132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Almenn hegningarlög.

365. mál
[17:13]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú erum við kannski komin út á hálan ís í andsvörum, þ.e. farin að ræða um kjarnafemínisma. Ég vil svo sannarlega ræða kjarnafemínisma við hv. þm. Birgi Ármannsson en kannski ekki í tveggja mínútna ræðu, sem ég hef núna möguleika á að flytja. En ég vil sannarlega taka þá snerru.

Auðvitað er það rétt sem hv. þingmaður segir, að við ræðum þessi mál í allsherjarnefnd og ég treysti því að umræðan sem þar fer fram beri okkur lengra á veg. Mér er það gersamlega óskiljanlegt hvers vegna fólk þverskallast við í þessum efnum. Mér finnst augljóst að heimilisofbeldi er kynbundið ofbeldi, þ.e. langstærsti hluti þeirra sem verða fyrir ofbeldinu eru börnin og konurnar. Konurnar verða fyrir ofbeldi karlanna þegar heimilisofbeldi er annars vegar. Það hlýtur að vera hluti af kynbundnu ofbeldi og kynbundnu ofbeldismunstri sem viðgengst í samfélagi okkar.

Við höfum það mikið af fræðigreinum, úttektum og rannsóknum í þessum efnum að við ættum að geta sópað þokunni frá augum okkar hvað þetta varðar. Þess vegna er ég á því að við þurfum að meðhöndla þessi lagaákvæði sem varða kynbundið ofbeldi á sérstakan hátt. Við þurfum að taka ákveðinn kúrs í femíniskum fræðum, í kynjafræðum, til að ná áttum. Ég þykist hafa tekið ágætan kúrs í þeim efnum með því að hafa verið stjórnmálamaður í femíniskum flokki í sjö ár. Ég er tilbúin til að miðla af þeirri þekkingu og reynslu sem ég hef aflað mér í þessum efnum til þingheims hvenær sem er. Ég reyni að láta þess sjást stað í ræðum mínum og málflutningi á þinginu.

Ég held að kominn sé tími til að allir þingmenn og allir stjórnmálaflokkar átti sig á því að það er bara þunn himna sem við eigum eftir að fara í gegnum til að við áttum okkur á því að kynbundnu ofbeldi verður að útrýma úr samfélaginu.