132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Almenn hegningarlög.

365. mál
[15:53]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið ræðum við hér um frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum sem lýtur að heimilisofbeldi. Þingmenn Samfylkingarinnar eru með fyrirvara á því nefndaráliti sem hér hefur verið kynnt, fyrst og fremst vegna þess að við teljum að ganga eigi lengra. Við höfum talið nauðsyn á að setja sérákvæði sem taki heildstætt á heimilisofbeldi. Við teljum að við náum ekki að vinna bug á þeim vanda, eingöngu með því að setja refsiþyngingarástæðu við heimilisofbeldi. Ég held að við þurfum að ganga lengra hvað það varðar og beita öllum tiltækum leiðum sem við, sem löggjafi, höfum.

Þingmenn Samfylkingarinnar hafa áður lagt fram þingmál sem laut að því að hér yrði sett sérákvæði um heimilisofbeldi. Það þingmál var lagt fram í fyrra og er ástæða til að rifja upp röksemdirnar sem lágu þar að baki og eins þeirri skoðun að þörf sé á sérákvæði um heimilisofbeldi. En eins og kom fram hjá hv. framsögumanni vildi meiri hlutinn að þessu sinni ekki setja sérákvæði um heimilisofbeldi heldur lét efni þessa frumvarps nægja, sem laut að því að setja inn refsiþyngingarástæðu sé ofbeldi beint gegn nákomnum.

Eins og áður hefur verið bent á er réttarstaðan hvað varðar heimilisofbeldi sérstök þar sem það er t.d. ekki nefnt í íslenskum hegningarlögum og hvergi skilgreint. Að mínu mati er heimilisofbeldi því týndur brotaflokkur í kerfinu. Núgildandi ákvæði almennra hegningarlaga eru ekki fullnægjandi að mínu mati að því er varðar heimilisofbeldi.

Ef við skoðum svar hæstv. dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi frá 2. nóvember í fyrra þá kom fram staðfesting ráðherra um að í íslenskri löggjöf væri ekki að finna ákvæði sem skilgreini heimilisofbeldi. Sömuleiðis var ekki að finna upplýsingar um hvernig bæri að flokka háttsemi með þeim hætti. Samkvæmt svari hæstv. ráðherra er hugtakið heimilisofbeldi því ekki notað í gögnum lögreglu, ákæruvalds eða dómstóla sem formleg skilgreining á broti.

Í svari hæstv. ráðherra kom einnig fram að þetta leiddi til þess að hvorki eru til fullnægjandi gögn um fjölda tilkynninga til lögreglu um heimilisofbeldi né upplýsingar um lyktir þeirra mála hjá hinu opinbera. En þetta svar rennir að mínu mati stoðum undir þá skoðun að viðurkenna verði heimilisofbeldi í lögum, m.a. til að unnt sé að átta sig á umfangi vandamálsins og hvernig málum lyktar hjá lögreglu, ríkissaksóknara fyrir dómstólum.

Sá sem verður fyrir heimilisofbeldi þarf oftast að þola ofbeldi af öllu tagi. Þá erum við að tala um andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi. Það markar að nokkru leyti sérstöðu þessara brota. Það er því þörf á lagaákvæði sem nær heildstætt yfir þessi brot þar sem núgildandi ákvæði ná ekki að öllu leyti yfir eðli, umfang og raunverulegar afleiðingar heimilisofbeldis. Ég mundi vilja að löggjafinn beitti sér fyrir því að sett yrði lagaákvæði sem tæki á heimilisofbeldi með heildstæðum og fullnægjandi hætti. Ég tel að með slíkum lagaákvæðum verði komið til móts við þá þekkingu sem nú liggur fyrir um heimilisofbeldi. Sömuleiðis væri með því komið til móts við athugasemdir frá 23. maí 2004 frá nefnd Sameinuðu þjóðanna, sem starfar samkvæmt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, þess efnis að Ísland ætti að taka upp löggjöf um heimilisofbeldi. Heimilisofbeldi er samkvæmt skilgreiningu Samtaka um kvennaathvarf þegar einn fjölskyldumeðlimur kúgar annan í skjóli friðhelgi heimilisins og í skjóli tilfinningalegrar, félagslegrar og fjárhagslegrar bindingar. Sá sem ofbeldinu beitir getur verið maki, fyrrverandi maki, foreldri, barn eða aðrir tengdir þolandanum fjölskylduböndum samkvæmt þessari skilgreiningu.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að heimilisofbeldi gegn maka er í eðli sínu kynbundið og þarf að liggja fyrir skilningur á því hvað heimilisofbeldi er til að unnt sé að taka á því með skilvirkum hætti. En þó er ljóst að heimilisofbeldi getur birst í mörgum myndum og gerendur geta verið ólíkir, jafnvel uppkomin börn aldraðra foreldra.

Í heimilisofbeldismálum sem koma fyrir dómstóla er einna helst dæmt eftir ákvæðum 217. og 218. gr. almennra hegningarlaga, þar sem mælt er fyrir um refsingar fyrir líkamsmeiðingar. Til heimilisofbeldis getur þó talist verknaður af ólíkum toga. Getur verið um að ræða hótanir, nauðung, frelsissvipting, einangrun, kúgun, líkamsmeiðingar, innbrot, ærumeiðingar, kynferðisbrot, nauðgun og fleira. Ólík ákvæði almennra hegningarlaga geta því tekið til þessara brota án þess að þau nái að öllu leyti yfir verknaðinn.

Eins og fyrr segir eru fyrst og fremst 217. gr. almennra hegningarlaga og 218. gr. sömu laga beitt í málum sem varða heimilisofbeldi. Áhöld eru hins vegar um það hvort þessi ákvæði ein og sér nægi til að taka á heimilisofbeldi. Þessar greinar virðast helst settar til að taka á ofbeldisbrotum karlmanna gagnvart öðrum körlum, sem á sér helst stað utan dyra milli tveggja ókunnra aðila. Þetta á síður við ofbeldi sem konur og börn verða fyrir en slíkt ofbeldi á sér stað innan veggja heimilisins. Það getur falist í langvarandi niðurlægingu og það jafnvel án sjáanlegra áverka. En í dómaframkvæmd hér á landi er refsing vegna brota á líkamsárásarákvæðunum 217. og 218. gr. miðuð við þá aðferð sem beitt er og áverka sem þolandinn hlýtur, t.d. beinbrot. Ákvæði 217. gr. sem lýtur að minni háttar líkamsmeiðingum og ákvæði 218. gr. sem lýtur að meiri háttar líkamsmeiðingu gera almenna kröfu um heilsutjón af valdbeitingunni.

Jónatan Þórmundsson, lagaprófessor og sérfræðingur í refsirétti, segir í bók sinni Afbrot og refsiábyrgð I frá 1999 að þrátt fyrir að 217. gr. almennra hegningarlaga sé á mörkunum að vera tjónsbrot — tjónsbrot er brot sem áskilur tilteknar afleiðingar fyrir refsinæminu — og samhverft brot en við samhverft brot er verknaður refsinæmur án tillits til afleiðinganna. Þrátt fyrir þetta ákvæði, sem iðulega er notað í heimilisofbeldi, sé á mörkum þess að vera tjónsbrot og samhverft brot eru líkamsmeiðingar samkvæmt 217. gr. hugsaðar sem tjónsbrot, þ.e. að tilteknar afleiðingar séu áskildar fyrir refsinæmið. Áherslan á beina og líkamlega áverka og aðferð við verknaðinn á hins vegar ekki eins vel við þegar kemur að heimilisofbeldi.

Refsing samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga annars vegar og samkvæmt 218. gr. hins vegar er líka mjög mismunandi. Samkvæmt 217. gr. getur fangelsisdómur verið allt að einu ári en samkvæmt 218. gr. getur dómur orðið allt að 16 ára fangelsi. Eftir því sem líkamlegar áverkar eru meiri eða aðferð hættulegri eru meiri líkur á að háttsemin eigi við 218. gr. almennra hegningarlaga. En hins vegar getur verið um að ræða mjög alvarlegt heimilisofbeldi án mikilla líkamlegra afleiðinga og án hættulegra aðferða og þá getur legið talsvert lægri refsing við slíku heimilisofbeldi samkvæmt núgildandi lagaákvæðum. En það er skemmst að minnast þess að flest heimilisofbeldismál lenda undir 217. gr. sem eru minni háttar líkamsmeiðingar þar sem áherslan, bæði í dómaframkvæmd og í lögunum, er á hinar líkamlegu afleiðingar.

Þegar dæmt er fyrir heimilisofbeldi á að mínu mati ekki að skipta öllu máli hvort þolandinn hlýtur marblett eða beinbrot. Líkamlegar áverkar þolenda eru því ekki endilega rétt mælistika á alvarleika þessara brota né heldur á aðferð gerandans við heimilisofbeldi að skipta höfuðmáli við mat á alvarleika brotsins. Líta má á heimilisofbeldi sem brot gegn friðhelgi þolandans. Þolandinn er ekki óhultur á eigin heimili og þarf að lifa í stöðugum ótta við að verða fyrir ofbeldi af hálfu maka eða foreldris. Þolandi býr þá í fjötrum ofbeldis og andlegrar kúgunar. Þá er vandamálið yfirleitt falið utanaðkomandi einstaklingum því gerandi og þolandi eru tengdir tilfinningaböndum og skömmin af athæfinu leiðir til þess að erfitt er að brjótast undan okinu.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að Svíar hafa tekið þessi mál mjög til skoðunar. Svíar hafa skilgreint kvinnofridskränkning, sem þýða mætti sem brot gegn friðhelgi kvenna. Í sænsku hegningarlögunum er að finna ákvæði um ofbeldi manns gagnvart maka eða öðrum nákomnum en þar er m.a. fjallað um brot gegn heilsu og lífi, brot gegn friðhelgi og kynferðisbrot en allt eru þetta brot sem þolendur heimilisofbeldis geta orðið fyrir. Sömuleiðis er litið til þess hvort verknaður sé liður í endurtekinni vanvirðingu á friðhelgi manneskjunnar og skaði alvarlega sjálfsmynd hennar.

Svíar hafa farið þá leið að nálgast heimilisofbeldi sem hluta af því vandamáli sem ofbeldi gegn konum almennt er og virðist sem yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna um ofbeldi gegn konum hafi verið höfð til hliðsjónar við þessa lagagerð. Leitast er við að vinna gegn og taka á líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi sem konur verða fyrir sakir kynferðis síns. Undirliggjandi forsenda þess að þetta varð hluti af sænsku hegningarlögunum er áhersla á alvarleika þeirra brota sem beinast gegn maka.

Eins og hér hefur komið fram eru ýmis rök fyrir því að setja einmitt sérákvæði um heimilisofbeldi en þó vil ég aftur taka fram að í sjálfu sér fagna ég því skrefi sem hér er stigið, þ.e. að það sé sett inn refsiþyngingarástæða, en að mínu mati er ekki nóg að gert. Þetta snýst ekki bara um refsiþyngingu heldur snýst þetta um hvort lagaákvæðið nái utan um heimilisofbeldi.

Það kom fram í meðförum málsins hjá allsherjarnefndinni mismunandi skilningur, ef svo mætti segja, frá formanni refsiréttarnefndar og síðan fulltrúa frá ríkissaksóknara hvað varðar áhersluna á hið andlega ofbeldi. Við höfum séð það að í gegnum tíðina hafa dómar ekki litið mjög grannt á hinn andlega skaða sem hlýst af ofbeldisbrotum. Þó má skynja örlitla breytingu í dómaframkvæmdinni en það þarf að leita að nánast óskyldu máli í greinargerð frumvarpsins til að benda á það að tjón af andlegu ofbeldi heyri undir líkamsmeiðingarákvæði almennra hegningarlaga en það er bent á dóm frá 5. júlí 2005 sem lýtur að skipun réttargæslumanns til handa brotaþola. Það væri miklu skynsamlegra ef löggjafinn mundi senda þau skilaboð hér og nú að heimilisofbeldi ætti að taka fastari tökum en nú er gert og m.a. yrði litið á hið andlega ofbeldi.

Við komumst ekki hjá því að dómstólar virðast hafa verið tregir til að líta á þann þátt en formaður refsiréttarnefndar benti á að ekki væri við dómstóla að sakast hvað það varðar heldur þyrfti frekar að beina sjónum að því hvernig ríkissaksóknari legði út frá sinni ákæru og verknaðarlýsingum í henni. Það kom fram að andlegu tjóni væri ekki nægilega vel lýst í ákærunni og fulltrúar ákæruvaldsins legðu nánast eingöngu áherslu á andlega ofbeldið í lok aðalmeðferðarinnar við refsiákvörðunina. En eins og fulltrúar refsiréttarnefndar bentu á þá eru dómstólar bundnir við verknaðarlýsingu ákæru. Fulltrúi frá ríkissaksóknaraembættinu sagði að verknaðarlýsing í ákærum væri yfirleitt bundin við líkamlegt ofbeldi en ekki andlegt ofbeldi en þó væri gagna um andlega ofbeldið aflað í rannsókninni þannig að hér virðist vera mismunandi skilningur á því hvernig við getum beint sjónum okkar enn frekar að hinu andlega tjóni sem verður í ofbeldismálum. Hvort sem það á heima undir verknaðarlýsingu ákæru eða ekki þá þurfa þessi mál að koma til frekari skoðunar.

Ég vil nota þetta tækifæri, ef þetta er raunin, til að hvetja fulltrúa ákæruvaldsins til að setja hið andlega tjón í meiri forgrunn ákærunnar þar sem dómstólar eru að sjálfsögðu bundnir verknaðarlýsingu sem þar kemur fram. En eins og ég segi höfum við sárafáa dóma um að andlega tjónið heyri undir 217. og 218. gr. og þó að það megi segja að það eigi heima þar þá hafa dómstólar einfaldlega ekki litið svo á í neinum mæli a.m.k.

Svíar hafa sérákvæði um heimilisofbeldi. Norðmenn hafa verið að skoða það. Við sjáum að fjölmargir hagsmunaaðilar, sem gáfu þessu frumvarpi umsögn sína, telja að hér sé þörf á sérákvæði um heimilisofbeldi. Má þar nefna Mannréttindaskrifstofu Íslands, Stígamót, Kvennaathvarfið, Alþýðusamband Íslands, Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræði við Háskóla Íslands, velferðarsvið Reykjavíkurborgar o.s.frv. Þetta eru aðilar sem telja þetta frumvarp ganga of skammt og að rök séu fyrir því að setja sérstakt ákvæði um heimilisofbeldi.

Mig langar að vitna aðeins í umsögn Stígamóta um þetta mál. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi um heimilisofbeldi er það rökstutt að ekki sé þörf á sérákvæði um heimilisofbeldi í ætt við sænska ákvæðið um gróft brot á kvenfrelsi. Þeim rökstuðningi eru Stígamót ósammála. Bent er á að refsingar skuli ekki miðast við kyn nema slíkt leiði af eðli málsins. Stígamót benda á að fá málefni eru tengdari kyni en ofbeldi karla gegn konum. Rök refsiréttarnefndar fyrir að fara ekki að dæmi Svía eru fjórþætt.

Í fyrsta lagi leggur refsiréttarnefnd áherslu á að það sé ekki verknaðurinn sem slíkur heldur tengslin sem geri brotin ámælisverðari en endranær. Það sé nándin og þar með trúnaðarbrotið sem sé grundvallarhugtaksatriði. Þessi rökstuðningur er í ósamræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Íslendingar hafa undirgengist þar sem við höfum skuldbundið okkur til þess að afnema sérstaklega mismunun gagnvart konum í öllum málum varðandi hjúskap og samskipti innan fjölskyldunnar.

Það sem gerir ofbeldi í parsamböndum einstakt og flókið er fleira en bara nánd einstaklinganna. Bara hugtakið heimilisofbeldi er villandi um það ofbeldi sem þrífst í skjóli friðhelgi heimilanna. Orðið gefur í skyn að um jafnan leik allra á heimilinu sé að ræða. Staðreyndin er sú að kyn ræður mestu og það eru fyrst og fremst karlar sem beita konur ofbeldi. Það ofbeldi gengur oftast út yfir börnin beint og óbeint eins og fram kemur í ársskýrslum Kvennaathvarfsins, en 10–18% kvenna sem leituðu þangað á síðustu þremur árum sögðu frá ofbeldi gagnvart börnum. Þó þetta sé óþægileg staðreynd hefur hún hlotið æ meiri viðurkenningu. Það er nauðsynlegt að ganga út frá henni til þess að lausnirnar verði viðeigandi. Auðvitað finnast dæmi um ofbeldi annarra en karla á heimilum landsins þó ekki sé um alvarleg samfélagsmein að ræða. Almenn lagagrein eins og refsiréttarnefnd hannaði mundi ná yfir slíkt ofbeldi.

Ofbeldi í parsamböndum er flókið atferlismunstur sem nær yfir tíma, en felst oftast ekki í einstökum ofbeldisbrotum. Í munstrinu fléttast saman á ólíka vegu, líkamlegt og andlegt ofbeldi, hótanir, kynferðisofbeldi, einangrun, niðurlæging, einhliða stjórnun og fleira. Það eru oft ekki einstök ofbeldisverk sem gera sambúðina óbærilega heldur samanlögð áhrif hótana, stjórnunar og ofbeldis sem ná yfir lengri tíma. Um 85% þeirra kvenna sem leituðu til Kvennaathvarfsins árið 2004 lýstu andlegu ofbeldi, en innan við 50% töluðu um líkamlegt ofbeldi. Um 35% lýstu ofsóknum, en það er þekkt að hættan á ofbeldi eykst um þriðjung kjósi konur að skilja við ofbeldismenn. Sambærilegar tölur frá Noregi sýna að 75% kvenna tala um andlegt ofbeldi og 60% líkamlegt ofbeldi auk þess sem 51% leitaðu hjálpar vegna hótana. Til þess að fanga þetta atferlismunstur á heildstæðan hátt þarf að koma til sérstök lagagrein.

Í öðru lagi vísa semjendur frumvarpsins í réttarframkvæmd og rannsóknarathafnir lögreglu því til stuðnings að ekki þurfi að koma til sérákvæði. Þeir benda á hæstaréttardóm til þess að rökstyðja að hægt sé að fá réttargæslumann þegar um er að ræða ofbeldi í parsambandi. Á móti skal bent á að í einungis litlum hluta umræddra brota er kært til lögreglu og því þarf í rökstuðningi að líta víðar en til þeirra brota sem eru kærð. Það ofbeldi sem Kvennaathvarfið og Stígamót fást við kemur lítið við sögu í opinberum tölum. Aðeins um 12% kvenna úr Kvennaathvarfinu kærðu ofbeldið í fyrra og 6,2% kærðu ofbeldið frá Stígamótum. Þetta er umhugsunaratriði. Það er vel hugsanlegt að skýrari lagaákvæði mundu ýta undir að fleiri konur leituðu réttar síns vegna ofbeldis í parsamböndum.

Í þriðja og fjórða lagi benda semjendur frumvarpsins á sönnunarvandann sem skapast við sérrefsiákvæði um ofbeldi karla gegn konum í parsamböndum og það mat sem fara þarf fram. Sönnunarvandinn er vissulega mikill og ekki verður komist hjá mati hvernig sem lögin eru orðuð. Þetta má þó ekki verða til þess að látið verði hjá líða að bregðast við ofbeldi í parsamböndum. Flestar birtingarmyndir kynbundins ofbeldis eru eins og ofbeldi í parsamböndum þess eðlis að erfitt er að sanna þær. Má nefna sifjaspell og nauðganir. Við höfum þrátt fyrir það skýr lagaákvæði um að refsivert sé að nauðga börnum og fullorðnum.

Stígamót líta á það sem hlutverk sitt að mæla aðeins með bestu lagalegu lausnum og því er lagt til að Íslendingar fari að dæmi Svía sem hafa sett framsæknustu lög á sviði ofbeldis. Mælt er með að sett verði lög um gróft brot á kvenfrelsi.“

Þetta kemur fram í umsögn Stígamóta. Eins er vilji á því að hér verði sett sérákvæði um heimilisofbeldi, það verði ekki látið nægja sem þetta frumvarp mælist til að við gerum.

Það má einnig vitna í umsögn Alþýðusambands Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

„Það æskilega við að skilgreina heimilisofbeldi sem sjálfstætt og sérstakt brot felst m.a. í að skilgreina ofbeldi sem unnið er innan þeirrar friðhelgi af einstaklingi sem þar dvelst sem sérstaklega alvarlegt, ekki einungis vegna tengsla brotamanns og brotaþola heldur einnig vegna vettvangs brotsins. Þá er m.a. haft í huga að ofbeldi framið á þeim vettvangi getur haft djúpstæð og alvarleg áhrif á fleiri en hinn beina brotaþola. Þau sjónarmið styðja örlítið aðra nálgun en fyrirliggjandi frumvarp gerir ráð fyrir.“

Síðan segir Mannréttindaskrifstofa Íslands, með leyfi forseta:

„Mannréttindaskrifstofan harmar að kynjasjónarhorn hafi ekki verið lagt til grundvallar við samningu frumvarpsins. Með því er litið fram hjá grundvallarforsendu brotsins. Skrifstofan telur nauðsynlegt vegna eðlis heimilisofbeldis að setja sérstakt ákvæði í almenn hegningalög sem tekur á kynbundnu ofbeldi karla gegn konum. Mannréttindaskrifstofan hvetur stjórnvöld til að fara að dæmi Svía sem annars vegar hafa lögfest sérstakt ákvæði um gróf kvenfrelsisbrot og hins vegar ákvæði sem tekur til grófra frelsisbrota gegn börnum eða öðrum nákomnum. Ákvæðið um kvenfrelsisbrot tekur til grófra brota gegn kvenfrelsi sem framin eru endurtekið af körlum gegn konum sem þeir eiga í nánu sambandi við. Ákvæðið hefur það í för með sér að fremji maður ákveðinn refsiverðan verknað (svo sem líkamsárás, ólögmætar hótanir eða þvinganir, kynferðislegt ofbeldi eða misnotkun) gegn konu sem hann er eða hefur verið giftur eða búið með, með þeim afleiðingum að sjálfsmynd konunnar skaddast alvarlega, geta dómstólar dæmt hann fyrir gróft kvenfrelsisbrot auk refsingar fyrir hvert einstakt brot, svo sem líkamsárás. Löggjöfin veitir þannig dómstólum svigrúm til að taka mið af aðstöðu fórnarlamba kynbundins ofbeldis og þyngja refsingu ofbeldismannsins með tilliti til alvarleika brotanna og hversu oft þau áttu sér stað. Sérstakt ákvæði um kvenfrelsisbrot beinir sjónum að ofbeldi karla gegn konum og hefur ákveðin réttarpólitísk áhrif. Þau boð eru send út í íslenskt samfélag að kynbundið ofbeldi sé ekki liðið; boð eru send til þeirra sem njóta verndar ákvæðisins um að heimilisofbeldi sé glæpur auk þess sem von er til að ákvæðið hafi fyrirbyggjandi áhrif.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram sú skoðun að orðalag sérrefsiákvæðis um heimilisofbeldi fengi vart staðist kröfur íslensks réttar um skýrleika refsiheimilda samkvæmt 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar. Mannréttindaskrifstofan telur slíkt sérrefsiákvæði í anda sænsku laganna fyllilega geta uppfyllt ákvæði 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrár. Í almennum hegningarlögum er að finna fjölda matskenndra ákvæða sem dómstólar í tímans rás hafa mótað nánar. Hér eins og við lagasetningu almennt þarf vitaskuld að vanda til verks og gæta þess að hafa ákvæðin sem skýrust.

Þá telur skrifstofan mögulegan sönnunarvanda ekki viðhlítandi rök gegn sérstöku refsiákvæði í anda þess sænska. Það gildir um mörg brot sem framin eru í skjóli friðhelgi einkalífs að sönnunin getur verið vandasöm. Slíkt á t.d. við um kynferðisbrot gegn börnum. Það hefur þó ekki leitt til þess að sérákvæði um kynferðisofbeldi gegn börnum hafi verið felld niður, þvert á móti. Eðlilegra væri að bregðast við sönnunarvandanum með því að þróa rannsóknaraðferðir og afla frekari upplýsinga um eðli brotanna.“

Frú forseti. Eins og komið hefur fram eru fjölmargir aðilar sem telja sérákvæði um heimilisofbeldi nauðsynlegt. Sumir umsagnaraðilar bentu jafnvel á að þessi málaflokkur þyrfti heildarendurskoðunar við. Það benti Jafnréttisstofa m.a. á. Það má alveg taka undir það. Við þurfum að skoða ýmislegt á þessu sviði og eins og mjög margir fagaðilar benda á er refsiþyngingin ein og sér ekki aðalmálið heldur liggur vandinn í því hversu fáir kæra. Eins og hér hefur komið fram kærir aðeins lítill hluti þeirra sem leita til Kvennaathvarfsins og enn minni hluti þeirra sem leita til Stígamóta. Það er eitthvað að kerfinu og við eigum að reyna að lækka þá þröskulda sem kerfið virðist augljóslega hafa og reyna að gera það þannig að fólk sjái það sem raunhæfan möguleika að kæra og fara með þessi mál alla leið til dómstólanna.

Það er auðvitað ýmislegt sem mætti minnast á á þessu málasviði sem mætti taka til skoðunar. Hér hefur verið bent á að það sé nauðsynlegt að taka upp hina svokölluðu austurrísku leið. Það hefur hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir ítrekað lagt til að verði gert. Ég get tekið undir að það sé skynsamleg leið en austurríska leiðin lýtur að því að fjarlægja ofbeldismann af heimilinu en eins og nú er þurfa iðulega þolendur ofbeldisins að yfirgefa sitt eigið heimili. Þessi leið hefur gefið góða raun í Austurríki og ég held að þetta sé nánast komið á öllum Norðurlöndunum, a.m.k. í Svíþjóð og Noregi. Þetta er leið sem við eigum að skoða og er bara lógísk ef við hugsum um það. Að sjálfsögðu eiga þolendur heimilisofbeldis ekki að þurfa að yfirgefa heimili sitt, að sjálfsögðu á gerandinn að gera það. Og það er rétt að það komi fram að samkvæmt þessari austurrísku leið má gerandinn ekki koma heim innan tiltekins tíma þrátt fyrir að þolendurnir vilji leyfa honum að koma heim.

Við höfum einnig rætt að það þurfi að skoða reglur um nálgunarbann. Lögfræðingar hafa bent á að það mætti bæta með ýmsum leiðum. Við höfum talað fyrir því, sum okkar, að það þurfi sérmóttöku fyrir þolendur heimilisofbeldis. Við þurfum að efla meðferðarúrræði fyrir gerendur í heimilisofbeldismálum. Það er átak sem var í gangi fyrir nokkrum árum og ég held jafnvel að þetta átak sé byrjað aftur. Því ber sérstaklega að fagna að við ráðumst að rót vandans og bjóðum upp á meðferðarúrræði fyrir þá einstaklinga sem beita nákomna ofbeldi.

Við þurfum sömuleiðis að fjölga opinberum ákærum í þessum málaflokki. Það er fróðlegt að skoða umsögn frá lögmönnum og starfsmönnum neyðarmóttöku vegna nauðgana á Landspítalanum, en lögmennirnir benda á að við eigum að setja skýrara ákvæði í lög um meðferð opinberra mála um tilnefningu réttargæslumanna við rannsókn lögreglu á heimilisofbeldismálum.

Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Við leggjum því til að sama regla gildi um tilnefningu og síðar skipun réttargæslumanna í heimilisofbeldismálum og að þolendum heimilisofbeldis sé undantekningarlaust tilnefndur og síðar skipaður réttargæslumaður.“

Jafnframt stendur síðar í þessari umsögn að það sé brýnt að börn hafi stöðu brotaþola og öðlist sjálfstæðan rétt til tilnefningar og síðar skipunar réttargæslumanns einkum þegar um er að ræða börn sem hafa misst foreldra vegna ofbeldisverka sem tengjast heimilisofbeldi.

Aftur segir hér, með leyfi forseta:

„Þá teljum við í ljósi reynslu okkar að nánari reglur þurfi að setja vegna nálgunarbanns. Í fyrsta lagi verði brotaþola eða réttargæslumanni veitt heimild til að koma að kröfu um nálgunarbann og fylgja henni eftir fyrir dómstólum. Í öðru lagi verði að tryggja að nálgunarbanni verði framfylgt eftir atvikum með brottvísun geranda af heimili og heimsóknarbanni (austurríska aðferðin) ef um ítrekuð brot er að ræða.“

Síðan segja lögmennirnir á neyðarmóttökunni að í þeim tilfellum sem rannsókn opinberra mála sé hætt eða mál felld niður verði brotaþola veitt aðstoð, eftir atvikum með gjafsókn, til að fylgja eftir slíkum málum fyrir dómstólum til heimtu miska- eða skaðabóta. Að lokum er bent á að í verklagsreglum lögreglu þurfi að skilgreina betur og tilnefna aðila hjá ákæruvaldinu eða lögreglu, sem hefði það hlutverk að annast um samskipti við vitni, boða þau til að bera vitni og til að upplýsa þau um hvað felist í að bera vitni í refsimálum.

Það er ýmislegt sem hægt er að gera á þessu málasviði. Kvennaathvarfið leggur fram langan lista sem við þyrftum að skoða. Þær leggja til að stofnuð verði neyðarmóttaka fyrir fórnarlömb kynbundins ofbeldis, kynningarátak verði fyrir fagstéttir og almenning, vinnureglur verði settar fyrir fagfólk, skráning tilvika verði stöðluð í heilbrigðiskerfinu og hjá lögreglu og fræðsla verði fyrir allt starfsfólk dómstóla, saksóknara og löggæslu um kynbundið ofbeldi.

Þá er komið að heildarendurskoðun löggjafar. Kvennaathvarfið mælist til að kynferðisbrot fyrnist ekki, ábyrgð á vændi verði hjá kaupendum og milligöngumönnum, ofbeldismál sæti opinberri ákæru í ríkari mæli, kynferðislegt sjálfsforræði verði tryggt með lögum, brot gegn friðhelgi kvenna verði refsivert, nálgunarbann verði styrkt og konur geti sjálfar farið fram á það, austurríska leiðin verði lögbundin og réttargæsla verði sjálfsögð ef konur hafa verið beittar ofbeldi af hendi nákominna.

Síðan eru talin upp ýmis önnur atriði, svo sem að lög gegn klámi verði virt, að aðgerðaáætlun verði gerð á sveitarstjórnarstigi og hjá opinberum stofnunum, að fórnarlömbum kynbundins ofbeldis verði veittur fjárhagslegur stuðningur, að unnið verði gegn mansali og fórnarlömbum mansals veittur stuðningur, að markvisst verði unnið að fjölgun kvenna í starfsstéttum sem vinna að meðferð ofbeldismála og að rannsóknir verði unnar á þessu sviði til að afla þekkingar.

Í umsögninni stendur, með leyfi forseta:

„Auk þess má bæta við að með fækkun lögregluumdæma“ — sem við erum einmitt að skoða þessa dagana í allsherjarnefnd — „gefst kostur á að skipa sérfræðing í hverju lögregluumdæmi fyrir sig sem kallaður er til þegar kynbundið ofbeldi er annars vegar.“

Eins og þingheimur heyrir er ýmislegt sem við getum gert betur. Við eigum að einhenda okkur í það því að sjálfsögðu ætti það að vera forgangsmál okkar allra að ná tökum á kynferðislegu ofbeldi.

Mig langar að lokum að vitna aðeins í umsögn UNIFEM. Þar er sagt, með leyfi forseta:

„Samráð við fagaðila er forsenda þess að löggjöf endurspegli og bregðist við raunveruleikanum. Þetta á ekki síst við þegar fjallað er um jafnmargþættan og vandmeðfarinn málaflokk sem heimilisofbeldi er. Slíkt samráð hefur verið viðhaft við gerð slíkra laga í nágrannalöndum okkar á undanförnum árum og er framkvæmdin í Svíþjóð einna markverðust.

Landsnefnd UNIFEM á Íslandi þykir því hryggilegt að sjá að ekkert sambærilegt samráð liggur að baki frumvarpinu sem nú er til umsagnar. Í stað þess að byggja á upplýsingum frá Kvennaathvarfinu, Stígamótum, neyðarmóttöku Landspítala – háskólasjúkrahúss og öðrum aðilum sem starfa með þolendum heimilisofbeldis styðst gerð frumvarpsins nær eingöngu við upplýsingar um dómaframkvæmd í málaflokknum hér. Rík ástæða er til að setja spurningarmerki við slíkt vinnulag þegar meginvandi málaflokksins hefur verið hversu erfitt er að sækja málin og að fá mál hafa endað fyrir dómstólum. Er það ekki eitt af markmiðum frumvarpsins að bregðast við þeim vanda?

UNIFEM á Íslandi er þeirrar skoðunar að takmarkanir frumvarpsins séu alvarlegar og hvetur eindregið til að meiri vinna sé lögð í frumvarpið og undirbúning þess. Landsnefndin ítrekar að kynblind löggjöf um heimilisofbeldi geti ekki verið fullnægjandi löggjöf og mælir eindregið með því að farin verði sama leið og í Svíþjóð. Í því felst að löggjöf um heimilisofbeldi innihaldi bæði almennt ákvæði um ofbeldi af hálfu nákomins geranda, líkt og gert er í frumvarpinu, og einnig annað sértækara ákvæði um ofbeldisbrot karls gegn konu sem hann er nákominn eða það sem Svíar kalla kvenfrelsisbrot.

Landsnefnd UNIFEM á Íslandi fær ekki séð að slíkt ákvæði gangi gegn 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar en telur þvert á móti að ákvæðið yrði til þess að bæta réttarstöðu kvenna í málaflokki þar sem mjög hefur verið hallað á hlut þeirra.“

Að lokum vil ég minna á að hegningarlögin eru að meginuppistöðu frá 1940, frá þeim tíma er engar konur voru á þingi og ekki verður fram hjá því horft að mörg ákvæði þeirra bera einkenni þess. Því tel ég nauðsynlegt að endurskoða ákveðna kafla hegningarlaga með það að markmiði að lögin nái betur yfir brot sem konur og börn verða aðallega fyrir.

Mig langar að rifja upp nokkrar sláandi tölur sem koma fram í umsögnum. Til neyðarmóttöku á Landspítala vegna nauðgunar leituðu 119 einstaklingar árið 2004. Það er þriðja hvern dag ef svo mætti segja. Þriðja hvern dag leitar kona til neyðarmóttöku vegna nauðgunar. Þetta er afskaplega há tala og ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því hversu algengt þetta er. Síðan er auðvitað sá fjöldi sem leitar sér ekki aðstoðar. Það er mjög erfitt að gera sér grein fyrir því hversu stór sá hópur er. En sem sagt, 119 einstaklingar leituðu til neyðarmóttöku vegna nauðgunar árið 2004. 140 konur komu vegna ofbeldis og hugsanlegs heimilisofbeldis á slysa- og bráðadeild Landspítalans. Til Stígamóta leituðu á þessu ári tæplega 500 einstaklingar en Stígamót eru ráðgjafar- og upplýsingamiðstöð fyrir konur og börn sem beitt hafa verið kynferðislegu ofbeldi. Það er enginn smávægilegur fjöldi sem leitar sér þar aðstoðar. Það kemur fram að af þessum hópi eru 250 að leita sér aðstoðar í fyrsta skipti. Helmingurinn er því að leita sér aðstoðar í annað skipti að minnsta kosti. Frá stofnun Stígamóta árið 1989 til ársloka 2004 hafa 3.804 einstaklingar leitað þar aðstoðar. Síðan kemur fram að í Kvennaathvarfið komu á síðasta ári 92 konur og 74 börn til dvalar. Alls voru komur kvenna í athvarfið, þ.e. viðtöl og dvalir, 557 á árinu og hafa aldrei verið fleiri frá upphafi. Frá stofnun Kvennaathvarfsins árið 1982 eru skráðar rúmlega 7 þúsund komur að börnum ótöldum. Þess má geta að í könnun, sem var gerð 1997, kom fram að aðeins 14% kvenna sem beittar höfðu verið ofbeldi leituðu til Kvennaathvarfsins. Það er því ljóst að ofangreindar tölur gefa ekki raunsæja mynd af tíðni og útbreiðslu ofbeldis í þjóðfélaginu þar sem erfitt er að meta þann fjölda sem aldrei leitar sér aðstoðar. En þetta eru sláandi tölur þegar 120 einstaklingar leita til neyðarmóttöku vegna nauðgunar á ári, 140 konur vegna ofbeldis, hugsanlega heimilisofbeldis, og 500 einstaklingar leita til Stígamóta.

Frú forseti. Það er alveg ljóst að heimilisofbeldi má ekki líðast í skjóli friðhelgi heimilis eða einkalífs og er því mikilvægt að lögreglan átti sig á því. Löggjafinn þarf að nota öll möguleg úrræði til að ná utan um þessi brot. Hann þarf sömuleiðis að fylgjast með þeirri stórauknu þekkingu sem nú liggur fyrir á þeim raunveruleika sem þolendur heimilisofbeldis búa við. Ekki fyrir alls löngu, eða árið 1991, leit rannsóknarlögregla ríkisins svo á að vandamál samfara heimilisofbeldi væru ekki refsiréttarlegs eðlis heldur öllu fremur félagslegs eðlis. Hugtök eins og stormasöm sambúð heyrast líka enn þegar átt er við heimilisofbeldi, samanber nýlegan dóm Héraðsdóm Reykjaness, nr. S 923/2004. Enn vottar fyrir afar forneskjulegum viðhorfum hjá dómstólum landsins þegar þolandi heimilisofbeldis er jafnvel sagður eiga sök á ofbeldinu sjálfur.

Það er því afar brýnt að skoða vandlega með hvaða hætti unnt er að skilgreina þetta brot þannig að lögregla, dómstólar og fagaðilar geti með ákveðnum hætti tekið á heimilisofbeldi. Það skiptir miklu máli, ég legg áherslu á það, að skilgreining þessara brota sé með nákvæmum og skýrum hætti enda er skýrleiki refsiheimilda forsenda þess að þeim verði beitt.

Ég er sannfærður um að við getum komið okkur saman um eitthvert orðalag sem tekur á þessum verknaði og við þurfum ekki að efast um að það standist stjórnarskrá. Öðrum þjóðum hefur tekist að setja sérákvæði um heimilisofeldi. Af hverju ætti okkur Íslendingum ekki að takast það líka? Ég held að með þeim hætti mundum við ná einna best utan um heimilisofbeldi og þannig taka á gríðarlega miklum vanda sem við öll hér inni viljum bregðast við með einhverjum hætti.