132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Aðstaða farþega á Egilsstaðaflugvelli.

518. mál
[12:43]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og bæði núverandi og fyrrverandi varaþingmanni fyrir þann áhuga sem þeir sýna þessu verkefni. Það er deginum ljósara að bæta þarf úr aðstöðu á Egilsstaðaflugvelli. Sem betur fer er mikil umferð um Egilsstaðaflugvöll vegna stórframkvæmda á Kárahnjúkum og það er meginástæðan fyrir því að stundum er mikil örtröð í flugstöðinni.

Ég hef lýst því yfir að ráðist verði í framkvæmdir á þessu ári en það þarf að sjálfsögðu að gerast á grundvelli þess að gott samráð sé haft bæði við fjárlaganefnd Alþingis og samgöngunefnd, vegna þess að þessi framkvæmd er ekki inni á gildandi samgönguáætlun. Það var talið á þeim tíma þegar samgönguáætlun var afgreidd í þinginu að ekki þyrfti að svo komnu máli að gera ráð fyrir þessum framkvæmdum en engu að síður var gert ráð fyrir því að við endurskoðun á gildandi samgönguáætlun yrði þetta verkefni tekið til skoðunar. Með sama hætti gerðum við ráð fyrir að við endurskoðun á samgönguáætluninni sem er í gildi núna yrði bæði skoðuð lengingarþörfin á Egilsstaðaflugvelli og Akureyrarflugvelli og endurbætur í flugstöðinni. Hins vegar, og sem betur fer fyrir okkur á Íslandi, er aukningin í ferðalögum fólks, bæði til og frá landinu og innan lands um flugvellina, svo mikil að það er óhjákvæmilegt að taka til hendinni eins og við erum að gera og bæta bæði úr hvað varðar flugvöllinn á Egilsstöðum, flugstöðina, og sömuleiðis flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Innanlandsflugið, og þar með talið til Egilsstaða, verður ekki rekið með góðu móti í framtíðinni nema flugvöllurinn verði í höfuðborginni, (JGunn: Vitleysa.) og ég fagna því að hv. þingmaður og fulltrúi Samfylkingarinnar á Alþingi grípi fram í fyrir mér með því að fullvissa mig um að hv. þingmaður styðji þau áform að innanlandsflugið hafi góða aðstöðu í höfuðborginni.

Fyrirspurnin sem hér er til umfjöllunar er fullkomlega eðlileg. Við munum hefja framkvæmdir á þessu ári við að stækka flugstöðina og stórbæta þá aðstöðu sem er ekki eins og hún þarf að vera, eins og kom mjög vel fram í ágætri ræðu þingmannsins. Okkur er það alveg ljóst í samgönguráðuneytinu og það mun ekki líða langur tími þangað til hægt verður að fjalla um þessa framkvæmd og koma henni af stað, bæði á vettvangi ráðuneytisins og Flugmálastjórnar og sömuleiðis skipulagsyfirvalda í sveitarfélaginu. Við þurfum að hlúa mjög að innanlandsfluginu, við þurfum að leita allra leiða og standa mjög vel að framkvæmdum sem styrkja innanlandsflugið. Ísland er dreifbýlt land, sjötta dreifbýlasta land í veröldinni, og við þurfum mjög á flugsamgöngum að halda.

Þess vegna er ég er afar ánægður með hversu góðan stuðning ég hef sem samgönguráðherra hér í þingsölum við þau áform mín að leita allra leiða til að efla innanlandsflugið með því að bæta úr flugvallaraðstöðunni. Við höfum verið að því. Við höfum stórbætt aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli, hann er nýendurbyggður, og verið er að undirbúa samgöngumiðstöð sem gert er ráð fyrir að þjóni honum. Framkvæmdir eru á Ísafjarðarflugvelli og Þingeyrarflugvelli til að styrkja innanlandsflugið enn betur. Og verið er að undirbúa að bæta með lengingu Akureyrarflugvöll og flugstöðina á Egilsstöðum. Það er af mörgu að taka, en ég hvet hv. þingmenn til þess að standa áfram með samgönguráðherranum í þeim áformum að efla innanlandsflugið með öllum ráðum.