132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Almenn hegningarlög.

365. mál
[16:36]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar tekist er á við það viðfangsefni sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson leggur áherslu á, þ.e. að sett verði sérákvæði um heimilisofbeldi inn í hegningarlögin, veldur það vanda að heimilisofbeldi er mismunandi. Það felst í mismunandi þáttum, það felst í mismunandi brotum. Eins og við höfum rakið getur það falist í kynferðislegu ofbeldi, það getur falist í líkamsmeiðingum, það getur falist í hótunum og kúgunum af ýmsu tagi og svo má lengi telja. Þess vegna er, hygg ég, harla erfitt eða ógerlegt að skrifa inn í hegningarlögin ákvæði sem felur í sér verknaðarlýsingu í þessu sambandi. Verknaðarlýsingin varðandi einstök brot er hins vegar fyrir hendi og ég tel að núgildandi löggjöf sé að því leyti fullnægjandi að hún lýsir þeim brotum sem geta verið hluti af heimilisofbeldi. Ég held því að við þurfum ekki sérákvæði af þessu tagi heldur það ákvæði sem við leggjum til í þessu frumvarpi þar sem undirstrikað er að brot sem eru framin, hvort sem um er að ræða kynferðisbrot, ofbeldisbrot, hótanir eða annað, séu litin sérstaklega alvarlegum augum og geti varðað þyngri refsingu ef um náin tengsl geranda og brotaþola er að ræða eins og er í þessu tilviki.

Ég sé ekki að með góðu móti sé hægt að setja inn í lögin ákvæði af því tagi sem hv. þingmaður talar um. Það er niðurstaða refsiréttarnefndar, sem lagði grunninn að þessu frumvarpi og tók þessi atriði til rækilegrar skoðunar, að ekki sé hægt að setja slíkt ákvæði, almennt heimilisofbeldisákvæði, inn í hegningarlögin vegna kröfunnar um skýrleika refsiheimilda.