132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Endurnýjun Herjólfs.

513. mál
[12:24]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr: „Hafa stjórnvöld kannað möguleika á því að stærri og hraðskreiðari ferja verði keypt til siglinga milli lands og Vestmannaeyja í stað þess Herjólfs sem nú er í notkun? Ef ekki, hyggjast stjórnvöld þá kanna málið?“

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að það kom mér nokkuð á óvart þegar þessi fyrirspurn kom fram frá hv. þingmanni. Það kom upp í huga minn hvort það hefði virkilega farið fram hjá hv. þingmanni að sérstök nefnd er að störfum við að skoða alla framtíðarmöguleika í tengingum og samgöngum til og frá Vestmannaeyjum. Þess vegna kom þessi fyrirspurn mér nokkuð á óvart. Ég hlýt að gera þá kröfu til hv. þingmanna að ekki sé verið að setja á fyrirspurnartíma á Alþingi um mál sem hv. þingmenn í viðkomandi kjördæmi vita upp á hár hvar standa og hvernig vinnan fer fram.

Að störfum er nefnd, undir forustu Páls Sigurjónssonar verkfræðings, sem hefur það hlutverk að fara í saumana á þeim möguleikum sem uppi eru varðandi framtíðarsamgöngur til Vestmannaeyja. Þar eru aðallega þrír kostir eins og hv. þingmenn þekkja. Nefndinni var uppálagt að skoða jarðgangakostinn, ferjulægi Bakkafjöru og nýjan Herjólf. Þegar lögð eru á ráðin um að skoða kosti þess að ferjan verði endurnýjuð hljótum við auðvitað að skoða alla kosti, t.d. svipað skip eða eins og talað hefur verið um, einhvers konar háhraðaferju. (ÖS: Hvað með jarðgöngin?) Nefndin er að störfum og ég fæ væntanlega tækifæri til að gera grein fyrir jarðgöngum síðar. En staðan er þessi.

Nefndin er að störfum og ég vænti þess að hún skili mér niðurstöðum innan ekki mjög langs tíma. En þó er rétt að árétta að nefndin fær þann tíma sem hún telur sig þurfa til að skila vandaðri vinnu og vel ígrunduðum tillögum til ráðuneytisins.

Varðandi skoðun á kaupum á háhraðaferju, ef þingmaðurinn er að velta því fyrir sér, sem fer ekki á milli mála, þá gerði nefnd sem ég skipaði um samgöngur til Vestmannaeyja í maí 2002 nokkra skoðun á því og skilaði niðurstöðum sínum í mars 2003. Hún gerði grein fyrir kostum og göllum háhraðaferju á þessari siglingaleið og þótti hún ekki fýsilegur kostur vegna þess hversu frátafir yrðu miklar vegna sjólags. Ferja sem gengur á miklum hraða á þessari siglingaleið, sem er með allra erfiðustu siglingaleiðum hér við land, þyrfti að vera þannig búin að þola það álag. Auk þess liggur það fyrir að sjólag er stundum þannig að frátafir verða óljósar

Ég geri því ráð fyrir að hv. þingmenn meti það svo að við þurfum að velja skip sem fellur vel að þessum aðstæðum. En auðvitað er alveg sjálfsagt og nauðsynlegt að skoða alla þessa kosti. Ég lít svo á að nefndin, sem í eru bæði reyndir sérfræðingar og menn sem þekkja vel til siglingaleiðarinnar og aðstæðna í Vestmannaeyjum og þörfinni fyrir góðum samgöngum til eyja, muni vara vandlega yfir þetta og ég fái í hendurnar góða úttekt og góða skýrslu um þá lausn sem talin er best til að tryggja samgöngur við Eyjar.

Að öðru leyti þakka ég hv. þingmanni fyrir að gefa okkur tækifæri til að ræða þetta. Samgöngur við Vestmannaeyjar er viðfangsefni sem er mjög brýnt. Ég kveinka mér alls ekki undan því að taka þátt í umræðu um það en ég hefði talið eðlilegt að hv. þingmenn biðu ögn eftir niðurstöðum þeirrar vinnu sem er í gangi og þess vegna benti ég á það í upphafi svars míns.