132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[18:13]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að mörgu leyti sammála því sem fram kom hjá hv. þingmanni. Fyrstu lögin um Landsvirkjun og sameignarsamningurinn standa fyrir sínu og tryggja Landsvirkjun nýtingarréttinn. Það er niðurstaða óbyggðanefndar og ríkislögmanns, að þau ákvæði tryggi nýtingarréttinn og óumdeilt eigi að vera að sá réttur sé fyrir hendi. En þessir aðilar segja að ákvæði þessara samninga og laga segi ekkert um að Landsvirkjun eigi að fá eignarréttindin. Þess vegna á Landsvirkjun ekkert að hafa þau eignarréttindi. Það breytir ekki hlutföllum eigenda þótt eignarréttindin séu ekki inni í fyrirtækinu sem framlag ríkisins vegna þess að það var ekki gert ráð fyrir því að þau væru þar. Þess vegna hefur ríkið áfram 50% hlut í fyrirtækinu þótt þessi réttindi séu fyrir utan, af þeirri einföldu ástæðu að það stóð aldrei til að þau færu inn.

Þetta er það sem ég les úr gögnum málsins og mér finnst það mjög skýrt. Þess vegna set ég spurningarmerki við tilgang þessa frumvarps. Hvers vegna er verið að flytja þetta frumvarp? Það er auðvitað ákveðin hætta á að þessi réttindi verði síðan seld með eignum fyrirtækisins þegar fram líða stundir. Ég spyr: Hafa þeir eigendur greitt fyrir þau réttindi? Það eru ekki til neinar upplýsingar um hvað þetta eru verðmæt réttindi og ég held að það sé nauðsynlegt að fá upplýsingar um það fyrir 3. umr. en framsögumaður nefndarinnar hefur tekið að sér að afla þeirra. Ég fagna því og vona að við fáum þær upplýsingar áður en 3. umr. hefst svo við getum rætt málið í ljósi þeirra.