132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[18:12]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki miklu við málið að bæta öðru en að mér finnst ástæða til að skoða það milli 2. og 3. umr. Menn þurfa að fá það skýrt inn í sali Alþingis hvort þörf er á þessu. Hefur Landsvirkjun ekki óumdeilanlegan nýtingarrétt á þessum réttindum að óbreyttu, ef ekkert er gert hér á vegum Alþingis hvað málið varðar?

Ef það er niðurstaðan tel ég fráleitt að vera með slíka lagasetningu í þessu samhengi. Ég sé það fyrir mér að innan skamms fari vonandi fram lagasetning sem verði til þess hugsuð að þær auðlindir sem þetta fyrirtæki hefur til nýtingar verði settar í það form að fyrirtækið greiði það sem eðlilegt er fyrir aðgang að þeim auðlindum sem eiga að vera til framtíðar í þjóðareign. Mér finnst mikilvægt að þessi hluti þeirra auðlinda verði undir sömu sök seldur og aðrir hlutar. Ef hætta er á að svo verði ekki er besta niðurstaðan í þessu máli að því verði fleygt.