132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Almenn hegningarlög.

365. mál
[16:40]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum um heimilisofbeldi. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hefur farið afar vel yfir málið en ég ætla samt að reyna að bæta um betur þó ég reyni að forðast að endurtaka mikið af því sem þegar hefur komið fram.

Það er auðvitað athyglisvert að hér er eingöngu verið að leggja til að lögfest verði refsiþyngingarástæða þegar náin tengsl geranda og brotaþola þykja hafa aukið á grófleika verknaðar. Það má segja að ákvæðið sé í sjálfu sér almenns eðlis, það er ekki kynbundið og eingöngu, sem er aðalatriðið í málinu, er fjallað um refsiþyngingarástæðuna.

Ég hefði haldið að taka þyrfti betur á málum en gert er, fara víðar yfir sviðið og gera róttækari breytingar á lagasetningu okkar en hér er lagt til. Um þetta fjallaði ég í ræðu minni við 1. umr. þessa máls og mun í nokkrum orðum rifja þá umræðu upp. Ég hef oftar en einu sinni flutt á þinginu mál sem nú liggur fyrir í allsherjarnefnd. Þar er ég t.d. að fjalla um austurrísku aðferðina, leið þar sem farið er í saumana á hinu kynbundna ofbeldi sem heimilisofbeldi er. Óskað er eftir heildstæðri nálgun þar sem markmiðið er að koma í veg fyrir eða draga úr ofbeldinu, ekki einungis með því að þyngja þá refsingu sem liggur við kynferðisofbeldi eða ofbeldi á heimilum heldur einnig með því að reyna að finna önnur úrræði sem geta mögulega dregið úr því að ofbeldinu sé beitt.

Austurríska leiðin gengur út á það að lögregla fái sjálfstæða heimild í sínar hendur til að fjarlægja ofbeldismann af heimili í stað þess, eins og nú er, að þeir fjölskyldumeðlimir, sem oftast eru konan og börnin, sem verða fyrir ofbeldinu séu fjarlægðir af heimilinu og verði þar með flóttamenn í eigin landi. Mér finnst skipta mestu máli að löggjafinn viðurkenni að fórnarlömbin eigi rétt og hafi ekki brotið af sér heldur ofbeldismaðurinn. Austurríska ríkisstjórnin gekk fram fyrir skjöldu og leiddi í lög á sínum tíma þetta úrræði sem hefur síðan farið víða inn í löggjöf í Evrópu. Nú hafa öll Norðurlöndin nema Ísland lögfest þessa heimild til lögreglu. Af umræðum sem hér hafa verið á síðustu missirum um aðgerðir gegn ofbeldisbrotum sýnist mér veruleg þörf á því að þessi leið verði tekin til alvarlegrar skoðunar. Það þarf að taka það til meðferðar og umfjöllunar á löggjafarsamkundunni hvort ekki sé áríðandi að við förum að skoða það af alvöru að taka þetta úrræði upp í lög.

Aðeins nokkur orð, frú forseti, um það hvernig þessi leið hefur reynst í Austurríki. Þá er frá því að segja að þessi leið felst ekki bara í því að setja heimsóknarbann á ofbeldismanninn eða fjarlægja hann af heimilinu í ákveðinn tíma. Hún felst líka í meðferðarúrræði sem báðir aðilar njóta, ekki bara ofbeldismaðurinn heldur ekki síður fórnarlambið.

Austurríska ríkisstjórnin hefur komið á aðgerðastofnunum sem eru í öllum níu sýslum eða fylkjum Austurríkis. Þær hafa það hlutverk að hafa samband við fórnarlömb þeirra ofbeldismanna sem lögreglan fjarlægir af austurrískum heimilum og fórnarlömbunum er undantekningarlaust boðið upp á viðtalsmeðferð sem á að reyna að tryggja það að ofbeldið haldi ekki áfram. Ofbeldismönnunum er einnig boðið upp á úrræði sem á að koma í veg fyrir að þeir haldi áfram að beita ofbeldi. Samkvæmt þeim heimildum sem ég hef, frú forseti, hefur árangurinn af þessari meðferð verið nokkur en þó kannski ekki eins mikill og Austurríkismenn höfðu vonað. Það er þá fyrst og fremst tregða ofbeldismannanna sjálfra til að taka þátt í meðferðinni sem virðist vera kvartað undan en samkvæmt tölum sem ég hef frá því um áramót 2004/2005 höfðu einungis 11 þúsund af 21 þúsund ofbeldismönnum sem höfðu komist í kast við lögin vegna heimilisofbeldis tekið þátt í meðferðinni. Þetta er því ákveðið áhyggjuefni í Austurríki og menn vinna að því núna að bæta úr í þessum efnum.

Það er athyglisvert þegar við nú ræðum aðgerðir gegn heimilisofbeldi á Íslandi og úrræði gegn ofbeldi almennt að þessi lagasetning í Austurríki er ávöxtur af mjög öflugu samstarfi frjálsra félagasamtaka, femínistahreyfinga ýmissa, lögreglu og ráðherra. Lögreglan tók virkan þátt í mótun löggjafarinnar. Hún hefur því lagt sig fram um að fylgja henni eftir og fara þannig eftir lögunum að það geti skilað góðum árangri. Aðgerðastofnanirnar, sem mér finnst líka athyglisvert að skuli hafa verið komið á fót í Austurríki, eru reknar af frjálsu félagasamtökunum þannig að samstarfið við frjálsu félagasamtökin heldur þar áfram og er mjög kröftugt, opið og skilvirkt og hefur skilað miklum árangri. Þessar aðgerðastofnanir fá upplýsingar frá lögreglunni um öll þau mál sem leiða til brottvikningar ofbeldismanna af austurrískum heimilum. Mér er kunnugt um að til þess að svo mætti verða, til þess að félagasamtök og aðgerðastofnanir fengju þessar upplýsingar, þurfti að gera ákveðna undanþágu frá austurrísku persónuverndarlögunum. Ríkisstjórnin og persónuverndaryfirvöld sáu ástæðu til að gera slíka undantekningu í þessum tilvikum enda málin þannig vaxin að menn töldu nauðsynlegt að allir legðust á eitt til að reyna að sporna við ofbeldinu, sporna við óöryggi og kúgun sem fólk þarf að búa við, helst konur og börn, inni á heimilum sínum.

Þessar aðgerðastofnanir vinna á þeim nótum að innan 24 tíma frá aðgerðum lögreglunnar fá þær upplýsingar um viðkomandi mál. Þær hafa strax samband við það fólk sem fyrir ofbeldinu verður og það er boðað í viðtal. Skilvirkni þessa er gríðarlega mikil því samkvæmt tölum sem ég hef aflað mér munu um 95% þeirra kvenna sem verða fyrir ofbeldinu þiggja þessi viðtöl. Stofnanirnar meta síðan hættuna sem konunum stafar af ofbeldismanninum og meta líkurnar á því að hann komi til með að halda uppteknum hætti og gerð er ákveðin öryggisáætlun sem konunum er gert að fara eftir. Það er athyglisvert í þessu sambandi að lögreglan tekur húslykilinn af húsráðanda þegar brottvikningin er gengin í garð og konunni er með lögum bannað að hleypa ofbeldismanninum aftur inn á heimilið meðan brottvikningin stendur. Hún á yfir höfði sér refsingu ef hún ætlar að láta undan bón ofbeldismannsins. Og samtalið sem þessar aðgerðastofnanir eiga við þessar konur er til þess að stappa í þær stálinu þannig að þær nái einhverjum varanlegum tökum á sjálfum sér og geti þar með spornað við frekara ofbeldi sem mögulega væri í vændum. Þessum konum er öllum veitt lögfræðileg ráðgjöf og svo geta þær haldið áfram í fræðslu og námskeiðum sem eiga að styðja við bakið á þeim áframhaldandi. Sömu meðferðarúrræði eða svipuð standa til boða ofbeldismönnunum sem eru þá unnin í samvinnu við frjáls félagasamtök, ákveðna karlastofu sem hefur gefið sig að þessu verkefni. Austurríska leiðin hefur skilað það góðum árangri að fjöldamörg lönd í Evrópu hafa tekið þessa aðferð upp og beita henni í sínum lögum og þar á meðal öll Norðurlöndin nema Ísland.

Ég sagði áðan að mér fyndist sjónarhornið í þessu frumvarpi vera of þröngt. Mér finnst skipta máli að horft sé vítt yfir sviðið þegar gerðar eru úrbætur af þessu tagi á löggjöf okkar og mér þykir það afar athyglisvert að stjórnvöld skuli hafa kosið að gera þessa breytingu, sem unnin er af refsiréttarnefnd, sem nota bene er þannig skipuð — það er allt í lagi að gera athugasemd við það að mál af þessu tagi skuli ekki fá neina þverfaglega meðferð í sjálfu sér heldur er refsiréttarnefnd einni falið að gera þessa breytingu. Ef ég man rétt situr einungis ein kona í refsiréttarnefndinni og aðrir einstaklingar þar eru karlar sem hafa kannski ekki þá yfirsýn sem ég hefði haldið að ætti að vera eðlilegt að leita eftir þegar löggjöf af þessu tagi er sett.

Í nóvember árið 2004 stóðu 16 félagasamtök og stofnanir fyrir 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Því átaki lauk með áskorun til yfirvalda um að setja fram heildstæða aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi á Íslandi er hefði réttlæti, forvarnir, stuðning og vernd til handa fórnarlömbunum að leiðarljósi. Í kjölfar þessa átaks var settur af stað aðgerðahópur af þessum félagasamtökum og stofnunum gegn kynbundnu ofbeldi á Íslandi og markmið þeirrar vinnu var að stuðla að upplýstri umræðu um málefnið og ekki síst vera stjórnvöldum til stuðnings og leiðbeiningar við gerð aðgerðaáætlunar er tæki til löggjafar, dómstóla, saksóknara og löggæslu, til félagslegra úrræða, fræðslu til almennings og fagaðila ásamt sértækum aðgerðum innan mennta- og heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins. Þessi hópur tók meira að segja saman drög að aðgerðaáætlun og kynnti hana fyrir yfirvöldum og við þingmenn fengum þau drög í hendurnar. Ég verð að segja að það var afar fróðleg lesning. Ég hefði talið að refsiréttarnefnd hefði átt að kíkja á þau drög í vinnunni við þetta frumvarp. Ef þau hefðu verið lesin á þeim vettvangi hefði það getað orðið til þess að breytingarnar hefðu orðið víðtækari en raun ber vitni.

Síðan gerðist það á síðasta ári, ef ég man rétt í októbermánuði, að ríkisstjórnin gaf út yfirlýsingu um að hún ætlaði sér að fara út í það að vinna svona aðgerðaáætlun. Því var auðvitað fagnað hér í þingsal og úti í samfélaginu meðal félagasamtaka sem höfðu veitt hinu opinbera leiðsögn í þessum efnum. Það var gefið út af ríkisstjórnarinnar hálfu að það ætti að vinna þessa aðgerðaáætlun í samvinnu við hagsmunaaðila og frjáls félagasamtök og ég fagna því, og hef gert það áður, að sú skyldi hafa orðið raunin. Á sama tíma tel ég ástæðu til að gagnrýna stjórnvöld fyrir að hafa farið út í þá lagasetningu sem við nú ræðum án þess að leita sér nokkurrar ráðleggingar hjá þessum sömu samtökum sem hafa verið boðin og búin til þess að leggja hönd á plóginn — hæstv. ráðherra veit auðvitað af því. Ég hef á tilfinningunni að slegið hafi verið á útrétta hönd algerlega að tilefnislausu og frumvarpið og málið hefðu fengið mun dýpri umfjöllun og orðið dýpra og yfirgripsmeira ef strax hefði verið farið út í þverfaglegt samstarf.

Það vantar víða í samfélaginu þekkingu á ofbeldi og verulega mikið verk er óunnið í þeim efnum. Þó eru til aðilar úti í samfélaginu sem hafa yfirgripsmikla þekkingu, afburðaþekkingu, á þessum málum. Þar á ég t.d. við Stígamót, Samtök um kvennaathvarf, UNIFEM, neyðarmóttöku vegna nauðgana og þessi þekking kemur auðvitað gríðarlega vel fram í þeim umsögnum sem nefndinni bárust frá þessum aðilum við málsmeðferðina.

Í umsögn Stígamóta er það gagnrýnt, þó að fólk fagni því þar að ákveðið hafi verið að fara í heildarstefnumörkun í þessum málaflokki, á hvern hátt hæstv. dómsmálaráðherra hefur ákveðið að setja það t.d. í hendur einum lögfræðingi, Ragnheiði Bragadóttur lagaprófessor, að endurskrifa hluta af kynferðisbrotakafla hegningarlaganna. Ragnheiður Bragadóttir hefur nýverið skilað frumvarpstexta, tillögu að frumvarpi, til hæstv. dómsmálaráðherra og það er margt afar gott í því frumvarpi og þeim frumvarpstexta sem ég treysti að verði að lögum sem allra fyrst. Ég vil þó segja að betra hefði verið ef vinnan hefði verið unnin af þverfaglegum hópi eða teymi eins og staðið hefur til boða og ég hef rætt hér.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga á þessum sviðum eru umfangsmiklar og áhöld um það hvort við stöndum okkur vel í þeim efnum. Sjálf hef ég komið með fyrirspurnir til hæstv. dómsmálaráðherra í þessu sambandi þar sem nefndir á vegum Sameinuðu þjóðanna hafa skoðað hvernig haldið er á málum og komist að þeirri niðurstöðu að hér sé víða pottur brotinn í meðferð heimilisofbeldismála og ofbeldismála af kynbundnum toga. Þar höfum við fengið ákúrur varðandi dómaframkvæmd, væga dóma og stjórnvöld hafa verið áminnt um það að tryggja að lögin veiti fórnarlömbum ofbeldis næga vernd. Það virðist ekki hafa verið nægilega vel að því gætt í löggjöfinni eins og hún hefur verið hingað til.

Í 2. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum, sáttmála sem undirritaður var í desember 1979, fullgiltur hér á landi 1985, segir að ríkið skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að afnema mismunun gagnvart konum af hálfu einstaklinga, stofnana eða fyrirtækja og í 16. gr. þessa sama samnings kemur fram að aðildarríkin skuli með viðeigandi ráðstöfun afnema mismunun gagnvart konum í öllum málum varðandi hjúskap, og það er merkilegt að það skuli tekið fram, og samskipti innan fjölskyldunnar. Það er beinlínis ljóst að í þessum samningi sem við erum fullgildir aðilar að er gert ráð fyrir því að aðildarríkin tryggi vernd fólks inni á heimilunum. Í ljósi þess hversu mörg brotamál koma upp á yfirborðið í þessum efnum hér hjá okkur og í ljósi þess hversu margar konur leita sér leiðsagnar hjá Stígamótum eða þurfa að leita í Kvennaathvarfið er alveg ljóst að okkur hefur ekki tekist að standa við ákvæði þessa samnings. Það er sannarlega ekki nægilega mikið að gert. Það er synd að svo skuli vera því að þessi samningur hefur verið endurnýjaður með nýjum ályktunum og nýjum samningum og vil ég þar sérstaklega nefna Peking-áætlun Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1995, en þar skuldbundu Íslendingar sig til að setja lög og styrkja núverandi löggjöf varðandi ofbeldi gegn konum.

Það er deginum ljósara að þessar skuldbindingar þurfa að vera miklu skýrari í íslenskum lögum og það frumvarp sem við ræðum hér er óttalega lítið klór í þeim efnum en gott samt, enda er því fagnað af öllum þeim sem gáfu umsagnir til nefndarinnar um þetta mál nema kannski af einhverjum örfáum aðilum sem koma úr annarri átt en Stígamót, Kvennaathvarf og neyðarmóttakan. Það vekur athygli þegar maður les umsagnirnar að bæði ríkissaksóknari og Lögmannafélag Íslands hafa af þessu máli ákveðnar áhyggjur. Þannig segir ríkissaksóknari í sinni umsögn að það megi fallast á það með refsiréttarnefnd að ekki sé nauðsynlegt að lögfesta sérstakt refsiákvæði um heimilisofbeldi sem ég er reyndar ósammála ríkissaksóknara um. Hins vegar efast ríkissaksóknari um að í ákvæðum frumvarpsins komi afdráttarlaust fram ákvörðun löggjafans um aukna réttarvernd þeim til handa sem fyrir heimilisofbeldi verða með þyngri viðurlögum en áður eða með nýjum viðurlagsákvæðum.

Ríkissaksóknari segir enn fremur að ákvæði frumvarpsins virðist leggja í vald dómara að meta hvort tengsl aðila hafi aukið á grófleika verknaðar, samanber 1 gr. frumvarpsins, og meta hvort verknaður verði talinn fela í sér stórfelldar ærumeiðingar, eins og getið er um í 3. gr. frumvarpsins. Ríkissaksóknari segir í umsögn til nefndarinnar, þegar öllu er á botninn hvolft, að leiðsögn löggjafans til dómarans virðist ekki skýr. Ég verð að segja að ég hef af því ákveðnar áhyggjur og sömuleiðis af því að laganefnd Lögmannafélags Íslands tekur að hluta undir þetta með ríkissaksóknara. Hún segir í sinni umsögn, með leyfi forseta:

„Hins vegar er bent á að hugtakið ,,stórfelldar ærumeiðingar“ í fyrirhugaðri 233. gr. b. er tæpast nægilega afmarkað í greinargerð með frumvarpinu, en sérstök þörf er á því að afmarka það nánar eigi það að ná tilgangi sínum. Hið sama gildir einnig um það skilyrði 1. gr. frumvarpsins, þegar tengsl geranda og brotaþola ,,þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins“.“

Ég verð að segja, frú forseti, að undirbúningur þessa frumvarps af hendi hæstv. dómsmálaráðherra er ekki nægilega pottþéttur. Það er ekki ásættanlegt að við skulum sitja uppi með efasemdir frá Lögmannafélagi Íslands og ríkissaksóknara varðandi þetta frumvarp, sem gengur þó þetta skammt í átt að því að vinna gegn kynbundnu ofbeldi í samfélaginu, eins og fram kemur í þessum tveimur umsögnum sem ég hef nefnt.

Mig langar í framhjáhlaupi að nefna umsögn frá Sálfræðingafélagi Íslands sem vekur athygli á því að aldraðir og fatlaðir búi við ofbeldi bæði inni á heimilum og ekki síður inni á stofnunum. Sálfræðingafélagið óskar eftir því við löggjafann að tekið sé til skoðunar á hvern hátt 1. og 3. gr. taki til aldraðra sem búi á stofnunum og verði fyrir ofbeldi af hálfu þeirra sem hafa umönnun þeirra með höndum. Sálfræðingafélagið segir að ekki verði séð að 1. og 3. gr. taki til annars umönnunartengds ofbeldis, svo sem ofbeldis gegn fötluðum og á sambýlum. Ég efast satt að segja um að greinin, þótt ég telji hana ná til heimilisofbeldis sem aldraðir eða fatlaðir verða fyrir af hendi nákominna þá tel ég hana ekki ná yfir ofbeldi sem aldraðir eða fatlaðir geta mögulega orðið fyrir á sambýlum eða inni á stofnunum. Ég tel að þar sé annað dæmi um úrbætur sem gera þarf á löggjöfinni og vinda þarf bráðan bug að.

Það dugir ekki að við drögum lappirnar í málaflokkum þar sem leiðsögnin er til staðar og við höfum útrétta hönd frá fjölda félagasamtaka sem þekkja til málanna af eigin raun og vilja leggja löggjafanum lið. Mér finnst með ólíkindum að þá skulum við þverskallast við og ekki taka í þá útréttu hönd, ekki taka við allri þeirri fræðslu og öllum þeim upplýsingum sem þar eru til staðar sem geta gert löggjöfina þannig úr garði að hún sé pottþétt, öruggari og betri úr garði gerð en hér er lagt til.

Við verðum að hafa í huga, frú forseti, að heimilisofbeldi er atferlismunstur. Það er einstakt atferlismunstur. Við erum ekki að fjalla um jaðartilvik. Við erum að fjalla um atferlismunstur og tilvik sem verður að taka á í ljósi þeirrar þekkingar sem til staðar er í samfélaginu og nýta þá þekkingu sem t.d. kynjafræðin hefur aflað um þessi mál. Ég held að við þyrftum þar af leiðandi að skoða málið í mjög víðu samhengi. Okkur var t.d. bent á það af ákveðnum umsagnaraðilum að tilefni hefði verið til að taka frumvarpið til skoðunar í tengslum við það forsjárfrumvarp sem fer núna í gegnum allsherjarnefndina. Þar höfum við einmitt fjallað um ofbeldi í samböndum og ofbeldi við skilnað. Við höfum fræðst um það í sambandi við meðferð þessa máls að í fræðunum sé til hugtakið „skilnaðarofbeldi“, sem er ekki augljóst eða að allir viti um slíkt. Ég tel að hér séu mýmörg dæmi um að þetta mál hefði mátt skoða á víðtækari hátt og auka dýpt frumvarpsins og dýpt hinna væntanlegu laga. Það er t.d. athyglisvert sem hefur komið fram frá Kvennaathvarfinu, að kynjabreytan þyrfti að vera til staðar vegna þess eðlis sem heimilisofbeldi lýtur. Þess er saknað að við skilgreinum ekki í lögum heimilisofbeldi eins og nágrannaþjóðir okkar hafa þó gert í sínum lögum, t.d. Norðmenn.

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í þessum efnum sé gríðarstórt. Verkefnið er í mínum huga að útrýma kynbundnu ofbeldi. Það sem við erum að gera hér er einungis það að auka réttarvernd þeirra sem fyrir slíkum brotum verða. Það er í sjálfu sér af hinu góða og þess vegna styð ég auðvitað frumvarpið og tel að það verði að lögum vonum seinna. Það hefði auðvitað átt að vera komið í lög. En ég ítreka þau sjónarmið mín að betur má ef duga skal. Löggjafinn verður að taka á heimilisofbeldi, kynbundnu ofbeldi, og horfa á heildarmyndina. Tryggja þarf að þegnar þessa samfélags þurfi ekki að búa við yfirvofandi hættu, jafnvel inni á heimilum sínum eins og raun ber vitni. Það segja tölur sem við höfum skoðað í allsherjarnefnd og ætla má að séu réttar. Ég segi: Betur má ef duga skal, en þetta frumvarp er þó af hinu góða.