita gjafsókn í íslenskum málum, ekki nema fólk eigi þessa lögvörðu beinu hagsmuni sem erfitt er við að eiga í umhverfismálum. Það hefur sýnt sig að íslensk stjórnvöld hafa ekki vilja til að innleiða þær sjálfsögðu réttarbætur sem Árósasamningurinn hefur í för með sér. Þetta er sýnu dapurlegra þegar skoðuð eru þau plögg sem þessi ríkisstjórn hefur þó gefið út og undirritað, t.d. áætlun um sjálfbæra þróun þar sem getur verið um hluti eins og aðgengi fólks að stjórnvöldum og upplýsingum í þessum efnum. Maður hefði talið að eitthvað væri á bak við þær yfirlýsingar sem ríkisstjórnin hefur gefið út um þau mál en því miður hafa efndirnar ekki verið nema í skötulíki.

Ég held að stjórnvöld verði að fara að átta sig á því að orðin sem standa í greinargerðinni með frumvarpinu, þ.e. fullyrðingar um að í alþjóðlegum umhverfisrétti hafi aukin áhersla verið lögð á það á seinustu árum að almenningur hljóti fræðslu um umhverfismál og hafi opinn aðgang að upplýsingum um umhverfismál, eru nokkuð sem þau þurfa að taka upp í sitt hegðunarmunstur. Það þarf að vera einhver meining á bak við orðin þannig að mikilvægi þessa réttar verði viðurkennt í stjórnsýslunni, viðurkennt hjá stjórnvöldum, en verði ekki bara innantóm orð á blaði sem lítið eða ekkert á að gera með.

Fyrrverandi umhverfisráðherra Guðmundur Bjarnason gaf út fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, þegar hann gegndi starfi umhverfisráðherra, fyrstu stefnumótunina um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi árið 1997. Það var framkvæmdaáætlun sem gilti til aldamóta. Þar fjallaði Guðmundur sérstaklega um upplýsingamiðlun og ábyrgð stjórnvalda í þeim efnum. Í þeim bæklingi, sem gefinn var út af umhverfisráðuneytinu í júlí 1997, segir, með leyfi forseta:

„Forsenda allra aðgerða eru góðar upplýsingar um ástand umhverfisins, þær hættur sem að því stafa og hvaða áhrif líklegt er að einstaka framkvæmdir munu hafa á umhverfið. Fræðsla til almennings og í skólakerfinu þarf að vera virk til þess að bæði lagasetning og hagræn stjórntæki nái markmiðum sínum.“

Fleiri orð hefur Guðmundur um upplýsingaréttinn og upplýsingamálin í þessu riti sem að mínu mati var ekki nægilega gætt að skiluðu sér inn í áframhaldandi útgáfu stefnumótunar ríkisstjórnarinnar. Nú finnst mér allt með öðrum brag og loðnara orðalagi. Það undirstrikar í mínum huga þann hátt stjórnvöld vilja hafa á hlutunum. Þau kinoka sér við að innleiða skyldur sínar, kvarta undan því að það sé lagalega flókið og tæknilega erfitt og breyti íslenskum rétti í grundvallaratriðum.

Ég fagna því, frú forseti, að þó skuli þetta mál komið svo langt máli að við skulum hafa á borðum okkar þetta frumvarp til laga sem leiðir í íslensk lög fyrstu stoð Árósasamningsins. Ég treysti því þó að ef ekki þessi stjórnvöld þá a.m.k. þau næstu, sem ég geri ráð fyrir að taki við eftir næstu kosningar og verði kannski meira vakandi í þessum málaflokki en þau sem hafa setið að völdum upp á síðkastið, reki af sér slyðruorðið og taki til við að innleiða í íslenskan rétt og íslensk lög þær tvær stoðir sem upp á vantar, þ.e. stoðina um aðgengi almennings að dómstólum og þátttöku almennings í ákvörðunum á sviði umhverfismála.