132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Upplýsingaréttur um umhverfismál.

221. mál
[15:42]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað snertir dagskrá umhverfisþings þá er hún bundin af ákvæðum í lögum, bæði hvað skuli taka þar fyrir, þ.e. t.d. sjálfbæra þróun, og hverjir eigi þar seturétt. Það er því mjög vel séð fyrir því í ákvæðum náttúruverndarlaga hvernig staðið skuli að umhverfisþinginu.

Hvað Árósasamninginn snertir þá er það einu sinni þannig að íslensk stjórnvöld undirrituðu hann og í því felst að sjálfsögðu samþykki þó að samningurinn hafi ekki verið fullgiltur. Í þeirri vinnu sem fer fram núna er verið að greina efni samningsins og skoða hversu umfangsmiklar breytingar þyrfti að gera á íslenskum lögum til að unnt væri að fullgilda hann. Við verðum einfaldlega að bíða og sjá hver niðurstaðan verður af nefndarstarfinu til þess síðan að skoða framhaldið.