132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[17:46]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála því sem fram kom hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni.

Í álitsgerð borgarritara til borgarstjóra, sem er dagsett 28. nóvember 2002 og lögð var fram í allsherjarnefnd við meðferð þessa máls segir borgarritari, með leyfi forseta:

„Ríkislögmaður kemst að þeirri niðurstöðu að úrskurður óbyggðanefndar hafi hvorki breytt eignahlutföllum né réttarstöðu eigenda Landsvirkjunar þar sem í framsali þeirra réttinda sem ríki lagði til fyrirtækisins við stofnun þess hafi ekki falist bein eignayfirfærsla heldur eingöngu hagnýtingarréttur á vatni og landi sem þurfi til að reka virkjun eða virkjanir.“

Enn fremur segir borgarritari og vitnar í álit ríkislögmanns, með leyfi forseta:

„Á grundvelli framangreindra gagna telur ríkislögmaður ósannað að skilja megi framsal íslenska ríkisins samkvæmt 3. tölulið a-liðar 2. gr. sameignarsamningsins frá 1. júlí 1965 sem hefðbundið einkaréttarlegt framsal fasteignar.“

Þetta álit ríkislögmanns frá 12. september 2002 hef ég því miður ekki undir höndum heldur einungis tilvitnun borgarritara í það. Það mun ekki hafa verið lagt fram í allsherjarnefnd. En ég hef gert ráðstafanir til að afla þessarar álitsgerðar ríkislögmanns og vonandi fæ ég hana á morgun. Mér finnst það vera mikið gagn vegna þess að ríkislögmaður talar fyrir hönd ríkisins.