132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Ummæli samgönguráðherra í fyrirspurn.

[12:18]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég óska eftir því við hæstv. forseta að hún gefi mér rými til að bregðast við þeim furðulega útúrsnúningi sem kom fram í máli hæstv. ráðherra um að ég væri að leggja til að að ríkið legði sérstakan og annan sæstreng við hliðina á Farice-1. Að sjálfsögðu ekki.

Ég var að bregðast við ummælum hæstv. ráðherra, virðulegi forseti, um að símafyrirtækin teldu ekki tímanlegt að gera það, en auðvitað ekki að ríkið ætti eitt og sér að ráðast í það verkefni. Auðvitað er um að ræða einhvers konar samkeppnisrekstur. En ég er að óska eftir því, frú forseti, að mér verði veitt rými til að bregðast við þessum undarlega áburði hæstv. samgönguráðherra (Forseti hringir.) sem var algjörlega úr takti við fyrirspurn mína og ég vil nota þetta tækifæri til þess.

(Forseti (RG): Forseti biður þingmann að virða það að forseti getur ekki heimilað efnisumræðu eftir að umræðu um fyrirspurn er lokið. Þingmaður hefur óskað eftir að taka til máls um fundarstjórn forseta. Hann er ekki að bera af sér sakir eða annað slíkt og þingmaðurinn verður að leita annarra leiða til að koma með fyrirspurn eða leita svara hjá hæstv. samgönguráðherra um það efnisatriði sem hér um ræðir. Forseti hefur ekki tök á að heimila þingmanninum frekari umræðu um fyrirspurnina.)

Ég þakka hæstv. forseta það að mér hafi gefist örlítið rými til að vísa þessum fráleitu ásökunum á bug.