132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Endurnýjun sæstrengs.

509. mál
[12:04]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tækifæri til að svara þeirri fyrirspurn sem hér er lögð fyrir en hún hljóðar þannig:

„Hvað líður vinnu við endurnýjun sæstrengs til að tryggja netsambönd við útlönd?“

Svar mitt er svohljóðandi: Mikilvægi öruggra fjarskiptasambanda við umheiminn verður seint ofmetið og tek ég undir það með hv. þingmanni. Þau verða sífellt mikilvægari stoð fyrir daglegt líf borgaranna og rekstur fyrirtækja og stofnana í landinu. Verulegir öryggis- og viðskiptahagsmunir eru bundnir við millilandasambandið og röskun á því getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið.

Fjarskiptaáætlun sem ég lagði fyrir þingið og Alþingi samþykkti sem þingsályktun, tekur mið af þessu en í henni eru eftirfarandi meginmarkmið. Þar segir:

„Öryggi almennra fjarskiptaneta innan lands og við umheiminn verði tryggt með fullnægjandi varasamböndum.“

Mikil breyting til batnaðar var þegar Farice-sæstrengurinn var tekinn í notkun. Nú er staðan þó sú að millilandasambandið um Farice-1 strenginn hefur rofnað ítrekað á undanförnum mánuðum, raunar ekki í sjó heldur uppi á landi í Skotlandi en Farice-fyrirtæki hefur nú þegar með samningum verulega bætt úr þeirri aðstöðu og aukið öryggið á þeirri leið þannig að það öryggi hefur stórbatnað.

Jafnframt er ljóst að Cantat-3 sem hefur m.a. verið notaður til vara, mun ekki duga til lengri tíma litið. Það má því segja að nú sé uppi sú staða að stærsti einstaki veikleiki í öryggi landsins á fjarskiptasviði séu tengingar við útlönd.

Það ber þó að undirstrika og taka alveg sérstaklega fram að símafyrirtækin leggja að sjálfsögðu mat á öryggi í þessum fjarskiptum og þessum samböndum og það er mat þeirra að ekki sé ástæða til að fjárfesta í öðrum sæstreng til viðbótar við Farice-1 að svo komnu máli. Ráðuneytið hefur óskað eftir því að Póst- og fjarskiptastofnun skoði sérstaklega stöðu millilandatenginga en auk þess hef ég af þessu tilefni ákveðið að skipa sérstakan starfshóp til að gera tillögur um hvernig tryggja megi varasamband við umheiminn í framtíðinni. Ákveðið hefur verið að óska eftir tilnefningum frá stærstu meðeigendum ríkisins hér á landi í Farice auk tveggja fulltrúa frá samtökum atvinnulífsins og fulltrúa Sambands banka og verðbréfafyrirtækja en bæði bankar og verðbréfafyrirtæki og önnur atvinnufyrirtæki eiga auðvitað mjög mikið undir því að fjarskiptin séu trygg. Formaður þessa starfshóps er ráðuneytisstjórinn í samgönguráðuneytinu.

Ég vil nota þetta tækifæri, virðulegur forseti, til að rifja aðeins upp að það er ekki mjög langt síðan Farice-strengurinn var lagður. Síminn, Landssími Íslands hf., hafði þá um nokkurn tíma unnið að undirbúningi þess að auka öryggið. Það voru gervihnattasambönd sem voru varaleiðirnar, til viðbótar við Cantat-3, sem gefa alls ekki nægjanlegt öryggi og það fer alls ekki nægjanleg flutningsgeta um gervihnetti miðað við það sem strengirnir gefa. Síminn hafði undirbúið þetta á sínum tíma en niðurstaðan hjá símafyrirtækjunum varð þá sú að þau treystu sér ekki til að leggja sæstrenginn öðruvísi en ríkið kæmi að og þess vegna var það að ríkissjóður, þ.e. samgönguráðuneytið kom að þessu verkefni og Farice-1 varð að veruleika og strengurinn var lagður í samstarfi við símafyrirtækin hér innan lands og færeysku símafyrirtækin einnig. Ég tel að þetta hafi verið rétt ákvörðun og í því ljósi höfum við áfram unnið í góðu samstarfi við símafyrirtækin að því að þróa þetta starf, sem er mjög mikilvægt.