132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Upplýsingaréttur um umhverfismál.

221. mál
[15:34]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég sé ástæðu til að þakka hv. umhverfisnefnd fyrir þá vinnu sem hún hefur lagt í það frumvarp sem hér er til umræðu og mér finnst mjög ánægjulegt að þar hafi tekist jafngóð samvinna og raun ber vitni. Frumvarpið fjallar auðvitað um mjög mikilvæg mál, þ.e. upplýsingarétt um umhverfismál. Við ræddum þetta mál mjög grannt og nákvæmlega við 1. umr. og þá bar Árósasamninginn að sjálfsögðu oft á góma.

Við þá umræðu greindi ég frá því að á síðasta ári skipaði ég nefnd til að fara yfir efni samningsins og greina hvaða leyfisveitingar falla undir hann. Nefndin skal líka fara yfir hvaða breytingar þurfi að gera á lögum til að fella efni hans inn í íslenska löggjöf. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá utanríkisráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti og umhverfisráðuneyti. Það er ánægjulegt að geta greint frá því hér að þetta nefndarstarf hefur gengið með ágætum og ég á von á því að nefndinni takist að ljúka vinnu í sumar. Þegar niðurstöður liggja fyrir verður síðan hægt að taka ákvarðanir um framhaldið.

Ég vil lýsa því sérstaklega yfir að ég tel það einstaklega mikilvægan þátt í starfi umhverfisráðuneytisins og umhverfisráðherra hverju sinni að eiga náið samstarf við frjáls félagasamtök. Ég hef lagt mig fram um að styrkja það eftir bestu getu og ég tel reyndar líka að umhverfisþingið sé gríðarlega mikilvægur vettvangur í þessum efnum. Mér fannst einmitt mjög ánægjulegt að upplifa það á síðasta umhverfisþingi hversu mikill áhugi var fyrir þátttöku í því. Það er engin spurning í mínum huga að þar fer fram geysilega mikilvæg umræða sem skilar sér út í samfélagið.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég tel að hér hafi verið unnið afar faglega og vel og færi nefndinni þakkir fyrir það.