132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Aðstaða farþega á Egilsstaðaflugvelli.

518. mál
[12:40]
Hlusta

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn frá hv. þm. Hlyni Hallssyni sem hljóðar svo:

„Hvenær er fyrirhugað að ráðast í framkvæmdir til að bæta aðstöðu farþega á Egilsstaðaflugvelli?“

Um Egilsstaðaflugvöll fóru í fyrra um 127 þúsund farþegar og var það þriðja árið í röð sem metfjöldi farþega fór um flugvöllinn og allt stefnir í enn eitt metárið árið 2006 með sama áframhaldi. Gert er ráð fyrir að millilandaflug um Egilsstaðaflugvöll þrefaldist á þessu ári. Í fyrra fóru um 30 flugvélar um völlinn í millilandaflugi en þær verða um 100 næsta ár ef áætlanir ganga eftir. Í dag lenda um 150–200 vélar á Egilsstaðaflugvelli í mánuði.

Fyrir þrem árum voru gerð drög að stækkun flugstöðvarinnar á Egilsstaðaflugvelli um 400 fermetra en ákvörðun samgönguyfirvalda hefur látið á sér standa. Plássleysi er því farið að valda starfsmönnum og flugfarþegum sem um völlinn fara miklum óþægindum. Samkvæmt upplýsingum virðist ekkert lát vera á aukinni umferð um Egilsstaðaflugvöll því að í janúarmánuði lentu þar 179 flugvélar, sem er 11% aukning frá því í sama mánuði í fyrra, og farþegum fjölgaði um 32 þúsund og voru 10.519. Helstu þættir sem gera þarf bráðaúrbætur í varða öryggismál, almenn þrengsli í flugstöðinni og tollafgreiðslu.

Hæstv. forseti. Aðstaðan fyrir flugvernd er ófullkomin og fer öll skoðun fram í einni gegnumlýsingarvél sem annars er ætluð fyrir stærri varning svo sem lestarfarangur. Engin leitarvél er sérstaklega ætluð fyrir handfarangur. Þegar innrita þarf í utanlandsflug þarf að loka fyrir innritun í innanlandsflug, sem er náttúrlega ótækt og takmarkar umferð um völlinn. Einnig er bæði innritun og skoðun utanlandsfarþega tímafrek þar sem aðstaða til tollskoðunar, vegabréfaskoðunar og vopnaleitar er nánast engin og notast er við aðstöðu flugverndar. Líkamsleitin fer fram í kaffistofu starfsfólks. Það þýðir að tollafgreiðsla farþega getur ekki hafist fyrr en að lokinni öryggisskoðun og innritun brottfararfarþega. Komusalurinn er 90 fermetrar og aðskilnaður fyrir komu- og brottfararfarþega ekki fyrir hendi. Þetta er andstætt kröfum um flugvernd. Auk þess eru bílastæði ófullnægjandi og fyrirliggjandi tillaga um stækkun er engan veginn nóg eins og umferð er orðin. Eins og staðan var í janúar, og birtist mynd af því í blöðum, voru 202 farþegar í komusalnum og höfðu u.þ.b. hálfan fermetra á mann en 22. janúar voru þeir 396 auk fylgdarfólks.

Samkvæmt nýlegum fréttum lýsti hæstv. samgönguráðherra Sturla Böðvarsson því yfir að flugstöðin á Egilsstaðaflugvelli yrði stækkuð og er það vel. Ráðherra sagði að Flugmálastjórn væri að láta hanna stækkun flugstöðvarinnar og framkvæmdir hefjist á þessu ári. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef í samantektarskýrslu um Egilsstaðaflugvöll liggur fyrir tillaga að stækkun flugvallarins þar sem bent er á að tryggja þurfi fjármagn til framkvæmda verksins.

Því spyr ég hæstv. samgönguráðherra: Þarf fleiri tillögur eða er hægt að bæta úr aðstöðunni strax? Það er alveg ljóst að ekki er hægt að bjóða fólki upp (Forseti hringir.) á þessa aðstöðu.