132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Endurnýjun sæstrengs.

509. mál
[12:10]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hér hreyfir hv. fyrirspyrjandi mjög mikilvægu máli sem er að sjálfsögðu netsamband okkar við útlönd. Það vita allir að samskipti aukast dag frá degi milli heimshluta og milli landa. Heimurinn fer minnkandi og það skiptir miklu máli hvernig þjóðbraut okkar til annarra landa í þessum efnum er og hvernig tekst að fara um hana og mikilvægt að hún lokist ekki vegna einhverra hluta.

Ég hjó eftir því hjá hæstv. ráðherra að það á að skipa starfshóp eða nefnd í málið og er það gott, en þætti vænt um ef hæstv. ráðherra gæti sagt okkur svolítið um tímarammann á þeirri nefnd, hvort nefndinni verður settur einhver tímarammi þannig að við getum átt von á niðurstöðu hennar fljótar heldur en seinna. Það er að sjálfsögðu óeðlilegt ástand og alls ekki ásættanlegt ef við lendum í því eins og gerðist með Farice-strenginn þegar rottugangur í skosku hálöndunum varð til þess að netsamband féll niður. Úr því hljótum við að þurfa að bæta.