132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Almenn hegningarlög.

365. mál
[17:16]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna meira en orðið er vegna þess að það má segja að ágreiningur okkar hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur er í sjálfu sér óháður efni þess frumvarps sem verið er að ræða, þ.e. við þurfum ekki að útkljá deilu okkar til að vera sammála um að það eigi að samþykkja þetta frumvarp, þess vegna ætla ég ekki að fara lengra í það.

Ég hins vegar verð að árétta þá skoðun mína að refsilög í landinu, lög sem fela í sér bann við tiltekinni háttsemi og fela í sér refsingu við þeirri háttsemi eiga að mínu mati að vera þau hin sömu hver sem í hlut á, hver sem brotamaðurinn er og hver sem brotaþolinn er. Undantekningu gerum við á varðandi börn vegna þess að þau eru sérstaklega viðkvæm og við höfum sérákvæði að sumu leyti varðandi börn. Ég hins vegar held að við lendum mjög fljótt í ógöngum ef við ætlum að afmarka, ef við ætlum varðandi önnur brot að gera greinarmun á kynjunum vegna þess að röksemdirnar, jafnvel þó að það sé rétt sem oft hefur verið bent á að einstaklingar af tilteknu kyni séu fleiri í hópi brotamanna eða brotaþola, þá er brotið hið sama ef við horfum á einstaklinginn sem fremur brotið og einstaklinginn sem verður fyrir brotinu. Það er jafnalvarlegt brot þegar karl brýtur á karli og þegar kona brýtur á konu eða þegar karl brýtur á konu eða kona á karli. Í mínum huga eru þessi brot öll jafnalvarleg og afleiðingarnar fyrir fórnarlömbin geta verið jafnalvarleg. Þess vegna vil ég ekki gera þennan greinarmun á grundvelli kynferðis.

Hitt er annað og um það erum við hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir alveg áreiðanlega sammála að það frumvarp sem við höfum verið að ræða og erum í grundvallaratriðum sammála um er jákvætt skref. Við leggjum mismikið upp úr því en við erum sammála um að það sé jákvætt skref og að þetta frumvarp beri að samþykkja. En eftir standa ákveðin ágreiningsefni sem við munum halda áfram umræðu um á vettvangi allsherjarnefndar og í þingsal. Frumvarpið sem slíkt er jákvætt og mikilvægt er að það nái fram að ganga. Svo getum við við betra tækifæri deilt um femínisma og kynbundin sjónarmið við ákvörðun refsiákvæða.