132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Endurnýjun Herjólfs.

513. mál
[12:30]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Vestmannaeyingar eru með gríðarlega miklar væntingar til þeirrar nefndar sem er að skoða þessa þrjá möguleika og verður mjög spennandi að heyra niðurstöðu hennar þegar hún kemur, en í nefndinni er valinn maður í hverju rúmi. Það skiptir miklu máli að það verði sannferðugt sem kemur frá nefndinni og að allir kostir verði skoðaðir gaumgæfilega. Samgöngur við Vestmannaeyjar eru afskaplega brýnt mál, ekki bara fyrir Vestmannaeyinga heldur líka aðra landsmenn og má að geta þess að Rangæingar líta sannarlega mjög hýru auga til þess ef gerð yrði ferjuhöfn við Bakkafjöru og hugsa til þess að það muni ekki síst koma þeim landshluta til góða. Þá er jafnvel hugsanlegt að við sameiningu sveitarfélaga yrði sameining þarna á milli.