132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Upplýsingaréttur um umhverfismál.

221. mál
[15:37]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það ber að fagna þessum fréttum af starfi starfshópsins sem utanríkisráðherra sagði í nóvember árið 2003 að búið væri að ákveða að skipa en var þó ekki skipaður fyrr en í janúar 2005. Það leið sem sé rúmt ár og nú í mars 2006 var okkur sagt að starfshópurinn hafi verið að störfum og hann kunni að skila af sér í sumar. Það er gott að heyra og við hlökkum til að sjá niðurstöðu starfshópsins. Það er líka gott að heyra að hæstv. umhverfisráðherra virðist vera ánægð með það starf sem þarna fer fram því að í 1. umr. um þetta frumvarp spurði ég umhverfisráðherra hvort hún væri pólitískt sammála Árósasamningnum í heild sinni — ég var að leita skýringa á því hvernig á því stæði að þessi samningur væri ekki kominn fram. Þá treysti umhverfisráðherra sér ekki til að svara því játandi þannig að ég vil endurtaka spurningu mína hér. Hefur umhverfisráðherra, í ljósi þess starfs sem nú hefur farið fram í embættismannanefndinni í rúmt ár, komist að þeirri niðurstöðu að hún sé pólitískt sammála þeim samningi sem ritað var undir af Íslands hálfu vorið 1998?