132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[18:23]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í ljósi athugasemda hv. 7. þm. Norðvesturkjördæmis skal það undirstrikað að þeir hv. þingmenn sem nefndir hafa verið gerðu fyrirvara þegar gengið var frá nefndaráliti innan allsherjarnefndar. En það kom ekki skýrt fram á fundi nefndarinnar hvaða atriði þetta voru sem þeir gerðu fyrirvara við. En hitt er annað mál að ég hygg að þingmenn sem gera fyrirvara við nefndarálit verði sjálfir að bera ábyrgð á því hvort þeir skýra þá fyrirvara í umræðum eða ekki. Eins og þekkt er í þinginu er það með mismunandi hætti hvort það er gert með skýrum hætti eða ekki.

Ég get upplýst að á fundi nefndarinnar var það ekki orðað skýrt og þess vegna ekki fært inn í nefndarálit hvaða tilteknu atriði það voru sem fyrirvarar voru gerðir við.